Menntamál - 

06. Maí 2010

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins þjónar vinnumarkaðnum öllum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins þjónar vinnumarkaðnum öllum

Á aðalfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) í dag var samþykkt að BSBR, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytisins verði aðilar að félaginu, auk Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Á aðalfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) í dag var samþykkt að BSBR, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytisins verði aðilar að félaginu, auk Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var stofnuð 2002 af Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins og hefur starfað síðan 2003 á grundvelli þjónustusamnings við menntamálaráðuneytið. Markhópur starfseminnar er einkum fólk á vinnumarkaði, sem hefur ekki lokið námi frá framhaldsskóla. FA hefur þróað sérstakar námsleiðir fyrir markhópinn og eru margar þeirra hannaðar að þörfum atvinnulífsins. Þessar námsleiðir hafa verið vottaðar til eininga á framhaldsskólastigi. Einnig hafa verið þróaðar aðferðir og tæki til raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar fyrir fólk á vinnumarkaði, auk ýmissa fleiri þróunarverkefni sem m.a. er ætlað að auka veg framhaldsfræðslunnar og gæði. Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar sem starfandi eru í öllum landshlutum eru helstu samstarfsaðilar Fræðslumiðstöðvarinnar. Þær hafa boðið upp á námsleiðir FA um land allt.  Náms- og starfsráðgjafar hafa verið ráðnir að fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum til að sinna markhópnum sérstaklega.

Raunfærnimat hefur verið þróað í samstarfi við fræðslumiðstöðvar í löggiltum iðngreinum og fleiri aðila. Þar að auki hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins annast úthlutun styrkja til fræðslu - og símenntunarmiðstöðva vegna þessarar starfsemi. Þátttaka í þessum úrræðum vex frá ári til árs. Árið 2006 luku nemendur rúmlega 5 þúsund einingum á framhaldsskólastigi en í fyrra voru þær orðnar rúmlega 20 þúsund og nemendafjöldinn hafði þrefaldast. Fleiri vilja komast í raunfærnimat en hægt er að sinna og náms og starfsráðgjöf liðsinnir fjölda fólks sem vill styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Í mars samþykkti Alþingi lög um framhaldsfræðslu.  Samkvæmt þeim er framhaldsfræðsla  hvers konar nám, úrræði og ráðgjöf sem ætlað er að mæta þörfum einstaklinga á vinnumarkaði sem eru með stutta formlega skólagöngu að baki og er ekki skipulagt á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla. Með lögunum er settur rammi um það starf sem unnið hefur verið á undanförnum árum og eru yfirlýst markmið þeirra m.a. að stuðla að því  einstaklingar geti eflt starfshæfni sína og að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og hæfni starfsmanna og menntunarstig í landinu og íslensk menntakerfi eflt. Í greinargerð með lögunum, kemur m.a. fram að:

"Við samningu frumvarpsins hefur m.a. verið leitast við að styðja við náið og árangursríkt samstarf Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) í fræðslumálum sem hafa, í samstarfi við stjórnvöld, staðið fyrir rekstri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem hefur að mati aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda reynst vel".

Í greinargerðinni er lögð áhersla á að starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins nái einnig til opinbera vinnumarkaðarins. Sú áhersla er í fullu samræmi við vilja aðila vinnumarkaðarins. Það er á þessum grunni sem opinberir starfsmenn og viðsemjendur þeirra hjá sveitarfélögum og ríkinu koma nú inn í Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Starfsemi hennar  nær héðan í frá  til alls vinnumarkaðarins og styrkist með gildistöku laga um fullorðinsfræðslu þann 1. október næstkomandi.

Í nýjum samþykktum félagsins kemur fram að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er samstarfsvettvangur Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, BSRB, fjármálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um fullorðinsfræðslu og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við aðrar sameiginlegar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtakanna.

Samtök atvinnulífsins