Efnahagsmál - 

24. Mars 2010

Formaður SA segir kyrrstöðuna óþolandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA segir kyrrstöðuna óþolandi

Kyrrstaðan í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar að undanförnu er óþolandi að mati formanns SA, Vilmundar Jósefssonar. Í samtali við fréttastofu RÚV segir hann ótal mörg atriði hafa orðið til þess að þolinmæði SA brast gagnvart stöðugleikasáttmálanum og samstarfi við stjórnvöld undir merkjum hans. Verklegar framkvæmdir hafi dregist úr hömlu, lífeyrissjóðirnir séu ekki farnir að fjárfesta eina einustu krónu til framkvæmda og 15 þúsund manns séu atvinnulausir. Það sé ólíðandi.

Kyrrstaðan í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar að undanförnu er óþolandi að mati formanns SA, Vilmundar Jósefssonar. Í samtali við fréttastofu RÚV segir hann ótal mörg atriði hafa orðið til þess að þolinmæði SA brast gagnvart stöðugleikasáttmálanum og samstarfi við stjórnvöld undir merkjum hans. Verklegar framkvæmdir hafi dregist úr hömlu, lífeyrissjóðirnir séu ekki farnir að fjárfesta eina einustu krónu til framkvæmda og 15 þúsund manns séu atvinnulausir. Það sé ólíðandi.

Samtök atvinnulífsins tilkynntu með formlegum hætti í gær að vanefndir og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar hafi orðið til þess að samtökunum hafi í raun verið vísað frá stöðugleikasáttmálanum. Vilmundur Jósefsson sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöld að svo mörg atriði stöðugleikasáttmálanum hafi ekki gengið eftir að SA hafi í raun ekki verið lengur kleift að starfa innan sáttmálans.

Samtök atvinnulífsins munu eftir sem áður róa að því öllum árum að tala máli allra sinna félagsmanna og leggja sitt af mörkum til að ná Íslandi út úr kreppunni á þessu ári. Mikilvægast í þeim efnum er að hér verði skapaðar aðstæður svo hægt verði að skapa ný störf og vinna bug á atvinnuleysinu.

SA hafa m.a. lagt fram ítarlega aðgerðaráætlun undir heitinu Atvinna fyrir alla þar sem lögð er fram nákvæm áætlun um hvernig hægt er að koma Íslandi af stað á nýjan leik.

Sjá nánar:

Viðtal við Vilmund í fréttum RÚV 23.mars

Tilkynning SA um frávísun samtakanna frá stöðugleikasáttmálanum

Yfirlit: Efndir og vanefndir fyrirheita í stöðugleikasáttmála.

Samtök atvinnulífsins