1 MIN
Fjölsóttur fundur með VIRK
Fimmtudaginn 13. nóvember sl. fór fram vel heppnaður fundur með þeim Vigdísi Jónsdóttir, forstjóra VIRK og Guðrúnu Rakel Eiríksdóttir, sviðsstjóri forvarnarsviðs VIRK. Þær fóru yfir tæki og tól sem atvinnurekendur geta nýtt sér til að skapa umhverfi sem er til þess fallið að stuðla að vellíðan í vinnu og draga úr veikindafjarvistum með félagsmönnum SA.
Fundurinn var mjög vel sóttur og margt áhugavert kom þar fram. Á fundinum fóru þær yfir forvarnarþjónustu VIRK sem hefur verið efld verulega með það að markmiði að draga úr líkum á því að einstaklingar þurfi á starfsendurhæfingu að halda. Stjórnendur geta sótt sér fræðslu hjá VIRK um hvernig hægt sé að skapa sem heilbrigðast vinnuumhverfi og hvernig best sé að taka á einstökum málum sem kunna að koma upp í því skyni að styðja við starfsfólk og fyrirbyggja að það lendi í veikindaleyfi eða falli af vinnumarkaði.
Þá fóru þær yfir niðurstöður rannsókna og um jákvæð áhrif snemmtækrar íhlutunar og hvernig fyrirtæki geti nýtt sér viðurkenndar aðferðir í þeim efnum til að skapa sem heilbrigðast vinnuumhverfi og draga úr veikindafjarvistum.
Síðast en ekki síst kynntu þær nýjan og endurbættan forvarnarvef VIRK, Velvirk. Á vefnum er að finna mikið af fræðslu, ráðum og verkfærum sem stjórnendur í atvinnulífinu geta nýtt sér í framangreindu skyni.
Félagsmenn geta horft á fundinn á Vinnumarkaðsvef SA.