Efnahagsmál - 

09. Nóvember 2009

Framkvæmdastjóri SA á Sprengisandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Framkvæmdastjóri SA á Sprengisandi

Rætt var við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, um stöðu atvinnumála í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudagsmorgun. Þar fjallaði Vilhjálmur m.a. um gagnrýni SA á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar en einnig var rætt við Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra. Vilhjálmur skýrði m.a. út afstöðu SA til skattamála og færði rök fyrir því hvers vegna sé skynsamlegt að hækka atvinnutryggingargjald nú í stað þess að gera það síðar.

Rætt var við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, um stöðu atvinnumála í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudagsmorgun. Þar fjallaði Vilhjálmur m.a. um gagnrýni SA á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar en einnig var rætt við Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra. Vilhjálmur skýrði m.a. út afstöðu SA til skattamála og færði rök fyrir því hvers vegna sé skynsamlegt að hækka atvinnutryggingargjald nú í stað þess að gera það síðar.

Fjárfestingaráform sett í uppnám
Það var víða komið við í þættinum en Vilhjálmur sagði ríkisstjórnina ekki hafa fylgt eftir eigin stefnu með því að standa í vegi fyrir stórframkvæmdum sem gert sé ráð fyrir í stöðugleikasáttmálanum, fjárlagafrumvarpinu og þjóðhagsáætlun. Ýmsar ákvarðanir, m.a. í skattamálum, hafi sett fjárfestingaráform fyrirtækja í uppnám.

Vilhjálmur nefndi að fjárfesting í atvinnulífinu sé áætluð um 180 milljarðar króna á næsta ári. Meira en 60 milljarðar tengist framkvæmdum í Straumsvík, Helguvík og tengdum framkvæmdum. Hins vegar þurfi um 120 milljarðar að koma úr öðrum atvinnugreinum og þar skipti mestu máli fyrir fyrirtæki sem eru að byggja sig upp t.d. sprotafyrirtæki að vöxtum verði náð niður. "Við erum nú heldur betur búin að tala um það í Samtökum atvinnulífsins að það þurfi að lækka vexti."

Aukin fjölbreytni og vöxtur á flestum sviðum
Vilhjálmur sagði þörf á mikilli fjölbreytni í atvinnulífinu og vexti í öllum mögulegum greinum. Mörg sprotafyrirtæki hafi lifað af í mjög erfiðu rekstrarumhverfi en til að þau geti fengið þá viðspyrnu sem þau þurfi á að halda þegar samkeppnisstaðan versni á nýjan leik með hækkandi gengi krónunnar þurfi vextir að vera lágir og fjárfestingarumhverfi á Íslandi að vera gott. Einnig sé nauðsynlegt að fyrirtækin hafi aðgang að starfhæfu fjármálakerfi þar sem hægt verði að fá lán á eðlilegum forsendum. "Þetta má ekki fara aftur í gamla farið þar sem einu lánin sem menn fengu voru út á steypu og byggingar og allar tryggingar voru í slíkum eignum. Sprotafyrirtæki þurfa á fjármagni að halda þar sem menn þora að veðja á fólk."

Hvers vegna að hækka atvinnutryggingargjald nú?
Atvinnuleysi hefur stóraukist en samkvæmt lögum er kostnaður við atvinnuleysistryggingar fjármagnaður með atvinnutryggingargjaldi sem rennur til atvinnutryggingarsjóðs. Vilhjálmur benti á að þetta gjald hafi alltaf tengst vinnumarkaðinum en hallinn á sjóðnum sé nú um 15 milljarðar króna. Ef sá halli verði ekki greiddur núna með hærra atvinnutryggingargjaldi hlaðist upp kostnaður sem atvinnulífið þurfi að borga síðar ásamt íslenskum vaxtakostnaði. "Þessi reikningur bíður eftir því að vera borgaður - hann er ekkert að hverfa."

Vilhjálmur segir betra að borga þennan reikning núna í stað þess að greiða hann síðar. Gengi krónunnar sé mjög lágt og því ákveðið svigrúm í útflutningsgreinunum til að taka þetta á sig. Eftir 1-3 ár verði gengi krónunnar vonandi orðið hærra en þá þurfi að byggja upp kaupmátt á nýjan leik og hækka laun.

Atvinnulífið vill borga

Samtök atvinnulífsins hafa lýst yfir andstöðu við nýja séríslenska orku- auðlinda og kolefnisskatta sem stjórnvöld hafa kynnt til leiks. Framkvæmdastjóri SA segir skynsamlegt að bíða og sjá hverju yfirstandandi samningaviðræður á alþjóðlegum vettvangi skili þannig að íslenskt atvinnulíf  verði hluti af alþjóðlegu umhverfi í stað þessa að búa við séríslenskar lausnir sem takmarki samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Vilhjálmur undirstrikaði í þættinum að með þessu vilji íslenskt atvinnulíf ekki reyna að skjóta sér undan skattheimtu heldur þvert á móti. Atvinnulífið hafi boðist til að taka á sig aukna skatta til að ná niður halla ríkissjóðs og borga það sem því ber. "Það er öfundsverð ríkisstjórn sem býr við atvinnulíf sem býðst til að borga alla þessa skatta," sagði Vilhjálmur.

Viðtalið má nálgast hér að neðan af vef Bylgjunnar.

Smellið hér til að hlusta

Samtök atvinnulífsins