Formaður LÍÚ: Hægt að skapa hundruð nýrra starfa ef óvissu um sjávarútveginn verður eytt

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ -  Landssambands íslenskra útvegsmanna, var á meðal frummælenda á opnum fundi SA um atvinnumál sem fram fór fyrr í dag. Þar sagði hann m.a. að ef óvissunni um sjávarútveginn yrði eytt þá myndu fljótt skapast hundruð starfa í fjölda atvinnugreina. Auðvelt væri að ryðja þeirri hindrun úr vegi. "Rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna gengur almennt vel og því ættum við að vera að fjárfesta af krafti með tilheyrandi margfeldisáhrifum á hagkerfið.  Þess í stað hefur ríkisstjórnin komið málum þannig að fjöldi fólks gengur um atvinnulaust," sagði Adolf.

Adolf sagði að allt frá því núverandi ríkisstjórn var mynduð vorið 2009 og  setti fram stefnu sína um svokallað fyrrningarleið hafi íslenskur sjávarútvegur verið í uppnámi. Hann gagnrýnir harðlega að enginn úr atvinnugreininni hafi verið fenginn að málum og engin fræðileg úttekt gerð á afleiðingum lagafrumvarps ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórn fiskveiða áður en það var lagt fram á Alþingi sl. vor. Með frumvarpinu sé markvisst stefnt að því að gera aflaheimildir útgerðanna verðlausar og færa þær til ríkisins með ómældu tjóni fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og íslenskt efnahagslíf.

Adolf Guðmundsson.

Í erindi sínu sagði Adolf:

"Með fyrningarleiðinni ætlaði ríkisstjórnin að gera aflaheimildir upptækar og selja þær á uppboði. Ekkert mat var lagt á hvaða áhrif þetta hefði á sjávarútveginn eða þjóðarhag.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte mat áhrif fyrningarleiðarinnar á fyrirtækin og niðurstaðan kom engum á óvart. Það vita allir sem hér eru hvað gerist ef tekjurnar eru teknar frá fyrirtækjum og  einstaklingum en skuldbindingarnar skildar eftir.

Sumarið 2009 var skipuð nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, sem við gáfum nafnið Sáttanefndin.

Nefndin skilaði af sér í september 2010 og niðurstaðan var sú að byggja áfram á aflamarkskerfinu en  að í  stað ótímabundinna afnota af aflaheimildum eins og nú er, yrðu gerðir tímabundnir afnotasamningar á milli útgerðanna og ríkisins.

Við útvegsmenn stóðum að þessari niðurstöðu þrátt fyrir að hún gangi á stjórnarskrárvarinn rétt okkar. Við teljum afar mikilvægt að friður skapist um þessa mikilvægu atvinnugrein. Við vorum þess fullvissir að við útfærslu á samningunum og öðrum atriðum varðandi fiskveiðistjórnina yrði haft samráð og samvinna við okkur. En annað kom á daginn.

Frá þessum tíma hefur ekkert samráð verið haft við fulltrúa útgerða og fiskvinnslu um málið.

Bréfum okkar til forsætisráðherra, fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra þar sem farið var fram á aðkomu að útfærslu á breytingum á lögum um stjórn fiskveiða hefur ekki verið svarað.

Þess í stað megum við hlýða á forsætisráðherrann segjast vera í heilögu stríði um auðlindirnar.  Verði samningaleiðin farin þá gera útgerðarmenn samning við ríkið um tímabundin afnot af aflaheimildum gegn gjaldi. 

Hver er þá eigandinn?  Sá sem veitir afnotin eða sá sem fær þau tímabundið gegn greiðslu gjalds.

Þegar sáttanefndin hafði skilað af sér tók við vinna við gerð lagafrumvarps. Fyrst undir handleiðslu 6 þingmanna stjórnarflokkanna og síðar bættust við forsætisráðherrann, velferðarráðherrann, fjármálaráðherrann og sjávarútvegsráðherrann. Enginn úr atvinnugreininni kom að málum og enginn fræðileg úttekt var gerða á afleiðingum lagafrumvarpsins áður en það var lagt fram á Alþingi.

Þegar frumvarpið var kynnt í maí á þessu ári lýstum við því strax hvaða afleiðingar það myndi hafa. Samt ætlaði forsætisráðherrann að keyra málið í gegnum þingið í vor. En það tókst sem betur fer ekki.

Í sumar og haust hafa fjölmargir aðilar gefið umsagnir um frumvarpið. Þær hafa verið mjög á einn veg. Frumvarpið hefur fengið algjöra falleinkunn.  Það er afar illa samið, og raunar tel ég að það hafi ekki verið þingtækt, það stenst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd atvinnuréttar og samþykkt þess hefði gríðarlega neikvæð áhrif á sjávarútveginn og þjóðarhag.

Þessu valda nokkur meginatriði:

  • Stuttur og óljós afnotatími aflahlutdeilda.

  • Bann við framsali aflaheimilda eftir ákveðinn tíma.

  • Bann við veðsetningum.

  • Stórfelld skerðing aflahlutdeilda.

  • Tvöföldun veiðigjalds á sama tíma og tekjur og arðsemi eru skert.

  • Stóraukin pólitísk miðstýring og afskipti með framsali valds til sjávarútvegsráðherra, m.a. til úthlutunar aflaheimilda.

En það er ekki einungis að frumvarpið hefði mikil áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Sama gildir um efnahaginn. Með frumvarpinu er markvisst stefnt að því að gera aflaheimildir útgerðanna verðlausar og færa þær til ríkisins.

Samkvæmt lögum um ársreikninga og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum þá bæri okkur að afskrifa allar keypar aflaheimildir.  Virði þeirra er 181 milljarður. Þetta leiddi til fjöldagjaldþrota í greininni.  Að sjálfsögðu hefur þetta allt orðið til þess að  fjárfestingar í sjávarútvegi hafa verið í algjöru lágmarki.

Deloitte hefur unnið fyrir okkur úttekt úr ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja sem sýnir að í fjárfesting sjávarútvegsins síðustu tvö ár hefur verið  langt undir meðaltali. Hið sama kom fram hjá Landsbankanum fyrir helgina en niðurstaða bankans byggir á greiningu ársreikninga 186 fyrirtækja. Þannig hefur mikil fjárfestingarþörf safnast upp sem leysa má úr læðingi með því að eyða óvissu. Verði það hinsvegar ekki gert  veikist samkeppnishæfni okkar fljótt og við drögumst aftur úr.

Rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna gengur almennt vel og því ættum við að vera að fjárfesta af krafti með tilheyrandi margfeldisáhrifum á hagkerfið.  Þess í stað hefur ríkisstjórnin komið málum þannig að fjöldi fólks gengur um atvinnulaust.

Ef óvissunni um sjávarútveginn yrði eytt þá myndu fljótt skapast hundruð starfa í fjölda atvinnugreina.

Það er auðvelt að ryðja þessari hindrun úr vegi."