Vinnumarkaður - 

28. mars 2003

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Um það bil 42% manna á íslenskum vinnumarkaði hafa aðeins grunnskólagöngu að baki eða aðeins starfsnámskeið henni til viðbótar. Ljóst er að samkeppnisstaða og aðlögunarhæfni þessa fólks er takmörkuð og jafnframt að þetta ástand veikir íslenskt hagkerfi yfirleitt, og til frambúðar ef ekki er að gert.

Um það bil 42% manna á íslenskum vinnumarkaði hafa aðeins grunnskólagöngu að baki eða aðeins starfsnámskeið henni til viðbótar. Ljóst er að samkeppnisstaða og aðlögunarhæfni þessa fólks er takmörkuð og jafnframt að þetta ástand veikir íslenskt hagkerfi yfirleitt, og til frambúðar ef ekki er að gert.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa ákveðið að standa fyrir átaki í starfsmenntun og framhaldsmenntun fyrir fólk á vinnumarkaði sem hefur takmarkaða skólagöngu, og einnig fyrir nýbúa, og við önnur sambærileg starfsmenntaverkefni sem hafa víða samfélagslega skírskotun. Um þetta var gert samkomulag í desember 2001 og gaf ríkisstjórnin út sérstaka yfirlýsingu um aðild og stuðning við þetta átak.

Stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins
Nýlega var stofnuð Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. til þess að vinna að þessu verkefni. Um er að ræða svo kallað "annað tækifæri" til náms fyrir alla þá sem sérstaklega standa höllum fæti í lífsbaráttu og framamöguleikum vegna takmarkaðrar skólagöngu. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. á ekki að standa sjálf fyrir kennslu eða námskeiðum heldur verða samstarfsvettvangur og miðstöð fyrir undirbúning, kennslufræðivinnu, námsefnisgerð, fyrirgreiðslu og aðstoð við fræðsluaðila og aðrar sameiginlegar fræðslustofnanir og fræðslusjóði á vinnumarkaðinum.

Að undanförnu hefur verið unnið að þjónustusamningi við ríkisvaldið um þessi verkefni og er þess að vænta að menntamálaráðherra undirriti hann ásamt forvígismönnum SA og ASÍ innan tíðar.

Samtök atvinnulífsins