Fréttir - 

10. Júlí 2019

Fordæmalítil kaupmáttaraukning á grunni hóflegrar hækkunar verðlags

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fordæmalítil kaupmáttaraukning á grunni hóflegrar hækkunar verðlags

Í kjölfar bankahrunsins náði kaupmáttur launa lágpunkti í maí 2010 samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Kaupmáttaraukning þensluáranna 2003-2007 hafði þurrkast út, með gengisfalli krónunnar og meðfylgjandi hækkun verðlags, og fallið niður á sama stig og árið 2002.

Í kjölfar bankahrunsins náði kaupmáttur launa lágpunkti í maí 2010 samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Kaupmáttaraukning þensluáranna 2003-2007 hafði þurrkast út, með gengisfalli krónunnar og meðfylgjandi hækkun verðlags, og fallið niður á sama stig og árið 2002.

Níu árum síðar, í maí 2019, er kaupmáttur launa samkvæmt launavísitölu 46% hærri en í maí 2010 og kaupmáttur lágmarkslauna 58% hærri.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði á þessum níu árum um 28%. Hækkun helstu liða hennar var þó afar mismunandi. Húsnæðisliðurinn, sem vegur nú 30% í vísitölunni, hækkaði um 75% þannig að VNV án húsnæðis hækkaði tæplega helmingi minna, eða um aðeins 15%. Húsnæðisliðurinn hækkaði þannig fimmfalt meira en verðlag almennt.

Áhugavert er að innlendar vörur hækkuðu aðeins um 31% á tímabilinu þrátt fyrir að laun hækkuðu nánast þrefalt meira. Það gefur til kynna mikla hagræðingu og framleiðniaukningu íslenskra fyrirtækja.

Hækkun húsnæðisliðar VNV stafaði fyrst og fremst af hækkun markaðsverðs húsnæðis. Kaupgeta þeirra sem bjuggu í eigin húsnæði og þurftu þ.a.l. ekki að verja tekjum sínum til öflunar húsnæðis jókst þannig enn meira en framangreind 46%. Kaupgeta á vörum og þjónustu jókst þannig um 62% og sambærileg kaupgeta lágmarkslauna um 76%. Á ársgrundvelli jókst kaupgeta launa og lágmarkslauna svo reiknuð 5,5% og 6,5% að jafnaði.

Þótt húsnæði hafi hækkað mikið á þessu tímabili hækkuðu laun enn meira og því var auðveldara að afla húsnæðis árið 2019 en 2010. Þar til viðbótar lækkuðu raunvextir húsnæðislána verulega á tímabilinu sem bættu hag íbúðakaupenda enn frekar.

Áhugavert er að innlendar vörur hækkuðu aðeins um 31% á tímabilinu þrátt fyrir að laun hækkuðu nánast þrefalt meira. Það gefur til kynna mikla hagræðingu og framleiðniaukningu íslenskra fyrirtækja.

Merkilegt er að sjá að smásöluverð innfluttrar vöru var 2% lægri í maí 2019 en í sama mánuði 2010. Því veldur að mestu styrking gengis krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum, en gengi hennar var 17% hærra í maí 2019 en í sama mánuði 2010 samanborið við vegið meðaltal gjaldmiðla viðskiptalandanna.

Verðbólga í viðskiptalöndunum var að jafnaði 2,0% árlega á tímabilinu 2010-2019 og verðlag hækkaði um 18% að jafnaði frá upphafi til loka þess. Áætla má innflutningsverðlag til Íslands með því að vega saman breytingu gengis krónunnar og verðbólgu í viðskiptalöndunum. Þá fæst að áætlað innflutningsverðlag hafi lækkað um 2,7% á tímabilinu samanborið við 2,2% lækkun á verði innfluttra vara í VNV.

Í opinberri umfjöllun um áhrif gengisbreytinga á verðlag er sífellt klifað á því að gengislækkanir hafi meiri áhrif á verðlag en gengishækkanir. Því er haldið fram að innfluttar vörur hækki meira þegar gengi krónunnar lækkar en að þær lækki þegar gengi krónunnar hækkar. Meðfylgjandi samanburður á verði innfluttra vara í VNV og áætluðu innflutningsverði sýnir að slíkar fullyrðingar eiga sér ekki stoð.

Samtök atvinnulífsins