01. desember 2025

Frá yfirlýsingum til árangurs

Hugrún Elvarsdóttir

1 MIN

Frá yfirlýsingum til árangurs

Umhverfisdagur atvinnulífsins er mikilvægur vettvangur fyrir umræðu um umhverfis- og loftslagsmál. Yfirskrift dagsins í ár, Frá yfirlýsingum til árangurs, fangar vel þá stöðu sem blasir við. Viljayfirlýsingar og háleit markmið hrökkva skammt ef ekki fylgja aðgerðir sem skila raunverulegum árangri.

Gagnsæi er forsenda trúverðugleika

Íslensk fyrirtæki bera mikla ábyrgð, en einnig mikinn hluta af kostnaði og skyldum sem fylgja loftslagsmálum. Þau spyrja því eðlilegra spurninga eins og í hvað fer fjármagn sem innheimt er í formi umhverfisskatta? Er skýr tenging milli kostnaðar og árangurs? Svörin eru því miður oft óljós. Enn vantar áreiðanlegt bókhald yfir „grænar tekjur“ og „græn útgjöld“, sem gerir erfitt að meta hvernig fjármunum er forgangsraðað í samræmi við sett markmið. Án þess er ómögulegt að sjá hvaða aðgerðir skila mestum árangri. Að forgangsraða aðgerðum með hliðsjón af samdrætti í losun, kostnaði og tækniþroska er grundvallarforsenda þess að við náum markmiðunum. Tíminn er að renna út, svigrúmið er lítið og áskoranirnar stórar en án trúverðugleika verður hvorki framvinda né árangur.

Samkeppnishæfni er ekki aukaatriði

Það má ekki gleymast að Ísland er eyland í Norður-Atlantshafi þar sem 99% allra vöruflutninga til og frá landinu fara fram sjóleiðis. Svipað hlutfall fólksflutninga fer fram með flugsamgöngum. Útflutningur og efnahagsleg velsæld byggja á öflugum flug- og sjósamgöngum en fyrirtæki í slíkum rekstri verða að geta búið við fyrirsjáanlegt regluverk. Þegar Evrópusambandið hannar regluverk og kerfi eru þau mótuð fyrir aðstæður á meginlandi Evrópu, þar sem alla jafna er hægt að notast við vega- og lestarsamgöngur til að ferðast yfir landamæri. Innleiðing slíkra kerfa hér, án þess að taka mið af sérstöðu Íslands, getur hækkað kostnað útflutningsgreina og grafið undan samkeppnishæfni þeirra.

Samkeppnishæfni er ekki aukaatriði í umræðunni um loftslagsmál. Hún er forsenda þess að Ísland geti fjármagnað orkuskipti, nýsköpun og þá innviði sem þarf til að ná auknum árangri í loftslagsmálum. Ef skattar, gjöld og flókið regluverk draga úr getu fyrirtækja til að fjárfesta, þá minnkar möguleikinn á að við náum settum loftslagsmarkmiðum.

Atvinnulífið þarf fyrirsjáanleika

Leiðin fram á við felst í gagnsæi, skýrri forgangsröðun og sameiginlegri ábyrgð stjórnvalda og atvinnulífs. Það þarf að kortleggja loftslagsaðgerðir, skilgreina árangursmælikvarða og birta opinbert bókhald yfir tekjur og útgjöld. Fjármunir verða að renna til verkefna sem stuðla að sem mestum árangri, ekki til flókinna kerfa og ferla sem draga úr trúverðugleika.

Með hreinskilnum, gagnadrifnum og málefnalegum samtölum tökum við fyrsta skrefið í að endurheimta trúverðugleika loftslagsmála og styrkjum grundvöll þeirra markmiða sem við stefnum að. Atvinnulífið hefur vilja, þekkingu og burði til að taka þátt í þessari vegferð, en fyrirtækin þurfa skýrar, sanngjarnar og fyrirsjáanlegar leikreglur. Það er forsenda þess að við getum tryggt að Ísland standi sterkt gagnvart bæði umhverfislegum og efnahagslegum áskorunum næstu ára og nýti þau tækifæri sem fram undan eru. Verkefnið er að færa okkur frá yfirlýsingum til árangurs og þér er boðið að taka þátt í samtalinu á Umhverfisdegi atvinnulífsins á Hilton Reykjavík Nordica í dag.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóvember síðastliðinn.

Hugrún Elvarsdóttir

Verkefnastjóri umhverfis-, orku- og loftslagsmála hjá Samtökum atvinnulífsins