Fréttir - 

26. Febrúar 2015

Frá hvaða landi kemur maturinn?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Frá hvaða landi kemur maturinn?

Samtök atvinnulífsins ásamt aðildarfélögum SA og öðrum hagsmunaaðilum hafa gefið út leiðbeiningar til neytenda, matvælaframleiðanda, verslana og veitingastaða um upprunamerkingar matvæla. Markmiðið er að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi merkinganna en í leiðbeiningunum er gildandi reglum lýst á einfaldan hátt og settar fram tillögur um merkingar á matvælum sem reglur um upprunamerkingar hafa ekki enn náð til.

Samtök atvinnulífsins ásamt aðildarfélögum SA og öðrum hagsmunaaðilum hafa gefið út leiðbeiningar til neytenda, matvælaframleiðanda, verslana og veitingastaða um upprunamerkingar matvæla. Markmiðið er að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi merkinganna en í leiðbeiningunum er gildandi reglum lýst á einfaldan hátt og settar fram tillögur um merkingar á matvælum sem reglur um upprunamerkingar hafa ekki enn náð til.

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill bæta upprunamerkingar matvæla. Þannig skiptir það meira en fjóra af hverjum fimm Íslendingum máli að upplýsingar um upprunaland sé á umbúðum matvæla við ákvörðun um kaup. Þá telja tveir þriðju að það sé óásættanlegt að upprunalands hráefnis sé ekki getið á umbúðum unninna matvæla, s.s. á beikoni sem er framleitt á Íslandi úr innfluttum svínasíðum.

Ísland er matvælaland með öfluga og fjölbreytta matvælaframleiðslu en orðspor okkar er háð gæðum íslenskrar framleiðslu. Á vettvangi ESB hafa verið settar reglur um upplýsingar um upprunaland eða upprunastað megininnihaldsefnis matvæla sem taka fljótlega gildi hér á landi. Fyrir íslenska framleiðendur, heild- og smásöluverslun og veitingastaði er þó ekki eftir neinu að bíða. Ísland á að vera í fararbroddi þegar kemur að upprunamerkingu matvæla. Það er sjálfsögð upplýsingagjöf til neytenda og stuðlar að auknum gæðum og samkeppni milli framleiðenda.

Útgefandi leiðbeininganna er samstarfshópur um upprunamerkingar matvæla. Fulltrúar SA, Samtaka iðnaðarins,  SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Bændasamtaka Íslands og Neytendasamtakanna áttu fulltrúa í hópnum sem naut dyggrar ráðgjafar Matvælastofnunar.

Sjá nánar:

Frá hvaða landi kemur maturinn