Efnahagsmál - 

15. Oktober 2009

Framhald stöðugleikasáttmálans í höndum ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Framhald stöðugleikasáttmálans í höndum ríkisstjórnarinnar

Vinna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands vegna stöðugleikasáttmálans frá 25. júní og framlengingar kjarasamninga er nú komin í fullan gang. Síðustu forvöð til þess að taka ákvörðun um framlengingu kjarasamninganna eru 27. október en nauðsynlegt er að um miðja næstu viku liggi meginlínur fyrir m.a. vegna ársfundar ASÍ sem hefst þann 22. október.

Vinna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands vegna stöðugleikasáttmálans frá 25. júní og framlengingar kjarasamninga er nú komin í fullan gang. Síðustu forvöð til þess að taka ákvörðun um framlengingu kjarasamninganna eru 27. október en nauðsynlegt er að um miðja næstu viku liggi meginlínur fyrir m.a. vegna ársfundar ASÍ sem hefst þann 22. október.

Síðustu daga hefur verið unnið á grundvelli minnisblaðs sem SA og ASÍ lögðu fram um gang þeirra mála sem fjallað er um í stöðuleikasáttmálanum. Þar kemur fram að æði mikið er útistandandi af því sem rætt var um að gera. Á þessari stundu er langt í land að ásættanleg niðurstaða fáist og því þurfa allir að búa sig undir þá hörmulegu stöðu að kjarasamningar verði ekki framlengdir. ASÍ hefur ekki legið á því að það hafi mjög alvarlegar afleiðingar fyrir samskipti á vinnumarkaðnum ef samningar ganga í sundur nú og slík viðbrögð eru mjög skiljanleg. SA og ASÍ hafa staðið vel saman á undanförnum misserum og verkalýðshreyfingin hefur sýnt fyrirtækjunum mikinn skilning á erfiðum tímum enda atvinna fólks í húfi. Málin sem útaf standa eru ekki milli SA og ASÍ heldur eru það fyrst og fremst mál sem snúa að stjórnvöldum sem erfiðleikum valda.

Meginmarkmið stöðugleikasáttmálans var að koma af stað fjárfestingum í atvinnulífinu og í ýmsum innviðum samfélagsins. Auknar fjárfestingar eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að komast út úr efnahagskreppunni á næsta ári og skapa ný störf í stað þeirra sem glötuðust við hrun fjármálageirans.

Með stöðugleikasáttmálanum var leitast við að skapa tiltrú á framtíðina í íslensku atvinnulífi og að saman gæti farið ný sókn í atvinnulífinu, á grundvelli fjárfestinga og uppbyggingar, við ábyrgð í fjármálum ríkissjóðs. Ennfremur var kveðið á um aðgerðir í þágu skuldugra heimila.

Helstu atriðin sem útaf standa eru þessi:

  • Það þarf að nást samkomulag um grundvallarleiðir í skattamálum. Ekki er útilokað að slíkt samkomulag náist þótt tíminn sé naumur.

  • Það þarf að ljúka ákvarðanatöku vegna aðgerða til að bæta stöðu lántakenda og skuldsettra heimila. Hugsanlega er hægt að ljúka því máli.

  • Það þarf að greiða götu stórfjárfestinga í atvinnulífinu og þ.m.t. í orkuframleiðslu, verkefna sem ýmist eru í gangi eða gætu verið að fara af stað. Þarna hafa stjórnvöld beinlínis verið að leggja steina í götu verkefna með áformum um orku- og kolefnisskatta og með ákvörðun umhverfisráðherra að afturkalla úrskurð Skipulagsstofnunar vegna Suðvesturlínu. Snúa þarf hvoru tveggja við og standa við það loforð að greiða götu þessarra fjárfestinga. Ekki blæs byrlega í þeim málum.

  • Það þarf að ná saman við lífeyrissjóði um aðkomu þeirra að fjárfestingu í ýmsum innviðum samfélagsins, s.s. samgönguframkvæmdum, nýju sjúkrahúsi. Viðræður eru í gangi en hafa gengið alltof hægt og nauðsynleg stefnumörkun ríkisins t.d. varðandi samgönguframkvæmdir er of skammt á veg komin. Setja þarf kraft í viðræðurnar þannig að tryggt sé að eðlileg hreyfing verði á þessum málum. Það kemur í ljós á næstu dögum hvar þessi mál standa.

  • Gjaldeyrishöft þarf að afnema í áföngum þar sem fyrsti áfanginn átti að koma 1. nóvember. Seðlabankinn hefur lagt fram afar metnaðarlitla áætlun um afnám gjaldeyrishafta og alls ekki verið tilbúinn til að fara þær leiðir sem rætt er um í stöðugleikasáttmálanum. Því er einsýnt að leggja þarf fram nýja og trúverðuga áætlun um afnám haftanna og hugsanlega að taka alla ábyrgð á þróun reglna af bankanum enda virðist hann uppteknari af því hvernig herða eigi höftin í stað þess að létta þeim af. Breyting á gjaldeyrishöftunum er á valdi ríkisstjórnarinnar og hefur ekkert með sjálfstæði Seðlabankans að gera. Hér reynir því á vilja ríkisstjórnarinnar.

  • Vextir þurfa að lækka og viðmiðunin sem sett var í stöðugleikasáttmálanun var að stýrivextir yrðu komnir í eins stafs tölu 1. nóvember. Gengið var út frá því að Seðlabankinn lækkaði aðra vexti sína samsvarandi enda tilgangurinn að lækka allt vaxtastigið í landinu sem reyndar hefur farið lækkandi vegna ákvarðana bankanna. Engu að síður þurfa vextir Seðlabankans að lækka eins og aðilar vinnumarkaðarins gengu út frá við gerð stöðugleikasáttmálans og vextir í bönkunum þurfa að lækka áfram. Seðlabankinn opinberaði tregðu sína til þess að taka þátt í þessum hluta stöðugleikasáttmálans með því að setja vaxtaákvörðunardag í byrjun nóvember og hélt vöxtum óbreyttum síðasta vaxtaákvörðunardag. Viðræður við Seðlabankann sl. þriðjudag gefa engin tilefni til nokkurrar einustu bjartsýni um þennan þátt stöðugleikasáttmálans.

  • Þá hafa Samtök atvinnulífsins viðhaldið fyrirvara vegna sjávarútvegsins en áform stjórnarsáttmálans um innköllun aflaheimilda frá 1. september 2010 hafa valdið mikilli skráveifu í sjávarútvegsfyrirtækjum. Fjárfestingar og fjárhagsleg endurskipulagning eru í uppnámi og því verða að koma skýrar yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um þessi mál þannig að starfsfriður skapist og hægt sé að taka ákvarðanir til framtíðar. Ekki hefur enn reynt á það hvort slíkar yfirlýsingar fást.

Næstu dagar eru því mjög mikilvægir fyrir þróun íslensks atvinnulífs á næstu misserum og árum. Ef fjárfestingarnar í atvinnulífinu verða ekki að veruleika hefur það í för með sér stóraukinn samdrátt í efnahagslífinu á næsta ári og langt umfram þau 2% sem þjóðhagsforsendur ganga út frá. Þá verður allt sem verið er að leggja á sig til sparnaðar í ríkisútgjöldum, skattahækkana og hófstillingar í launamálum unnið fyrir gíg.

Þessi hryllingsmynd þarf ekki að verða að veruleika. Það er ennþá hægt að taka þær ákvarðanir sem þarf til þess að koma fjárfestingum af stað og tryggja að efnahagslífið fari upp á við á nýjan leik á næsta ári. Boltinn er fyrst og fremst hjá ríkisstjórninni en Samtök atvinnulífsins munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að stuðla að farsælli lendingu.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins