Efnahagsmál - 

11. janúar 2012

Formaður SA: Atvinnulífið þarf öflugar rannsóknir og trausta stjórnsýslu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA: Atvinnulífið þarf öflugar rannsóknir og trausta stjórnsýslu

"Ríkisstjórnin hefur unnið að breytingum á verkaskiptingu ráðuneyta og stefnir að því að færa rannsóknarstofnanir atvinnuveganna undir umhverfisráðuneytið. Þetta er varasöm stefna sem felur í sér að tengsl milli atvinnuvegaráðuneyta og ákvarðana um nýtingu auðlinda, rannsókna, ráðgjöf og verndun auðlinda verða rofin. Hætt er við að breytingarnar hafi neikvæð áhrif á nýsköpun íslenskra fyrirtækja og vöruþróun. Rétt er að fara aðrar leiðir.

"Ríkisstjórnin hefur unnið að breytingum á verkaskiptingu ráðuneyta og stefnir að því að færa rannsóknarstofnanir atvinnuveganna undir umhverfisráðuneytið. Þetta er varasöm stefna sem felur í sér að tengsl milli atvinnuvegaráðuneyta og ákvarðana um nýtingu auðlinda, rannsókna, ráðgjöf og verndun auðlinda verða rofin. Hætt er við að breytingarnar hafi neikvæð áhrif á nýsköpun íslenskra fyrirtækja og vöruþróun. Rétt er að fara aðrar leiðir.

Samvinna byggi á trausti og fagmennsku

Náin tengsl rannsóknaraðila og stjórnsýslu atvinnuveganna eru nauðsynleg til að tryggja traust og samvinnu á milli aðila. Rannsóknarstofnanir eins og Hafrannsóknastofnun, Matís, Veiðimálastofnun og Orkustofnun byggja á náinni samvinnu við ráðuneyti sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar. Með því að slíta á samskipti milli aðila, og um leið upplýsingamiðlun, er skorið á lífæð framþróunar á viðkomandi fagsviði. Bein tenging stjórnsýslu atvinnuveganna við rannsóknir og framkvæmd verkefna og öfugt er skilyrði þess að árangur náist. Án slíkrar tengingar eru miklar líkur á því að engin framþróun verði á sviði stjórnsýslunnar.

Þessar stofnanir sinna grunnrannsóknum á Íslandi. Sérfræðingar þeirra eru meðal þeirra fremstu á sviði haf-, matvæla- og orkurannsókna og í beinni samkeppni við erlenda starfsbræður. Með því að fjarlægja bein tengsl við atvinnulífið er líklegt að Íslendingar tapi rannsóknarforskoti sem þeir hafa á aðrar þjóðir. Stofnanirnar eiga líka beint samstarf við háskóla um menntun sem tengist atvinnulífinu. Með því að rjúfa tengslin eru líkur til þess að áherslur atvinnulífsins komist ekki til skila inn í menntakerfið og það dragi úr samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs til lengri tíma. Þess vegna er nauðsynlegt að viðhalda tengingu atvinnuvegaráðuneyta og ákvarðana um auðlindanýtingu við rannsóknarstofnanir og auðlindarannsóknir.

Áhersla á rannsóknir í þágu atvinnulífsins hefur minnkað við sameiningu rannsóknarstofnana við þjónustustofnanir. Dæmi má taka af Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins sem var sameinuð Landbúnaðarháskólanum. Eftir sameiningu hefur bæði tími sérfræðinga og rannsóknaráherslur færst frá þörfum atvinnulífsins.

Þvert gegn alþjóðlega viðurkenndum aðferðum

Sérstakar hafrannsóknarstofnanir heyra jafnan undir ráðuneyti sjávarútvegs, landbúnaðar eða matvæla í nálægum löndum. Hlutverk þeirra er að sinna rannsóknum og ráðgjöf til ráðuneytisins. Verði Hafrannsóknarstofnunin færð frá sjávarútvegs­ráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins að hluta eða í heild, gengur það gegn meginstefnu þróaðra fiskveiðiríkja um að hafa sérstaka hafrannsóknarstofnun innan vébanda fagráðuneytis fiskveiða. Íslendingar hafa verið í fararbroddi í sjávarútvegi og starfað eftir siðareglum FAO um ábyrga hegðun sem tryggir virka verndun, stjórnun og þróun lifandi auðlinda í sjó og vatni með tilhlýðilegri virðingu fyrir vistkerfinu og fjölbreytileika lífríkisins.

Grundvallaratriði í leiðbeiningum FAO er að ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál geti tekið ákvarðanir um ábyrga nýtingu fiskistofna og hafi beinan og milliliðalausan aðgang að rannsóknum, niðurstöðum þeirra, skipulagi og framkvæmd. Eins er lögð mikil áhersla á samráð við atvinnugreinina sjálfa en eins og kunnugt er hafa einstakir útgerðarmenn og samtök þeirra átt mikla og góða samvinnu við ráðuneytið og Hafrannsóknarstofnun. Með áformum ríkisstjórnarinnar um að slíta á milli hafrannsókna, nýtingu auðlinda og stjórn fiskveiða er gengið gegn leiðbeiningum FAO. Frekar er nauðsyn að tengja betur saman rannsóknir á Íslandi og atvinnulífið en að byggja múra til að girða af rannsóknir á auðlindum frá nýtingu þeirra.

Afleiðingar breytinga verði metnar

Íslenskar orkurannsóknir þjóna orkufyrirtækjunum á margvíslegan hátt og stunda rannsóknir á þeirra vegum og er nauðsynlegt að þar á milli séu náin tengsl. Hætta er á að þau rofni verði af fyrirhugaðri breytingu. Sama má segja um samstarf Matís og atvinnulífsins. Matís er þekkingar- og rannsóknafyrirtæki sem vinnur að þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, líftækni og sinnir matvælaöryggi. Matís veitir fyrirtækjum í sjávarútvegi, landbúnaði og almennri matvælaframleiðslu ráðgjöf og þjónustu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla. Þessi tengsl verður að vernda.

Nauðsynlegt er að fyrir liggi hvaða markmiðum ætlunin er að ná og mat á afleiðingum þeirra. Vanda verður undirbúning og tryggja að meiri hagsmunum sé ekki fórnað fyrir minni. Samráð við hagsmunaaðila og bein aðkoma þeirra að undirbúningi er nauðsynleg.

Tækifæri til að gera betur
Að lokum er bent á að hagræða má í stjórnsýslunni með því að skipta verkefnum umhverfisráðuneytis milli iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis án þess að slaka á efnislegum kröfum í umhverfismálum. Þannig yrði umhverfismálum gert hærra undir höfði í stjórnsýslunni en nú er.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. janúar 2012.

Samtök atvinnulífsins