Efnahagsmál - 

05. janúar 2009

Framlag íslenskra stjórnvalda til loftslagsviðræðna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Framlag íslenskra stjórnvalda til loftslagsviðræðna

Á fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem nýverið fór fram í Póllandi, var fjallað um fyrirhugað alþjóðlegt samkomulag um loftslagsmál sem ætlunin er að ljúka á þessu ári. Aðildarríkin hafa að undanförnu sent inn tillögur sínar um það sem þau telja mikilvægt að felist í nýjum samningi. Íslensk stjórnvöld sendu inn sínar tillögur þann 5. desember síðastliðinn en þær eru í fimm hlutum og tengjast nokkurn veginn þeirri efnisskipan sem búast má við að nýr samningur byggi á. Á vef SA er þessum tillögum lýst í stuttu máli en þeir hlutar sem helst tengjast aðgerðum hér á landi er útstreymi gróðurhúsalofttegunda, yfirfærsla tækniþekkingar og endurheimt votlendis.

Á fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem nýverið fór fram í Póllandi, var fjallað um fyrirhugað alþjóðlegt samkomulag um loftslagsmál sem ætlunin er að ljúka á þessu ári. Aðildarríkin hafa að undanförnu sent inn tillögur sínar um það sem þau telja mikilvægt að felist í nýjum samningi. Íslensk stjórnvöld sendu inn sínar tillögur þann 5. desember síðastliðinn en þær eru í fimm hlutum og tengjast nokkurn veginn þeirri efnisskipan sem búast má við að nýr samningur byggi á. Á vef SA er þessum tillögum lýst í stuttu máli en þeir hlutar sem helst tengjast aðgerðum hér á landi er útstreymi gróðurhúsalofttegunda, yfirfærsla tækniþekkingar og endurheimt votlendis.

Í tillögum stjórnvalda er í fyrsta lagi fjallað um sameiginlega sýn til framtíðar, í öðru lagi um leiðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, í þriðja lagi er rætt um aðlögun að loftslagsbreytingum, í fjórða lagi um tæknisamvinnu milli iðnríkja og þróunarríkja og í fimmta lagi um breytingar á landnotkun, skógareyðingu og skógrækt.

Samantekt SA á tillögum íslenskra stjórnvalda má nálgast hér að neðan. 

Tillögurnar á ensku er að finna í viðhengi í lok samantektarinnar:

Sameiginleg sýn
Íslensk stjórnvöld telja mikilvægt að vörðuð sé leið til samfélags þar sem dregið er úr notkun kolefnis með markvissum aðferðum og að sett verði vel skilgreint markmið til lengri tíma. Þetta markmið verði metnaðarfullt en einnig verði ákveðin skref til að takmarka og draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Til að þetta geti náð fram að ganga þarf pólitískan vilja og virka þátttöku stjórnvalda, atvinnulífs og almennings. Jafnvægi kynja er mikilvægur þáttur í þessu skyni.

Loftslagsvitund verður að vera samofin stefnumótun í efnahags- og þróunarmálum. Ákvarðanir um fjárfestingar í loftslagsvænni tækni verða að hafa forgang sérstaklega í orkumálum. Sú leið sem farin verður þarf að vera fær og styðja sjálfbæra þróun og aðgerðir verða að vera hagkvæmar. Kolefnismarkaður verður að vera alþjóðlegur.

Samdráttur útstreymis
Kjarni þess að ná markmiðum loftlagssamningsins felst í að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Endurnýjað samkomulag verður að vera áhrifaríkt og sanngjarnt og byggja á tækniþróun og samvinnu. Þessu verður að fylgja fjárhagslegur stuðningur við þróunarríki. Þróuð ríki verða að taka á sig tölusett markmið um samdrátt útstreymis og þróunarríki grípa til þeirra aðgerða sem hæfa.

Nauðsynlegt er að það sem ríki leggja á sig sé sambærilegt að teknu tilliti til aðstæðna. Í því skyni er nauðsynlegt að huga að tvennu þ.e. að samanburði möguleika stórra og smárra ríkja og að kostum geiranálgunar þar sem sambærilegar kröfur eru gerðar í öllum iðnríkjum. Bent er á að bygging (eða úrelding) einnar verksmiðju geti breytt útstreymi á Íslandi um meira en 10%. Á þessu hafi verið tekið við gerð Kyoto-bókunarinnar og á þessu verði einnig að taka nú þannig að skortur á sveigjanleika í smáríkjum feli hvorki í sér hlutfallslega kosti eða ókosti.

Rakið er að geiranálgun geti falið í sér raunhæfar lausnir til að draga úr útstreymi og virkað sem hvati á þátttöku atvinnulífs í aðgerðum.

Aðlögun að loftslagsbreytingum
Aðlögun er lykilþáttur til að draga úr neikvæðum afleiðingum loftslagsbreytinga og nauðsynlegur hluti sjálfbærrar þróunar. Þekking og samvinna ríkja geta skilað árangri og hjálpað til við af læra af reynslu annarra á þessu sviði. Í þessu skyni skiptir þátttaka beggja kynja miklu máli.

Tæknisamvinna
Tækniþróun og tæknisamvinna eru lykilþættir til að draga úr útstreymi og til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Nauðsynlegt er að finna leiðir til að fjármagna aðgerðir í þróunarríkjum bæði af hálfu opinberra aðila og eins einkafyrirtækja.

Við fjárfestingar í orkugeiranum getur jarðhiti skipt verulegu máli og nýst 750 milljón einstaklingum um allan heim. Nýtanlegan jarðhita má finna í að minnta kosti 70 löndum. Á háhitasvæðum má með núverandi tækni framleiða meira en 140 þúsund MW af raforku. Gríðarlega útbreidd lághitasvæði geta nýst til hitaveitu og á annan hátt. Unnið er að verkefnum sem geta líklega aukið orkuframleiðsluna mjög. Með því að breyta úr kolaorku yfir í jarðhita má draga úr útstreymi um 97%.

Vatnsafl sparar þegar sem svarar 4,4 milljón tunnum af olíu á dag.  Samt hefur enn aðeins um þriðjungur af nýtanlegu vatnsafli í heiminum verið nýtt.  Stór hluti þessarar ónýttu orku er á svæðum þar sem orkuþörfin er hvað brýnust. Til dæmis hefur einungis 7% virkjanalegs vatnsafls í Afríku verið nýtt.

Nýsköpun og aukin alþjóðleg samvinna skiptir sköpun við þróun hreinnar orku. Einkageirinn hefur verið og mun verða leiðandi í allri tækniþróun. Samvinna stjórnvalda og einkafyrirtækja getur flýtt þróuninni.

Breytingar á landnotkun
Nauðsynlegt er að beita aðferðum tengjast landnotkun og skógrækt til að ná árangri í glímunni við loftslagsvandann. Lögð er áhersla á að votlendi, sérstaklega mólendi sé umfangsmesta kolefnisgeymsla á landi. Með því að endurheimta framræst votlendi má draga úr útstreymi og á sama tíma bæta líffræðilega fjölbreytni og vatnsbúskap. Því hafi íslensk stjórnvöld lagt fram tillögur um að samdráttur útstreymis vegna endurheimts votlendis geti talist til tekna.

Á Íslandi eru verulegir möguleikar til að endurheimta votlendi sem framræst var á 20. öld. Þegar hefur verið sýnt fram á að þetta geti verið hagkvæm leið til að draga úr útstreymi.

Á Íslandi eru þó minni möguleikar en í mörgum ríkjum til að draga úr útstreymi þar sem öll raforkuframleiðsla og hitaveita byggir á endurnýjanlegum orkulindum. Því eru möguleikar sem felast í endurheimt votlendis mikilvægir fyrir landið en það er þó fjarri því eina landið sem þetta gildir um. Tæknilega er unnt að draga úr heildarútstreymi í heiminum um allt að 10% með því að endurheimta framræst votlendi og mólendi. Raunverulegir möguleikar eru þó talsvert minni því þetta land er þegar notað til matvælaframleiðslu og fleiri þátta.

Sjá nánar:

Tillögur íslenskra stjórnvalda á ensku (PDF-skjal)

Samtök atvinnulífsins