Efnahagsmál - 

04. Júlí 2011

Formaður SI: Hugsum stórt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SI: Hugsum stórt

"Þjóð sem hefur efni á að greiða 80 milljarða í atvinnuleysisbætur á 3 árum, hlýtur frekar að hafa efni á að greiða milljarðatugi í atvinnuskapandi, arðbær og uppbyggileg verkefni. Þessari skoðun hreyfði fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, á einkar vel heppnuðum morgunfundi Samtaka atvinnulífsins þann 29. júní sl. um stórframkvæmdir í samgöngum á Íslandi." Þetta segir Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins (SI) m.a. í grein í Morgunblaðinu í dag.

"Þjóð sem hefur efni á að greiða 80 milljarða í atvinnuleysisbætur á 3 árum, hlýtur frekar að hafa efni á að greiða milljarðatugi í atvinnuskapandi, arðbær og uppbyggileg verkefni. Þessari skoðun hreyfði fyrrverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, á einkar vel heppnuðum morgunfundi Samtaka atvinnulífsins þann 29. júní sl. um stórframkvæmdir í samgöngum á Íslandi."  Þetta segir Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins (SI) m.a. í grein í Morgunblaðinu í dag.

Helgi tekur undir hugmyndir Þorvarðar Hjaltasonar, sem er talsmaður sveitarstjórna á Suðurlandi, um stofnun stórframkvæmdasjóðs sem hefði það verkefni að ráðast í stærri verkefni á sviði samgangna á Íslandi næstu árin og yrði fjármagnaður utan við fjárlög, með sérstakri lánsfjármögnun frá lífeysissjóðum. "Hann talar um 120 milljarða á 12 árum. Ég er með eina breytingartillögu: Höfum það 120 milljarða á 5 árum. Og hefjumst handa strax. Hugsum stórt ef við ætlum að lifa áfram í þessu landi," segir Helgi.


Brostin loforð

Formaður SI rifjar upp áform um sérstakt átak í samgöngumálum frá árinu 2009. "Í ráðherratíð sinni gerði Kristján sitt ýtrasta til að ná samstöðu um víðtækar samgönguframkvæmdir upp á 60 til 80 milljarða króna á nokkrum næstu árum. Hann lagði sig fram um að hrinda í framkvæmd því sem lofað var í svonefndum stöðugleikasáttmála frá júní 2009. Ríkisstjórnin sveik flest sem hún lofaði skv. þeim sáttmála en alveg fram á haustið 2010 voru horfur á því að unnt yrði að hrinda í framkvæmd myndarlegu samgönguátaki í samræmi við sáttmálann. Um var að ræða aðgerðir sem hefðu haft í för með sér atvinnusköpun í öllu atvinnuleysinu, hefðu verið í samræmi við það sem var samið um í fyrrgreindum sáttmála, hefðu aukið umferðaröryggi og verið marktækt skref í þá átt að hefja ferð okkar út úr kreppunni með áþreifanlegum hætti."

Helgi gagnrýnir Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, harðlega fyrir að hafa staðið gegn ofangreindum framkvæmdum en Helgi bendir á að fjármögnun þeirra hafi verið klár í samstarfi við lífeyrissjóðina. "Ef ráðherrann er alfarið á móti framkvæmdum á sviði samgöngumála með tilheyrandi auknum gæðum vegakerfisins og stórbættu umferðaröryggi, ef hann er á móti því að draga út atvinnuleysi og að minnka útgöld til atvinnuleysisbóta og sé hann á móti hagvexti - þá á hann að segja það hreint út."

Sátt nauðsynleg um betri samgöngur og fjármögnun

Helgi segir nauðsynlegt að taka höndum saman um að koma þessum mikilvægu málum í viðunandi horf. Hér sé  um afar viðkvæmt úrlausnarefni að ræða og miklir hagsmunir séu í húfi fyrir fólkið í landinu. Atvinnuleysi sé í hámarki, fjárfestingar í lágmarki og tíminn sé að hlaupa frá okkur. Pólitísk ósamstaða sé um forgangsröðun verkefna og auðlindir þjóðarinnar séu ekki nýttar með réttum hætti.

"Ríkissjóður ver einungis þriðjungi af því sem hann aflar vegna umferðarinnar í útgjöld/framkvæmdir vegna umferðar. Flestir eru því sammála að verð á eldsneyti sé komið út yfir öll skynsemismörk. Það er reyndar þekkt vandamál í nágrannalöndunum. En þar er hefð fyrir vegatollum. Þegar umræða hófst um vegatolla, sem við greiðum reyndar í Hvalfjarðargöngum nú þegar, tókst að snúa umræðunni upp í það að nú ætti enn á ný að auka skatta á landsmenn. Ég er einlægt á móti frekari skattlagningu og skattahækkunum. Ég berst með lækkun skatta og mun gera gagnvart núverandi ríkisstjórn og einnig þeirri næstu. Og þarnæstu. En ég hlýt að spyrja hvers vegna við viljum ekki nýta vegatolla sem aðferð eins og aðrar þjóðir. En ég geri þá kröfu að þá lækki gjöld á eldsneyti og tollar á bifreiðar á móti. Ég skil að þetta gerist ekki í einu vetfangi og ég styð þá sem vilja taka nokkurn tíma í að freista þess að ná samstöðu um nýtt fyrirkomulag varðandi gjaldtöku á sviði samgangna í þessu landi."

Grein Helga Magnússonar má lesa í heild í Morgunblaðinu 4. júlí 2011 og einnig á vef SI.

Tengt efni:

Samantekt frá fundi SA um samgöngumál 29. júní 2011

Samtök atvinnulífsins