Fræðslumiðstöð atvinnulífsins opnuð

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var opnuð formlega föstudaginn 21. nóvember. Fræðslumiðstöðin var stofnuð fyrir ári síðan af Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands. Þjónustusamningur var gerður við menntamálaráðuneyti í apríl og síðan hefur verið unnið að undirbúningi starfseminnar.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er samstarfsvettvangur ASÍ og SA um fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við aðrar sameiginlegar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtaka ASÍ og SA. Sérstök áhersla er á þjónustuhlutverk FA gagnvart öðrum sameiginlegum fræðslustofnunum og fræðslusjóðum og samvinnu þessara aðila.

Áhersla á þá sem ekki hafa lokið framhaldsskóla
Í þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið er samkomulag um að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sinni fyrst og fremst þeim hópi, sem ekki hefur lokið framhaldsskóla, innflytjendum og öðrum sambærilegum hópum. Á íslenskum vinnumarkaði er þessi hópur mjög stór eða um 40%. Á landsbyggðinni má gera ráð fyrir að hópurinn sé um 48%, en á höfuðborgarsvæðinu um 32% miðað við tölur frá 2002.

Hlutverk Fræðslumiðstöðvarinnar verður fyrst og fremst að skilgreina menntunarþarfir fyrirtækja, starfsstétta og einstaklinga og byggja upp framboð á lengra og styttra námi fyrir markhópinn. Mikilvægt hlutverk er einnig að aðstoða menntamálaráðuneytið við að þróa aðferðir við mat á óformlegu námi og þeirri færni sem fólk hefur aflað sér utan skóla m.a. á vinnumarkaði.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins mun vinna að því að fjölga námstilboðum og bæta gæði þeirra. Starfið mun fara fram á landinu öllu í samstarfi m.a. við símenntunarmiðstöðvar.

Kennslufræðimiðstöð
Byggð verður upp kennslufræðimiðstöð í  fullorðins- og starfsfræðslu innan Fræðslumiðstöðvarinnar og mun fræðsluaðilum verða boðin námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk, til að hægt verði að byggja upp og staðfesta gæði fræðslunnar. Lögð verður áhersla á þá þætti sem skipta máli í námi fullorðinna, virðingu fyrir námsmanninum, sem vill hafa áhrif á framvindu námsins og markmið þess, ásamt því að byggja ofan á reynslu sína og þekkingu.

Fræðslumiðstöðin mun einnig safna og miðla upplýsingum fyrir markhópana, ásamt því að byggja upp náms- og starfsráðgjöf fyrir fólk á vinnumarkaði.

Vefsíða
Fræðslumiðstöðin er til húsa að Grensásvegi 16a. Sjá nánar um fræðslumiðstöðina á vef hennar.