Fréttir - 

16. júní 2023

Fólksfjölgun setur sitt mark á þróun ráðstöfunartekna á mann

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Fólksfjölgun setur sitt mark á þróun ráðstöfunartekna á mann

Hagstofan gaf í vikunni út tölur um tekjur heimilanna þar sem finna má ýmislegt fróðlegt.

Gögnin sýna hvernig tekjur heimilanna og mikilvægustu kostnaðarliðir þeirra hafa verið að þróast. Þannig má sjá hverjar ráðstöfunartekjurnar hafa verið, það er að segja hversu mikið stendur eftir í veskinu þegar gjöld hafa verið dregin frá tekjum. Þá er einnig leiðrétt fyrir verðlagi til að sjá hver kaupmáttur ráðstöfunarteknanna er.

Tölurnar sem birtar voru ná yfir fyrsta fjórðung þessa árs, 2023. Líkt og fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar mældist samdráttur í kaupmætti ráðstöfunartekna á mann fjórða ársfjórðunginn í röð. Í því samhengi er mikilvægt að líta til þess að þessi samdráttur siglir í kjölfar verulegs vaxtar kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann síðustu þrjá ársfjórðungana þar á undan, en mikil fólksfjölgun á tímabilinu setur einnig sitt mark á þróunina.

Með því að draga öll gjöld frá öllum tekjum fást ráðstöfunartekjur heimilanna, sem hafa vaxið um 8% á heildina litið. Annars vegar hafa tekjur heimilanna vaxið þó nokkuð og munar þar mestu um launatekjur, en vöxtur launatekna heimilanna í heild nam 13,4% á milli ára sem er aukning um 62 milljarða króna. Hins vegar hafa gjöld vaxið enn hraðar á sama tímabili. Til að mynda hafa vaxtagjöld vaxið um 60%, eða sem nemur 11,5 milljörðum á milli ára, sem er afleiðing mikilla vaxtahækkana að undanförnu.

Aftur á móti hefur fólksfjölgun á tímabilinu verið veruleg, eða um 3,5% og ráðstöfunartekjur á mann því einungis að vaxa um 4,7% þar sem tekjur hafa ekki verið að vaxa til samræmis. Þá á eftir að leiðrétta fyrir áhrifum verðbólgu til að fá út kaupmátt ráðstöfunartekna á mann. Í ljósi þess að verðbólga á tímabilinu nam 10% dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann saman um 4,8%. Af tölunum má ætla að fyrir allar þær tekjur sem heimilin afla, að frádregnum nauðsynlegum gjöldum, geti hver einstaklingur sem býr hér á landi að meðaltali keypt um 5% minna af vörum og þjónustu en hann gat keypt á sama tíma fyrir ári.

Þó ber að hafa í huga að meðaltöl segja ekki alla söguna.Eins og fram kom í frétt á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur kaupmáttur verið að þróast með ólíkum hætti milli tekjutíunda. Þannig sýna gögn ráðuneytisins að kaupmáttur heimilanna hafi einkum dregist saman hjá heimilum í efsta hluta tekjudreifingarinnar á síðasta ári á meðan kaupmáttur annarra óx á sama tíma. Einnig ber að horfa til þess að fólksfjölgun á tímabilinu stafar að hluta til af aðflutningi vinnuafls, sem starfar að megninu til í greinum þar sem laun eru í lægri enda tekjudreifingarinnar, en einnig af fjölgun flóttafólks frá Úkraínu.

Hvernig sem á það er litið er kaupmáttarrýrnun ekki jákvæð þróun. Þar er verðbólgan nú að leika stórt hlutverk, en til viðbótar við það að rýra kaupmátt með beinum hætti í gegnum hærra verðlag, leiðir hún af sérhærra vaxtastig enella sem eykur vaxtagjöld heimilanna.

Miklar launahækkanir eru ekki að skila auknum kaupmætti í núverandi umhverfi 

Horfa má á kaupmátt á ólíka mælikvarða og er til að mynda oft rætt um kaupmátt launa sérstaklega. Launavísitala Hagstofunnar er nú að hækka í svipuðum takti og verðbólgan, eða um 9,5%. Þær launahækkanir sem nú mælast skila sér því ekki í auknum kaupmætti í núverandi efnahagsumhverfi - enda eru þær ekki í samræmi við verðmætasköpun í hagkerfinu, heldur skapa þær þrýsting til hækkunar verðlags. Það sést í greiningum Seðlabankans sem og könnunum meðal stærstu fyrirtækja landsins. Launakostnaður er nú sá þáttur sem hefur helst áhrif til hækkunar verðs samkvæmt stjórnendum. Það er því deginum ljósara að áframhaldandi launahækkanir myndu stuðla að aukinni verðbólgu og enn hærra vaxtastigi.

Á hinum Norðurlöndunum hefur verðbólgan verið á undanhaldi undanfarna mánuði. Þar hafa launahækkanir einnig verið mun minni en hér á landi. Enda hefur þar náðst sameiginlegur skilningur á verkefninu fram undan, sem er að ná niður verðbólgunni, og þess ekki krafist að laun hækki í takt við verðlag. Æskilegt væri að slík samstaða næðist einnig á vinnumarkaði hér á landi. Að öðrum kosti er ekki hægt að vænta þess að verðbólgan og hið háa vaxtastig verði á förum í bráð.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Starfandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins