Efnahagsmál - 

13. október 2011

Framkvæmdastjóri SA: Ryðjum hindrunum úr vegi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Framkvæmdastjóri SA: Ryðjum hindrunum úr vegi

Raunveruleg hætta er á að Ísland búi við kreppu út áratuginn. Nú þegar þrjú ár eru liðin frá efnahagshruninu í október 2008 er tilefni til að líta yfir farinn veg og leggja mat á hvað hefur gengið vel og hvað ekki. Árangur efnahagsáætlunarinnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur fyrst og fremst falist í auknum aga í efnahagsmálum. Með óhóflegum skattahækkunum og niðurskurði hefur í stórum dráttum tekist að ná utan um hallarekstur ríkissjóðs.

Raunveruleg hætta er á að Ísland búi við kreppu út áratuginn. Nú þegar þrjú ár eru liðin frá efnahagshruninu í október 2008 er tilefni til að líta yfir farinn veg og leggja mat á hvað hefur gengið vel og hvað ekki. Árangur efnahagsáætlunarinnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur fyrst og fremst falist í auknum aga í efnahagsmálum. Með óhóflegum skattahækkunum og niðurskurði hefur í stórum dráttum tekist að ná utan um hallarekstur ríkissjóðs.

Skortur á fjárfestingum, slakur hagvöxtur og viðvarandi atvinnuleysi eru stóru atriðin sem vantar í þá glæsimynd sem stjórnvöld draga upp af árangri sínum af samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þrátt fyrir að segjast í orði sem á borði vera sammála aðilum vinnumarkaðarins um nauðsyn fjárfestinga og hagvaxtar hafa hugmyndafræðileg vandamál og þörf fyrir blóraböggla staðið í vegi fyrir því að góð tækifæri hafi nýst og árangur lætur á sér standa.

Fjárfestingar á síðasta ári námu innan við 200 milljörðum króna eða aðeins um 13% af vergri landsframleiðslu (VLF) sem er lægsta fjárfestingarhlutfall í sögu lýðveldisins. Á þessu ári gera hagspár ráð fyrir nokkrum vexti en engu að síður eru fjárfestingar afar rýrar og fjárfestingahlutfallið verður í besta falli um 15% af VLF. Í yfirlýsingu sinni við gerð kjarasamninga í maí sl. lýsti ríkisstjórnin því sem markmiði sínu að ná fjárfestingum upp um 75% eða í um 350 milljarða króna á ári. Ætlunin er að ná fjárfestingahlutfallinu yfir 20% af VLF. Þetta á að gerast á samningstímanum.

Hin hugmyndafræðilegu vandamál sem flækjast fyrir stjórnvöldum snúa að stærstu útflutningsgreinum Íslands, sjávarútvegi og áliðnaði. Herferð ríkisstjórnarinnar gegn helstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hefur leitt til stöðnunar í fjárfestingum í atvinnugreininni. Hugmyndafræðileg andstaða gegn uppbyggingu í áliðnaði á sér djúpar rætur í báðum stjórnarflokkunum. Minnast má atkvæðagreiðslunnar í Hafnarfirði árið 2007 um stækkun álversins í Straumsvík, ákvörðunar þáverandi umhverfisráðherra á sínum tíma um sameiginlegt umhverfismat á álveri á Bakka og framhaldsaðgerðum núverandi iðnaðarráðherra gegn þeirri framkvæmd. Ríkisstjórnin hefur aldrei viljað taka af skarið og leiða áfram framkvæmdir við álverið í Helguvík. Eina álfjárfestingin sem hefur fengið eðlilegan framgang er framleiðsluaukning í Straumsvík og bygging Búðarhálsvirkjunar.

Þá hefur ekki tekist að búa stórum sem smáum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum  eðlilegt almennt fjárfestingarumhverfi. Þau gætu nú verið að sækja fram, stunda nýsköpun og fjárfestingar og verið að ráða til sín fólk. Því er fyrst og fremst um að kenna að ríkisstjórnin hefur hvorki haft framtíðarsýn né neina raunverulega forystu um endurreisn fjármálakerfisins og þróun þess. Endurskipulagning fjárhags fyrirtækja, heimila og fjármálakerfisins hefur gengið alltof hægt og mikið hefur verið kvartað undan ákvarðanafælni.  Fjármálafyrirtæki og starfsfólk þeirra hafa reyndar verið vinsælir blórabögglar stjórnmálamanna með forsætisráðherra sjálfan í fararbroddi.

Hagkvæmt og öflugt fjármálakerfi er lykilatriði til þess að styðja við fjárfestingar í atvinnulífinu og hagvöxt. Miklu máli skiptir að halda niðri kostnaði í fjármálakerfinu bæði í rekstri og þeim kostnaði sem ríkið leggur  á með sköttum og eftirliti. Samkeppni innan fjármálakerfisins er afar mikilvæg. Gjaldeyrishöft draga verulega úr samkeppni alls staðar þar sem markaðir eru lokaðir fyrir erlendri samkeppni. Afnám gjaldeyrishaftanna er mjög mikilvægt skref til að stuðla að hagkvæmara fjármálakerfi og betri skilyrðum fyrir fjárfestingar.

Auknar fjárfestingar, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, eru frumskilyrði þess að hægt sé að auka árlegan hagvöxt í 4% - 5% en það er er nauðsynlegt til þess að koma Íslandi uppúr kreppunni. Áframhaldandi hjakk, sem er staðfest með spá Seðlabankans um 1,6% hagvöxt á næsta ári, er ávísun á að Ísland verði fast í kreppunni út áratuginn. Því fylgir mikið atvinnuleysi og að illa mun ganga að rétta við hag ríkissjóðs.

Þetta þarf ekki að vera svona. Það eru leiðir út úr kreppunni. Samtök atvinnulífsins hafa margoft bent á þessar leiðir. Þær þarf að fara.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í október 2011

Samtök atvinnulífsins