Efnahagsmál - 

30. September 2011

Fjölga þarf störfum á íslenskum vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjölga þarf störfum á íslenskum vinnumarkaði

Haustið 2008 voru um 185 þúsund manns með vinnu á íslenskum vinnumarkaði en eftir hrunið fór talan niður í um 165 þúsund. Síðan hefur fjöldi starfa verið að sveiflast milli 165 - 170 þúsund eftir árstíðum. Starfandi fólki hefur því ekki fjölgað svo heitið getur á þessum tíma. "Þetta er mjög alvarlegt en atvinnuleysistölurnar hafa verið að lækka vegna þess að fólk er að fara úr landi," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA en rætt var við hann í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni þriðjudaginn 27. september.

Haustið 2008 voru um 185 þúsund manns með vinnu á íslenskum vinnumarkaði en eftir hrunið fór talan niður í um 165 þúsund. Síðan hefur fjöldi starfa verið að sveiflast milli 165 - 170 þúsund eftir árstíðum. Starfandi fólki hefur því ekki fjölgað svo heitið getur á þessum tíma. "Þetta er mjög alvarlegt en atvinnuleysistölurnar hafa verið að lækka vegna þess að fólk er að fara úr landi," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA en rætt var við hann í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni þriðjudaginn 27. september.

Rætt var við Vilhjálm í kjölfar gagnrýni forsætisráherra á Samtök atvinnulífsins um að SA væru með svartagallsraus um stöðu atvinnulífsins og þjóðarbúsins en SA hvöttu til þess á opnum fundi í byrjun vikunnar að ýmsum hindrunum verði rutt úr vegi og ný atvinnsókn hafin til að bæta lífskjör þjóðarinnar.

Í viðtalinu benti Vilhjálmur á að ástandið þurfi ekki að vera svona slæmt, hægt sé að bregðast við með ýmsu móti til að Ísland komist út úr kreppunni fyrr en ella. Atvinnulífið gæti verið að fjárfesta en ríkisstjórnin hafi verið í ófriði við helstu útflutningsgreinarnar s.s sjávarútveg  og áliðnað sem leggi til 80% af vöruútflutningi landsmanna. Greinarnar séu í kyrrstöðu vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar.

Vilhjálmur segir góðan gang hafa verið í ferðaþjónustu og ýmsum útflutningsiðnaði en ríkisstjórnin hafi ekki nýtt sér mögulegan meðbyr með því að skapa atvinnulífinu góð rekstrarskilyrði. Þannig sé Seðlabankinn búinn að spá því að hagvöxtur á næsta ári verði aðeins 1,6% og minnki milli ára. Það sé ekki til þess að efla trú á því að hér sé uppgangur að hefjast á nýjan leik að óbreyttu en hægt sé að sækja fram á mörgum sviðum.

Vilhjálmur nefnir t.d. að í síðustu kjarasamningum hafi verið gengið út frá því að fjárfesting í atvinnulífinu færi yfir 20% af landsframleiðslu, í um 350 milljarða króna á ári, en fjárfesting er nú í sögulegu lágmarki á lýðveldistímanum. Vilhjálmur segist hafa trúað því að ríkisstjórnin hafi meint það sem hún sagði í yfirlýsingu sinni sem gefin var út í tengslum við undirritun kjarasamninganna (að greiða fyrir fjárfestingum) en staðreyndin sé sú að ársins 2011 verði minnst sem árs vonbrigða og glataðra tækifæra og hætt sé við að það sama verði upp á teningnum 2012.

"Við erum sífellt að færast nær því að vera í kreppuástandi út áratuginn, en við gætum verið að gera miklu betur og komist út úr kreppunni 2015," segir Vilhjálmur og ítrekar að þetta þurfi ekki að vera svona. Hægt sé að bregðast við með atvinnusókn, eflingu útflutnings og sköpun nýrra starfa með tilheyrandi lífskjarabata.

Rætt við framkvæmdastjóra SA í Reykjavík síðdegis - smelltu til að hlusta

Samantekt frá fundi SA um atvinnumál

Samtök atvinnulífsins