Forsendur stöðugleika í íslensku efnahagslífi

Verktakafyrirtækið Impregilo hélt á dögunum kynningarfund um áhrif stórframkvæmda á Austurlandi á íslenskt efnahagslíf. Í erindi á fundinum vakti Hannes G. Sigurðsson, aðstoðar-framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, m.a. athygli á mun hærra hlutfalli erlends starfsfólks við framkvæmdirnar en áætlanir og spár hefðu gert ráð fyrir.

Of hátt hlutfall innlends starfsfólks í spám

Í upphafi árs 2003 byggði fjármálaráðuneytið t.d. spá sína á þeirri forsendu að 75% starfsmanna yrðu íslenskir. Þessi forsenda hafi smám saman verið að breytast og í þjóðhags-spá ráðuneytisins í maí 2004 hafi verið miðað við að erlent starfsfólk yrði 44% en í nýjustu spánni sé gert ráð fyrir jöfnu hlutfalli innlends og erlends starfsfólks. Er þá miðað við allar framkvæmdir vegna virkjana og álversbygginga sem tengjast bæði Fjarðaáli og Norðuráli.

Hannes vísaði til nýlegs erindis Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi Vinnumálastofnunar. Fram kom hjá honum að af 1.396 starfsmönnum við Kárahnjúka í septembermánuði 2004 væri 312 íslenskur og 1.084 erlendur.  Hlutfall erlendra starfsmanna er því 78% og íslenskra 22%. Hannes sagði ekkert liggja fyrir um að breytingar yrðu á þessum hlutföllum við virkjunarfram-kvæmdirnar og þótt ekkert lægi fyrir opinberlega um væntanlega skiptingu starfsmanna við byggingu álversins þá benti allt til þess að sama yrði uppi á tengingnum þar, þ.e. að yfirgnæfandi hluti starfsmanna verði erlendur. Þessar niðurstöður og horfur væru nokkurn veginn þveröfugar við þær tölur sem Seðlabankinn legði til grundvallar við útreikninga sína í ársbyrjun síðasta árs og hlytu breyttar forsendur að draga verulega úr verðbólguþrýstingi í líkönum bankans. Sama gilti um forsendur fjármálaráðuneytisins, þær byggðu líklega á alltof hárri hlutdeild innlendra starfsmanna við stórframkvæmdirnar og þar af leiðandi yrði eftirspurnarspenna minni en gengið er út frá.

Greiður aðgangur skiptir sköpum

Hannes sagði nokkra þætti gera gæfumuninn um það hvort það tækist að viðhalda efnahagsstöðugleika á næstu árum á meðan farið yrði í gegnum framkvæmdakúfinn vegna stóriðjuframkvæmdanna: aðhald í opinberum fjármálum, aðhald af hálfu Seðlabankans, greiður aðgangur erlends starfsfólks að íslenskum vinnumarkaði og áframhaldandi framleiðniaukning. Hannes sagði mikilvægustu aðgerðina gegn ofþenslu á vinnumarkaði vera lipra og snurðulausa útgáfu atvinnuleyfa.

Sjá erindi Hannesar (pdf-skjal).

Sjá glærur með erindi Hannesar.