Efnahagsmál - 

05. Oktober 2012

Formaður SA: Samkeppnisreglur eru mikilvægar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA: Samkeppnisreglur eru mikilvægar

Samtök atvinnulífsins hafa birt tillögur sem miða að því að skýra samkeppnislögin og bæta framkvæmd þeirra. Tillögurnar miða að auknu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs til að styrkja stöðu samkeppnisreglna. Tilgangurinn er að auðvelda fyrirtækjum að átta sig á inntaki laganna. Óskað er eftir almennum leiðbeiningum um hvernig unnt sé að meta hvort fyrirtæki hafi náð markaðsráðandi stöðu. Það er sjaldnast ljóst hvenær því marki er náð. Það getur verið háð því hvernig yfirvöld skilgreina markaði en fordæmi liggja sjaldnast fyrir. Er íslensk bókabúð í samkeppni við erlendar vefverslanir?

Samtök atvinnulífsins hafa birt tillögur sem miða að því að skýra samkeppnislögin og bæta framkvæmd þeirra. Tillögurnar miða að auknu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs til að styrkja stöðu samkeppnisreglna. Tilgangurinn er að auðvelda fyrirtækjum að átta sig á inntaki laganna. Óskað er eftir almennum leiðbeiningum um hvernig unnt sé að meta hvort fyrirtæki hafi náð markaðsráðandi stöðu. Það er sjaldnast ljóst hvenær því marki er náð. Það getur verið háð því hvernig yfirvöld skilgreina markaði en fordæmi liggja sjaldnast fyrir. Er íslensk bókabúð í samkeppni við erlendar vefverslanir?

Leiðbeiningar samkeppnisyfirvalda eru sérstaklega mikilvægar því íslensk fyrirtæki vilja síst af öllu brjóta samkeppnislög með álitshnekki og kostnaði sem því fylgir. Samkeppnislöggjöfin er mjög mikilvæg öllu atvinnulífinu til að þeir sem telja á sér brotið á markaði geti fengið skjóta úrlausn sinna mála. Það er ekki síður mikilvægt fyrir þá sem eru til rannsóknar.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA.

Annað meginefni tillagna SA er að samkeppnisreglur verði hér sambærilegar við það sem gengur og gerist á Evrópska efnahagssvæðinu. Af og frá er að halda því fram, eins og forstjóri Samkeppniseftirlitsins gerði á opnum fundi SA í vikunni, að Evrópureglurnar séu sniðnar að hagsmunum stórfyrirtækja. Hafa verður í huga að íslensk fyrirtæki eru langflest smá í erlendum samanburði. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að forstjórinn virtist í orðum sínum leggja sérstaka fæð á það sem hann kallar stærri fyrirtæki sem vilji starfa í friði fyrir Samkeppniseftirlitinu og að Samtök atvinnulífsins dragi taum þeirra sérstaklega.

Þessi orð eru fjarri öllu lagi, Samtök atvinnulífsins berjast fyrir hagsmunum allra fyrirtækja, stórra sem smárra. Samtökin gæta að hag fyrirtækja sem vaxið hafa og dafnað í samræmi við lög og rétt og gæta líka að því að óstofnuð fyrirtæki búi við sanngjarnar leikreglur sem samræmast því sem gengur og gerist í kringum okkur.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað forstjóri Samkeppniseftirlitsins bregst illa við málefnalegum athugasemdum SA við samkeppnislögin og framkvæmd þeirra og spyrnir fast við fótum til að halda í séríslenskar reglur sem einungis geta orðið til að seinka nauðsynlegum efnahagsbata og koma í veg fyrir hraðari endurreisn atvinnulífsins. Hann virðist telja sig handhafa hins endanlega sannleika í málinu. Samtök atvinnulífsins hafa sett fram hógværar tillögur sem miða að því að samkeppnislög og framkvæmd þeirra verði svipuð og í samkeppnisríkjunum. SA vilja ræða við stjórnvöld um breytingar og munu fylgja málinu eftir.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. október 2012

Tengt efni:

Viðhorf atvinnulífsins. Samkeppnislögin og framkvæmd þeirra (PDF)

Samtök atvinnulífsins