Efnahagsmál - 

06. júlí 2011

Formaður Mannvirkis: Ein brú verði boðin út

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Formaður Mannvirkis: Ein brú verði boðin út

Sigþór Sigurðsson, formaður Mannvirkis, skrifar í dag grein í Morgunblaðið, þar sem hann hvetur innanríkisráðherra til að bjóða út smíði í það minnsta einnar einbreiðrar brúar. "Ekki þarf að fjölyrða um fjárfestingar einkaaðila og fyrirtækja. Þar er allt stopp hvort sem um stórar eða smáar hugmyndir er að ræða. Ráðherrar hafa rætt fjálglega um hverja stórframkvæmdina á fætur annarri sem eiga að fara bráðlega af stað en nú geta menn ekki blekkt þjóðina lengur. Þrjú ár eru að verða liðin frá hruni og engin verkefni eru farin af stað eða í þann mund að fara af stað. Um er að kenna gjaldeyrishöftum, þrefi um raforkuöflun og raforkuverð og mörgum öðrum hindrunum sem hefur ekki verið rutt úr vegi, sama hvað menn segja. Stöðugleikasáttmálar og samningar við atvinnulífið eru marg- og þverbrotnir."

Sigþór Sigurðsson, formaður Mannvirkis, skrifar í dag grein í Morgunblaðið, þar sem hann hvetur innanríkisráðherra til að bjóða út smíði í það minnsta einnar einbreiðrar brúar. "Ekki þarf að fjölyrða um fjárfestingar einkaaðila og fyrirtækja. Þar er allt stopp hvort sem um stórar eða smáar hugmyndir er að ræða. Ráðherrar hafa rætt fjálglega um hverja stórframkvæmdina á fætur annarri sem eiga að fara bráðlega af stað en nú geta menn ekki blekkt þjóðina lengur. Þrjú ár eru að verða liðin frá hruni og engin verkefni eru farin af stað eða í þann mund að fara af stað. Um er að kenna gjaldeyrishöftum, þrefi um raforkuöflun og raforkuverð og mörgum öðrum hindrunum sem hefur ekki verið rutt úr vegi, sama hvað menn segja. Stöðugleikasáttmálar og samningar við atvinnulífið eru marg- og þverbrotnir."

Sigþór bendir á að Íslendingar muni aldrei komast út úr kreppunni nema ráðast í arðbærar fjárfestingar sem skili vinnu og veltu strax og samfélagslegum arði til lengri tíma litið.

"Þá verður að líta til opinberra framkvæmda enda hefur margoft verið bent á að ein hraðvirkasta og besta leiðin til að slá á kreppuástand er innspýting ríkis í arðbær verkefni í vegagerð og öðrum innviðum samfélagsins. Þetta er sú aðferð sem flest vestræn ríki hafa beitt síðan í kreppunni miklu á fyrri hluta síðustu aldar. Þetta er svona hagfræði 101 - hvernig ríkið örvar eftirspurn í kreppu, en heldur að sér höndum í þenslu."

Sigþór segir snögga hemlun ríkis og sveitarfélaga í öllu sem lúti að framkvæmdum hafa snardýpkað kreppuna og gert hana miklu verri en þurft hefði að vera. Hann segir tímabært að hefjast nú þegar handa við bráðnauðsynlegar lagfæringar á frumstæðu vegakerfi út um land allt.

"Hörmuleg slys verða nánast daglega nú yfir sumartímann þegar umferðin er sem mest á þröngum vegunum. Verktakar sem sinna verkum eins og hér hafa verið nefnd hafa ekki orðið varir við eitt einasta verkefni. Segi og skrifa: ekki eitt. Það er komið fram á mitt sumar og ráðamenn komnir í sumarfrí fram í ágúst eða lengur en eins og menn vita er sumarið besti tíminn til framkvæmda á Íslandi.

Ráðherra sem, því miður leyfi ég mér að segja, tók við samgöngumálum hér á landi hefur ítrekað komið fram með stóryrði um verktakaiðnaðinn sem lýsa ekki bara algjörri vanþekkingu á greininni heldur líka fordómum og dónaskap. Niðrandi tal um stórverktaka, kúlulán og annað bull er ekki sæmandi ráðamanni í hans stöðu. Það eru engir stórverktakar á Íslandi lengur, hafi þeir einhverntíma verið til. Stór og mikilvæg atvinnugrein sem staðið hefur undir allt að 10-15% landsframleiðslunnar er nánast þurrkuð út. Engir starfsmenn í öðrum atvinnugreinum hafa upplifað annað eins hrun. Hundruð fyrirtækja eru gjaldþrota og þau sem eftir eru berjast fyrir lífi sínu. Þúsundir hafa misst vinnuna og atgervisflótti er slíkur að stór hætta er á að verktakaiðnaðurinn tapi stórum hluta af þeirri verkþekkingu sem byggð hefur verið upp.

Tal um kúlulán í þessu sambandi er skammarlegur popúlismi sem gerir út á reiði almennings og það er gremjulegt að enginn blaða- eða fréttamaður hafi þor til að andmæla hæstvirtum ráðherra. Það er vitað að lífeyrissjóðir landsins verða að koma sínu fé í arðbær verkefni. Það er talið að milli 10-15 milljarðar komi inn í kerfið í hverjum einasta mánuði. Í okkar lokaða hagkerfi verða til mörghundruð milljarðar á næstu árum, reyndar í formi íslenskra króna. Ein leiðin til að láta þessa peninga vinna er að fjárfesta í íslensku grjóti og sementi, íslensku vinnuafli og íslenskum vinnuvélum því þær standa hundruðum saman á hafnarbökkunum. Arðbærar vegaframkvæmdir geta gert kraftaverk í ástandi eins og nú. Ég skora á hæstvirtan innanríkisráðherra að láta að minnsta kosti bjóða út eins og eina einbreiða brú og breyta henni í tvíbreiða áður en hann fer í sumarfrí."

Grein Sigþórs má lesa í heild á vef SI

Einnig í Morgunblaðinu 6. júlí 2011.

Samtök atvinnulífsins