Formaður SA: Hlutverk ríkisstjórnarinnar að koma hagkerfinu af stað

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, segir ánægjulegt að tekist hafi að tryggja nauðsynlegan frið á vinnumarkaðnum með undirritun nýrra kjarasamninga. Undanfarna mánuði hafi aðilar vinnumarkaðarins unnið að gerð þriggja ára kjarasamninga sem byggi á svokallaðri atvinnuleið, þar sem áhersla er lögð á hagvöxt, öruggt og tryggt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar, aukningu kaupmáttar og minna atvinnuleysi. Það sé nú hlutverk ríkisstjórnarinnar að tryggja að hagkerfið komist af stað og atvinnuvegirnir geti eflst þannig að forsendur samninganna standist.

Samtök atvinnulífsins skrifuðu í gærkvöld undir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til þriggja ára við Alþýðusamband Íslands og landssambönd þess. Aðildarfyrirtæki SA munu kjósa um gildistöku samninganna í rafrænni atkvæðagreiðslu sem hefst á mánudaginn. Formaður SA hvetur til þess að samningarnir verði samþykktir.

Kjarasamningarnir fela í sér umtalsverðar launahækkanir, mun meiri en í samkeppnislöndum Íslands. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir áhættu felast í svo miklum hækkunum, en þær byggi alfarið á því að þjóðin komist út úr kreppunni. Ef það takist ekki séu samningarnir ávísun á verðbólgu og aukið atvinnuleysi. Það megi hins vegar forðast með því að stórauka fjárfestingar í arðbærum greinum atvinnulífsins og skapa ný störf.

Undirrituð eintök samninganna sem undirritaðir voru 5. maí 2011 má nálgast hér:

Upplýsingasíða SA um kjarasamningana

Ítarlega hefur verið fjallað um kjarasamningana í fjölmiðlum. Í Morgunblaðinu í dag segir Vilmundur Jósefsson formaður SA t.d. að gengið hafi verið lengra í launahækkunum en til stóð og samningarnir séu atvinnulífinu dýrir. Vilmundur segist binda miklar vonir við loforð ríkisstjórnarinnar. "Við erum með loforð frá ríkisstjórninni um að efla atvinnutækifæri og framkvæmdir og við treystum því. Við viljum ekki lenda í öðrum stöðugleikasáttmála."

Í samtali við Fréttablaðið segir Vilmundur SA sátt við útspil stjórnvalda í sjávarútvegsmálum. "Við vildum fá að koma að efnislegri umræðu um málið og að sjávarútveginum yrðu sköpuð góð rekstrarskilyrði. Það er hvort tveggja inni í myndinni hjá ríkisstjórninni og við ætlumst til þess að hún standi fullkomlega við það."

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í Morgunblaðinu mikið verk framundan. "Nú erum við að leggja upp í aðra vegferð, að láta þetta ganga upp. Það verður mjög erfitt en við vonum að það gangi." Vilhjálmur segir að auka verði fjárfestingar í atvinnulífinu verulega.

Vilhjálmur og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ ræddu um samningana í Kastljósi RÚV að aflokinni undirritun.

Tengt efni:

Fréttatilkynning SA 5. maí 2011 (PDF)

Upplýsingasíða SA um kjarasamningana

Yfirlýsing ríkisstjórnar vegna kjarasamninga til þriggja ára (PDF)

Umfjöllun fjölmiðla:

Vefútgáfa Fréttablaðsins 6. maí 2011

Vefútgáfa Morgunblaðsins 6. maí 2011

Frétt RÚV útvarps 5. maí 2011

Frétt RÚV Sjónvarps 5. maí 2011

Frétt Stöðvar 2 5. maí 2011

Kastljós RÚV 5. maí