Efnahagsmál - 

02. Janúar 2012

Formaður SA: Athafnaárið 2012

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA: Athafnaárið 2012

"Í maí 2011 undirrituðu Samtök atvinnulífsins kjarasamninga við helstu viðsemjendur sína sem gilda að óbreyttu fram á árið 2014. Ef forsendur þeirra ganga eftir verður friður á vinnumarkaði tryggður í nær þrjú ár. Það var langt frá því sjálfgefið að samið yrði á þessum nótum og vissulega voru launahækkanir miklar og erfiðar mörgum fyrirtækjum. Samningarnir byggja á að hagur fólks og fyrirtækja batni með aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu og að atvinnuleysi minnki.

"Í maí 2011 undirrituðu Samtök atvinnulífsins kjarasamninga við helstu viðsemjendur sína sem gilda að óbreyttu fram á árið 2014. Ef forsendur þeirra ganga eftir verður friður á vinnumarkaði tryggður í nær þrjú ár. Það var langt frá því sjálfgefið að samið yrði á þessum nótum og vissulega voru launahækkanir miklar og erfiðar mörgum fyrirtækjum. Samningarnir byggja á að hagur fólks og fyrirtækja batni með aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu og að atvinnuleysi minnki.

Laun hækkuðu mest í upphafi en í samningunum er forsenduákvæði um að kaupmáttur aukist, verðlag haldist stöðugt, gengi krónunnar styrkist marktækt og að stjórnvöld standi við fyrirheit í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum. Í janúar verða forsendur samninganna metnar en ekkert bendir til annars en að þeir standist þá skoðun og samningarnir haldi gildi. Í janúar 2013 verða forsendur metnar á ný og um niðurstöður þeirrar skoðunar ríkir meiri óvissa enda markið sett hátt á nokkrum sviðum.

Við mat á forsendum kjarasamninga nú skortir það helst að ríkisstjórnin hafi staðið við fyrirheit sín um að örva fjárfestingu og skapa hvata til nýsköpunar. Stjórnvöldum hefur einnig mistekist að skapa atvinnulífinu hagstæð starfsskilyrði með almennri efnahagsstefnu sem stuðlar að hagvexti. Þvert á móti hefur ríkisstjórnin sérstaklega ákveðið að falla frá framkvæmdum sem gátu orðið að veruleika bæði hratt og örugglega. Einnig hefur verið stefnt að því að skattleggja sérstaklega atvinnugreinar sem ekki eru ríkisstjórninni þóknanlegar. Þar er átt við sjávarútveg, fjármálageirann og orkufrekan iðnað.

Skattlagning fjármálafyrirtækjanna er óhófleg og verður ekki til annars en að hækka vexti og þjónustugjöld og hvetja þau til þess að útvista starfsemi sinni. Þessa skatta alla munu viðskiptavinir fyrirtækjanna bera, almenningur og fyrirtæki.

Síendurteknar tillögur um að leggja rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækjanna í rúst verða ekki skýrðar með neinum skynsemisrökum. Áformuð þreföldun veiðigjalds verður sérstakur skattur á landsbyggðina sem þurrkar upp nánast allan hagnað af rekstrinum og veldur því að enn frekar dregur úr vilja fyrirtækjanna til fjárfestinga og uppbyggingar.

Ítrekaðar tilraunir til að brjóta samkomulag við stóriðjufyrirtækin um orku- og kolefnisgjöld bera þess glöggt vitni, að hvað svo sem einstakir ráðamenn segja, þá er það einbeittur vilji ríkisstjórnarinnar að skapa sem mesta óvissu í kringum þessa grein. Engu líkara er að það sé beinlínis ásetningur að fæla fjárfesta frá allri uppbyggingu hér á landi.

Svokallaður auðlegðarskattur er einnig til þess fallinn að ganga á eigið fé fólks og fyrirtækja og draga þrótt úr þeim sem vilja fjárfesta í atvinnulífinu.

Þrátt fyrir þetta þá mun ekkert vinnast með því að segja upp kjarasamningum vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar því það er jafn ólíklegt að hún standi við ný fyrirheit og öll hin fyrri.

Samtök atvinnulífsins hafa frá bankahruninu 2008 flutt margvíslegar tillögur og hugmyndir um hvernig unnt sé að komast út úr kreppunni, draga úr atvinnuleysinu og bæta lífskjör í landinu. Grunnur þeirra er sá að nýta þau tækifæri sem blasa við Íslendingum og hefja arðbærar fjárfestingar á sem flestum sviðum.

Með því að nýta frumkvæði einstaklinga og þann kraft sem í atvinnulífinu býr má á skömmum tíma snúa vörn í sókn og leggja þannig grunn að kröftugu athafnaári 2012. En til þess verður stefnubreyting að koma til.

Gleðilegt nýtt ár."

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. janúar 2012

Samtök atvinnulífsins