Efnahagsmál - 

04. Nóvember 2010

Formaður SA: Allir hópar fái sambærilega og hóflega launahækkun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður SA: Allir hópar fái sambærilega og hóflega launahækkun

Formaður Samtaka atvinnulífsins, Vilmundur Jósefsson, segir að í komandi kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði verði lögð á það áhersla af hálfu SA að allir hópar fái sambærilega og hóflega launahækkun og að samningar allra aðila hafi sama gildistíma sem verði allt að þremur árum. Vilmundur leggur þunga áherslu á að það sé algjört forgangsmál að koma atvinnulífinu af stað á nýjan leik, skapa ný störf og minnka atvinnuleysið sem allra fyrst. Að því muni SA stefna.

Formaður Samtaka atvinnulífsins, Vilmundur Jósefsson, segir að í komandi kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði verði lögð á það áhersla af hálfu SA að allir hópar fái sambærilega og hóflega launahækkun og að samningar allra aðila hafi sama gildistíma sem verði allt að þremur árum. Vilmundur leggur þunga áherslu á að það sé algjört forgangsmál að koma atvinnulífinu af stað á nýjan leik, skapa ný störf og minnka atvinnuleysið sem allra fyrst. Að því muni SA stefna.

Samtök atvinnulífsins efna til opinna funda á landsbyggðinni í næstu viku um stöðu atvinnumála og vinnumarkaðinn og verður fyrsti fundurinn á Ísafirði 9. nóvember. Fimmtudaginn 11. nóvember efna SA til funda á Akureyri og Húsavík og á Reyðarfirði föstudaginn 12. Nóvember. Fleiri fundir verða auglýstir síðar víðar um landið.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA.

Á fundum SA munu Vilmundur Jósefsson, formaður SA og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA ræða um stöðuna í atvinnulífinu, komandi kjarasamninga og svara fyrirspurnum. Stjórnendur og forsvarsmenn fyrirtækja, stórra sem smárra, eru hvattir til að mæta og taka þátt ásamt öllu áhugafólki um uppbyggingu atvinnulífsins.

 "Ríkisstjórnin verður að koma að borðinu þar sem Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á að tryggja atvinnuuppbyggingu og að greitt verði fyrir fjárfestingum. Einnig verður að taka til baka margar af þeim skattabreytingum sem ákveðnar hafa verið og gera ekki annað en að gera starfskilyrði atvinnulífsins verri en í nálægum löndum og eru ekki til þess fallnar að auka tekjur ríkisstjóðs. Þá verður að eyða óvissu um rekstrarskilyrði sjávarútvegsins," segir Vilmundur.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út í nóvember og eru kjaraviðræður við verkalýðshreyfinguna þegar hafnar. Fundaröð SA er ætlað að upplýsa stjórnendur fyrirtækja um það sem er framundan og skapa umræðu til að fá skýrari mynd af stöðu atvinnumála og horfum á vinnumarkaði.

SMELLIÐ HÉR FYRIR NÁNARI UPPLÝSINGAR UM FUNDINA OG SKRÁNINGU

Samtök atvinnulífsins