Efnahagsmál - 

26. September 2011

Formaður SA: Samtök atvinnulífsins munu ekki hafa frumkvæði að frekari samskiptum við ríkisstjórnina

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA: Samtök atvinnulífsins munu ekki hafa frumkvæði að frekari samskiptum við ríkisstjórnina

Samtök atvinnulífsins efndu í dag til opins umræðufundar um atvinnumál undir yfirskriftinni "Ryðjum hindrunum úr vegi - atvinnulíf í uppnámi." Þar fóru fulltrúar stærstu atvinnugreina landsins yfir hvað megi betur fara í atvinnulífinu og hvaða sóknarfæri eru til staðar.

Samtök atvinnulífsins efndu í dag til opins umræðufundar um atvinnumál undir yfirskriftinni "Ryðjum hindrunum úr vegi - atvinnulíf í uppnámi." Þar fóru fulltrúar stærstu atvinnugreina landsins yfir hvað megi betur fara í atvinnulífinu og hvaða sóknarfæri eru til staðar.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA setti fundinn og vék að samskiptum við aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórn Íslands. Hann sagði samskipti við verkalýðshreyfinguna hafa gengið vel en nú væri svo komið að hvorki væri hægt að taka mark á orðum ríkisstjórnarinnar né skriflegum yfirlýsingum en allt frá því ríkisstjórnin hafi verið mynduð hafi Samtök atvinnulífsins reynt að fá hana til samstarfs um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi, fjölga störfum og efla hagvöxt til að bæta lífskjörin í landinu.

Vilmundur Jósefsson.

Í erindi sínu sagði Vilmundur:

"Síðastliðið vor undirrituðu Samtök atvinnulífsins kjarasamninga við Alþýðusambandið, landssamböndin og einstök stéttarfélög.  Samskiptin við þessa samningsaðila hafa gengið vel. Menn geta treyst því að sögð orð standi, gefnar yfirlýsingar haldi og þótt tekist sé á um fjölmörg atriði hafa menn sameiginlega sýn á nauðsyn þess að efla atvinnulífið, fjölga störfum og stefna að því að endurheimta fyrri lífskjör á eins skömmum tíma og unnt er.

Ég hef lengi stundað viðskipti og aldrei vanist öðru en því að menn standi við samninga og þá oftast gilt einu hvort þeir eru skriflegir eða munnlegir. Menn vilja ekki að það spyrjist að þeir séu ómerkingar og að ekki sé unnt að treysta  orðum þeirra.

Frá því að núverandi ríkisstjórn var mynduð hafa Samtök atvinnulífsins reynt að fá hana til samstarfs um aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi, fjölga störfum, auka fjárfestingar, efla hagvöxt og bæta lífskjörin í landinu. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir allra landsmanna og hafa að auki þau áhrif að bæta afkomu ríkissjóðs.

Ekki þarf að rekja þá sögu sem hófst með stöðugleikasáttmálanum í júní 2009, yfirlýsingum ríkisstjórnar undir lok þess árs og hélt svo áfram með yfirlýsingum um sátt í sjávarútvegsmálum og lauk með sérstakri skriflegri margra blaðsíðna yfirlýsingu sem gefin var út í tengslum við fyrrnefnda kjarasamninga í maí síðastliðnum.

Því miður hefur ríkisstjórn hvorki sýnt vilja né getu til að fylgja eftir og efna eigin yfirlýsingar. Samtök atvinnulífsins geta ekki treyst orðum hennar né skriflegum yfirlýsingum enda  virðist þar allt á sömu bókina lært.

Orð án athafna - undirskrift án efnda.

Það er því sjálfgefið að Samtök atvinnulífsins munu ekki hafa frumkvæði að neinum frekari samskiptum við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur."

Fjölmenni var á fundi SA sem fram fór í Hörpu en ítarlega verður fjallað um hann hér á vef SA. Frummælendur voru Grímur Sæmundsen, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, Kolbeinn Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Ístaks, Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ - Landssambands íslenskra útvegsmanna og Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Tengt efni:

Viðtal sjónvarps mbl.is við Vilmund

Frétt Stöðvar 2

Frétt RÚV

Samtök atvinnulífsins