Efnahagsmál - 

25. Nóvember 2009

Flóknara Ísland

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Flóknara Ísland

Haustið 2006 samþykkti þáverandi ríkisstjórn aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland og í kjölfarið var skipaður samráðshópur ráðuneyta, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sem var forsætisráðherra til aðstoðar við að framfylgja henni. Aðgerðaáætluninni var markaður tímarammi frá 2006-2009 og var starfshópnum ætlað að starfa á því tímabili. Lítið hefur frést af framgangi einföldunaráætlana ráðuneytanna og samráðshópurinn hefur ekki komið saman síðan í september 2008. Á þetta bendir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, í grein á vef SA. Hann segir verkefnið um Einfaldara Ísland hafa siglt í strand og í raun hafi verið tekin upp þveröfug stefna sem nefna megi Flóknara Ísland.

Haustið 2006 samþykkti þáverandi ríkisstjórn aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland og í kjölfarið var skipaður samráðshópur ráðuneyta, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sem var forsætisráðherra til aðstoðar við að framfylgja henni. Aðgerðaáætluninni var markaður tímarammi frá 2006-2009 og var starfshópnum ætlað að starfa á því tímabili. Lítið hefur frést af framgangi einföldunaráætlana ráðuneytanna og samráðshópurinn hefur ekki komið saman síðan í september 2008. Á þetta bendir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, í grein á vef SA. Hann segir verkefnið um Einfaldara Ísland hafa siglt í strand og í raun hafi verið tekin upp þveröfug stefna sem nefna megi Flóknara Ísland.

"Í stað markmiða Einfaldara Íslands um að stuðla að einföldu og skilvirku opinberu regluverki til þess að stuðla að samkeppnishæfni í atvinnurekstri og bæta lífskjör hafa verið gerðar og eru í undirbúningi breytingar sem stuðla að flóknu, óskilvirku opinberu regluverki sem dregur úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og lífskjörum almennings. Gjaldeyrishöft og efling gjaldeyriseftirlits er stærsta stjórnvaldsaðgerðin á því sviði. Endurupptaka gamla vörugjaldakerfisins á drykkjarvörur, kex, sælgæti o.fl. á þessu ári er annað dæmi sem stuðlar að sóun og óhagkvæmni í atvinnulífinu. Þriðja dæmið eru tillögur um margþrepa tekjuskatt, viðbótarþrep í virðisaukaskatti og nýjar tegundir skattheimtu. Ekkert af þessu getur stuðlað að aukinni verðmætasköpun heldur þvert á móti felst í þessum breytingum aukin vinna í fyrirtækjunum fyrir stjórnvöld og þörf fyrir aukið eftirlit af hálfu stjórnvalda," segir Hannes m.a. í greininni.

Hann bendir á að á ráðstefnu um betra regluverk sem fór nýverið fram ( International Regulatory Reform Conference, Stokkhólmi, 11.-13. nóvember 2009)  þar sem samankomnir voru 400 þátttakendur frá 40 löndum í öllum heimsálfum, var það sjónarmið ríkjandi að efnahagskreppan hafi orðið þess valdandi að enn mikilvægara væri en áður að stuðla að einfaldara og betra regluverki, einkum fyrir fyrirtæki. Léttari reglubyrði væri ein leið út úr kreppunni.

Fjölmörg ríki í öllum heimsálfum vinna markvisst að áætlunum á þessu sviði og alþjóðasamtök og stofnanir á borð við ESB, OECD og Alþjóðabankann eru með endurbætur á regluverki hátt á forgangslistanum. Að mati OECD hefur fjármálakreppan leitt til spurnar eftir regluverki sem hindrar kreppur, en enginn vill hins vegar reglur og skrifræði sem dregur úr hagvexti. Betri reglusetning getur þannig stuðlað að efnahagsbata og þar með skapað verðmæti, fleiri fyrirtæki og störf. Því miður sker Ísland sig hins vegar úr í samanburði við önnur ríki þar sem hér er ekki til staðar opinber stefnumörkun á þessu sviði og þróunin stefnir í átt til flóknari reglna sem ekki eru til þess fallnar að skapa fyrirtækjum góð starfsskilyrði.

Verkefni við einföldun regluverks þurfa að fá ákveðinn sess í íslenska stjórnkerfinu. Aukið skrifræði mun fækka störfum, draga úr verðmætasköpun og lengja kreppuna sem Ísland gengur í gegnum.

Grein Hannesar G. Sigurðssonar má nálgast hér (PDF)

Smellið hér til að hlusta á viðtal við Hannes í morgunþætti Bylgjunnar 2. desember

Smellið hér til að hlusta á viðtal við Hannes í Reykjavík síðdegis 26. nóvember

Samtök atvinnulífsins