Vinnumarkaður - 

03. apríl 2003

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (1)

Um það bil 42% fólks á íslenskum vinnumarkaði hafa mjög takmarkaða formlega menntun. Staða þessara einstaklinga á vinnumarkaði er í dag mjög veik og á líklega eftir að versna enn frekar með aukinni alþjóðavæðingu og tæknivæðingu samfara almennri kröfu um aukna þekkingu og hæfni. Til þess að viðhalda þeirri samkeppnisstöðu og aðlögunarhæfni sem íslenskt atvinnulíf hefur búið yfir þarf að gera stórátak í framboði á almennri fullorðinsfræðslu og starfsmenntun fyrir þessa einstaklinga og þar með fyrir allt atvinnulífið.

Um það bil 42% fólks á íslenskum vinnumarkaði hafa mjög takmarkaða formlega menntun. Staða þessara einstaklinga á vinnumarkaði er í dag mjög veik og á líklega eftir að versna enn frekar með aukinni alþjóðavæðingu og tæknivæðingu samfara almennri kröfu um aukna þekkingu og  hæfni. Til þess að viðhalda þeirri samkeppnisstöðu og aðlögunarhæfni sem íslenskt atvinnulíf hefur búið yfir þarf að gera stórátak í framboði á almennri fullorðinsfræðslu og starfsmenntun fyrir þessa einstaklinga og þar með fyrir allt atvinnulífið.

Samstarfsverkefni SA og ASÍ
Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að standa fyrir auknu framboði á almennri menntun, starfsmenntun og framhaldsmenntun fyrir starfsfólk á vinnumarkaði sem hefur takmarkaða skólagöngu, og einnig fyrir nýbúa, svo og við önnur sambærileg starfsmenntaverkefni sem hafa víða samfélagslega skírskotun. Um þetta var gert samkomulag í desember 2001 og gaf ríkisstjórnin þá út sérstaka yfirlýsingu um aðild og stuðning við þetta átak.

Stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins
Nýlega var stofnuð Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. til þess að vinna að þessu verkefni. Um er að ræða svokallað "annað tækifæri" til náms fyrir alla þá sem standa sérstaklega höllum fæti á vinnumarkaði og hafa takmarkaða framamöguleika vegna takmarkaðrar skólagöngu. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf á ekki að standa sjálf fyrir kennslu eða námskeiðum heldur verða samstarfsvettvangur og miðstöð fyrir undirbúning, kennslufræðivinnu, námsefnisgerð, fyrirgreiðslu og aðstoð við fræðsluaðila og aðrar sameiginlegar fræðslustofnanir og fræðslusjóði á vinnumarkaðinum.

Vottun
Verkefni Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins ehf munu tengjast mjög náið hugmyndum um "vottun á raunfærni" sem eru að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum og hérlendis. Þá er um það að ræða að gefa fólki kost á því að fá opinbera og formlega vottun og staðfestingu á raunfærni, verkþjálfun, kunnáttu og þekkingu sinni, til jafns á við skilgreinda áfanga í skólakerfinu og til skilgreindra starfsréttinda.

Þjónustusamningur undirritaður
Að undanförnu hefur verið unnið að þjónustusamningi við ríkisvaldið um þessi verkefni. Samninginn hafa nú undirritað þeir Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, Finnur Geirsson, formaður SA og Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ. Með undirritun samningsins má segja að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. fái forsendur til að leggja mikilvægan skerf af mörkum til framþróunar og framfara fyrir allan almenning og atvinnulífið í landinu.

Samtök atvinnulífsins