Efnahagsmál - 

15. Oktober 2009

Fjórðungur fyrirtækja hyggst fækka starfsfólki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjórðungur fyrirtækja hyggst fækka starfsfólki

Sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA hyggjast ekki gera breytingar á starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 14% áforma fjölgun starfsmanna en 26% hyggjast fækka þeim. Af þeim sem hyggjast fjölga starfsmönnum ætla tveir þriðju að fjölga um innan við fimm starfsmenn. Þó finnst dæmi um áformaða fjölgun um yfir 50 starfsmenn. Í þeim hópi sem hyggst fækka starfsmönnum ætla 70% að fækka um innan við fimm starfsmenn en fimmtungur þeirra hyggjast fækka um meira en 10, sem geta talist hópuppsagnir. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á atvinnuhorfum meðal fyrirtækjanna.

Sex af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA hyggjast ekki gera breytingar á starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 14% áforma fjölgun starfsmanna en 26% hyggjast fækka þeim. Af þeim sem hyggjast fjölga starfsmönnum ætla tveir þriðju að fjölga um innan við fimm starfsmenn. Þó finnst dæmi um áformaða fjölgun um yfir 50 starfsmenn. Í þeim hópi sem hyggst fækka starfsmönnum ætla 70% að fækka um innan við fimm starfsmenn en fimmtungur þeirra hyggjast fækka um meira en 10,  sem geta talist hópuppsagnir. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á atvinnuhorfum meðal fyrirtækjanna.

Þróun til hins verra

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA  dagana 7.-13. október 2009 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf.  Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af horfunum framundan í íslensku atvinnulífi.

Rúmur fjórðungur fyrirtækjanna, 27%, hafa brugðið á það ráð að breyta fullum störfum í hlutastörf á árinu 2009 til þess að forðast uppsagnir. Í sambærilegri könnun í febrúar síðastliðnum sögðust 18% fyrirtækjanna hafa gert það, þannig að notkun þessa úrræðis virðist hafa farið vaxandi.  Fjórðungur, 25%, fyrirtækjanna hefur gripið til launalækkana á árinu til þess að tryggja áframhaldandi rekstur, en til samanburðar höfðu 18% gert það í könnuninni í febrúar.

Niðurstöður yfirfærðar á atvinnulífið í heild

Fyrirtækin í könnuninni endurspegla sjávarútveg, iðnað, byggingastarfsemi, veitur, verslun og samgöngur, hótel og veitingahús, fjármála- og tryggingafyrirtæki. Áætlað er að í þessum atvinnugreinum starfi um 87.000 manns um þessar mundir. Áformuð fjölgun starfsmanna hjá þeim fyrirtækjum í könnuninni sem hyggjast fjölga á næstu sex mánuðum er 1,2% af heildar starfsmannafjölda en áformuð fækkun nemur 3,5%. Nettófækkun starfsmanna verður því 2,3% af starfsmannafjölda, eða sem samsvarar 2.000 manns, í þessum atvinnugreinum á næstu sex mánuðum. Launagreiðslur sem falla brott af þeim sökum nema um 10 milljörðum króna á ársgrundvelli.

----------

Um könnunina

Könnunin var tölvupóstkönnun og var send til 1.764 fyrirtækja en fjöldi svarenda var 668, svarhlutfall var því 38%. Langflestir svarenda (83%) voru með undir 50 starfsmenn í vinnu, flestir með 5 starfsmenn eða færri (35%).

Samtök atvinnulífsins