Flestir tilbúnir fyrir evruna

UNICE, Evrópusamtök atvinnulífsins, greindu í dag frá niðurstöðum könnunar á undirbúningi fyrirtækja fyrir gildistöku evrunnar í ársbyrjun 2002. Samkvæmt fréttatilkynningu samtakanna eru fyrirtæki almennt betur undirbúin en oft sé látið í veðri vaka. Það séu einkum smærri fyrirtæki, ekki síst í smásölu, sem muni hugsanlega upplifa einhverja erfiðleika. Helsta verkefni stjórnvalda í aðildarríkum myntbandalagsins fram að gildistöku evrunnar er að sögn UNICE að dreifa upplýsingum á markvissari hátt til þeirra sem þurfa á þeim að halda. "Þótt mikið framboð sé á upplýsingum til þeirra sem bera sig eftir þeim þá þarf að efla kynningarstarfið gagnvart þeim minnst upplýstu" segir Daniela Israelachwili, starfandi framkvæmdastjóri UNICE. Hún leggur jafnframt áherslu á mikilvægi fjölmiðla í þessu samhengi.

Sjá fréttatilkynningu UNICE.