Efnahagsmál - 

29. september 2011

Formaður SA: Atvinnupólitík Samtaka atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA: Atvinnupólitík Samtaka atvinnulífsins

"Í Fréttablaðinu í gær sakar Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, mig um að hafa farið með ósannindi á fundi SA um atvinnumál í Hörpu á mánudaginn. Ekki vil ég sitja undir því en á fundinum lýsti ég hvernig ríkisstjórnin hefur ítrekað hvorki getað né viljað standa við eigin yfirlýsingar m.a. um málefni iðnaðarráðherra.

"Í Fréttablaðinu í gær sakar Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, mig um að hafa farið með ósannindi á fundi SA um atvinnumál í Hörpu á mánudaginn. Ekki vil ég sitja undir því en á fundinum lýsti ég hvernig ríkisstjórnin hefur ítrekað hvorki getað né viljað standa við eigin yfirlýsingar m.a. um málefni iðnaðarráðherra.

Í stöðugleikasáttmálanum í júní 2009 lofaði ríkisstjórnin að greiða götu framkvæmda sem þegar voru í þjóðhagsáætlun, hraða undirbúningi ýmissa verkefna og ljúka viðræðum við lífeyrissjóði um fjármögnun stórra verkefna. Í október sama ár var þessi vilji ítrekaður. Í kjölfarið sögðu SA og ASÍ sig frá sáttmálanum vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar.

Í yfirlýsingu í tengslum við kjarasamningana sl. vor lofaði ríkisstjórnin enn sömu atriðum. Þar segir m.a. að það sé markmið stjórnvalda að fjárfesting verði ekki minni en 350 ma.kr. á ári í lok samningstímans en var 200 ma.kr. 2010. Gera átti hagvaxtar- og fjárfestingaráætlun í maí sl. Heitið var að greiða fyrir aukinni fjárfestingu sem víðast og einkanlega þeim sem auka útflutningstekjur. Auka þyrfti hagvöxt umfram horfur til að markmið um minna atvinnuleysi næðust.

Þessi áform hafa að litlu orðið. Áætlunin hefur ekki verið lögð fram. Fyrirheitin eru góð en efndirnar litlar. Ályktunin sem ég dreg er að hvorki er unnt að treysta orðum né skriflegum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar.

Vegna orða iðnaðarráðherra um að SA séu blinduð af flokkapólitík er ítrekað að SA stunda atvinnupólitík og vilja vinna með öllum stjórnmálaflokkum að því að auka fjárfestingar hér á landi, efla hagvöxt og draga úr atvinnuleysi. Hagsmunir fólks og fyrirtækja fara algerlega saman. SA vilja ekki að hér grafi um sig langtímaatvinnuleysi. SA vilja að stjórnvöld vinni með atvinnulífinu í stað þess að vera sífellt á móti, hindra, fresta og þvælast fyrir.

Ef afstaða SA í þessum efnum er andstæð stefnu Samfylkingarinnar er það miður."

Vilmundur Jósefsson, formaður SA.

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 29.9. 2011.

Tengt efni:

Samantekt frá fundi SA um atvinnumál

Samtök atvinnulífsins