Efnahagsmál - 

05. september 2011

Forsætisráðuneytið klórar í bakkann

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Forsætisráðuneytið klórar í bakkann

Síðastliðinn föstudag vöktu Samtök atvinnulífsins athygli á rangri hugtakanotkun og röngum niðurstöðum í ræðu forsætisráðherra á Alþingi þann dag. Þessum athugasemdum SA vísaði forsætisráðuneytið á bug í fréttatilkynningu daginn eftir með tilvísun í gagnasafn Hagstofu Íslands. Svar forsætisráðuneytisins breytir engu um að í ræðunni sagði ranglega "að hlutur launa í landsframleiðslunni hefði aldrei verið lægri en nú eða um 59% samanborið við yfir 72% árið 2007".

Síðastliðinn föstudag vöktu Samtök atvinnulífsins athygli á rangri hugtakanotkun og röngum niðurstöðum í ræðu forsætisráðherra á Alþingi  þann dag. Þessum athugasemdum SA vísaði forsætisráðuneytið á bug í fréttatilkynningu daginn eftir með tilvísun í gagnasafn Hagstofu Íslands. Svar forsætisráðuneytisins breytir engu um  að í ræðunni sagði ranglega "að hlutur launa í landsframleiðslunni  hefði aldrei verið lægri en nú eða um 59% samanborið við yfir 72% árið 2007".

Hið rétta er að hlutur launa í svokölluðum vergum þáttatekjum var 59% og 72% þessi ár, ekki í landsframleiðslunni. Fullyrðing um að hlutur launa í landsframleiðslunni hefði aldrei verið lægri er einnig röng því að frá 1980 hefur hlutur launa í landsframleiðslunni verið 17 sinnum lægri en á árinu 2010 en 13 sinnum hærri. Þá segir í ræðunni : "Lækkunin svarar til 13% af landsframleiðslu sem farið hafa frá launþegum til fyrirtækja, í krónum talið um 200 milljarðar króna."  Þetta er heldur ekki rétt. Lækkunin svarar til 13% af vergum þáttatekjum en ekki landsframleiðslunni. Lækkun á hlutfalli launa af landsframleiðslunni milli 2007 og 2010 nam aftur á móti 8,9% sem nema 137 milljörðum króna á verðalagi ársins 2010.

Það sem hins vegar veldur áhyggjum í umfjöllun forsætisráðherra er valið á viðmiðun við árið 2007. Það ár, og árin þar á undan, var raungengi krónunnar óeðlilega hátt, sem með öðrum orðum þýðir að íslenskt atvinnulíf var ekki samkeppnisfært vegna ofurstyrks krónunnar.  Sambandið milli raungengis og hlutfalls launa af vergum þáttatekjum (og einnig landsframleiðslu) er afar sterkt eins og sést í meðfylgjandi línuriti.

Smelltu til að stækka!

Í ræðu sinni notaði forsætisráðherra árið 2007 sem viðmiðun til að rökstyðja það að atvinnulífið væri svo vel statt að það gæti vel staðið undir kjarabótum án þess að velta þeim út í verðlagið. Slíkur málflutningur er ekki málefnalegur. Valið á árinu 2007 sem viðmiðunarári er afar óheppilegt og getur ekki verið grundvöllur upplýstrar umræðum um stöðu atvinnulífsins um þessar mundir.

Tengt efni:

Athugasemd SA - föstudaginn 2. september 2011

Samtök atvinnulífsins