Vinnumarkaður - 

21. október 2008

Fjölbreytt menntun í boði vegna aðstæðna á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjölbreytt menntun í boði vegna aðstæðna á vinnumarkaði

Fjölmargir leggja nú hönd á plóginn vegna aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Menntastofnanir brugðust snarlega við óskum Samtaka atvinnulífsins um að opna dyr háskóla og menntastofnana fyrir fólki sem verður fyrir því að missa vinnuna. Á vef SA má nú nálgast yfirlit yfir menntun og aðstoð sem í boði er.

Fjölmargir leggja nú hönd á plóginn vegna aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Menntastofnanir brugðust snarlega við óskum Samtaka atvinnulífsins um að opna dyr háskóla og menntastofnana fyrir fólki sem verður fyrir því að missa vinnuna. Á vef SA má nú nálgast yfirlit yfir menntun og aðstoð sem í boði er.

Íslensk stjórnvöld hafa opnað upplýsingamiðstöð  fyrir almenning, fyrirtæki og fjölmiðla. Miðstöðin tekur á móti fyrirspurnum og ýmist svarar þeim eða vísar þeim til viðeigandi stofnana. Þjónustu- og upplýsinganet, sem rekið hefur verið af félags- og tryggingamálaráðuneytinu verður  einnig rekið áfram, samtengt upplýsingamiðstöðinni, á vefslóðinni: www.felagsmalaraduneyti.is/upplysingar.

Hægt er að ná sambandi við upplýsingamiðstöðina í síma 545 8950 eða í grænu símanúmeri 800 1190 milli 8 og 22 alla virka daga. Einnig er hægt að beina fyrirspurnum til miðstöðvarinnar í tölvupósti á netfangið: midstod@mfa.is.

Starfsmannafélög bankanna og Samtök fjármálafyrirtækja hafa tekið höndum saman um að bjóða fyrstu aðstoð og samið við Hagvang og Capacent um aðstoð fyrir félagsmenn innan samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Boðið er upp á ráðgjöf hvernig eigi að takast á við breyttar aðstæður og felst ráðgjöfin m.a. í því að fara yfir stöðuna með viðkomandi,  greina reynslu og hæfileika og að gera aðgerðaáætlun til framtíðar. Þá er farið yfir hagnýt atriði svo sem gerð ferilskráa og undirbúning fyrir atvinnuviðtöl. Nánari upplýsingar um ráðgjöfina er að finna á vefjum fyrirtækjanna www.capacent.is og www.hagvangur.is

Háskólinn á Bifröst verður opnaður fyrir nýjum nemendum strax í grunnnámi í fjarnámi til áramóta og hefst kennslan föstudaginn 24. október. Síðan geta þeir nemendur haldið áfram í staðnámi eða í fjarnámi í öllu námi, þ.e. viðskiptafræði, viðskiptalögfræði og HHS (heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði).

Meistaranemar verða teknir í fjórar meistaralínur um áramót, þ.e. í alþjóðaviðskiptum í staðnámi, í menningastjórnun í staðnámi, í skattarétti í fjarnámi og í stjórnun heilbrigðisþjónustu í fjarnámi.

Skólinn tekur inn nemendur í frumgreinadeild þ.e. þá sem ekki hafa stúdentspróf, í fjarnámi strax og er sú kennsla hafin. Boðið verður einnig upp á  námskeið í Mætti kvenna þar sem kenndar eru undirstöður í rekstrar- og upplýsingafræði. Nánari upplýsingar um þetta námsframboð er á heimsíðu skólans www.bifrost.is

Háskólinn í Reykjavík,  býður nám bæði í opna háskólanum og í reglulegu námi.  Þannig eru eininganámskeið m.a. í alþjóðahagfræði, fjármálum fyrirtækja vinnurétti og vinnusálfræði sem hefjast síðar í haust. Á vorönn verða keyrð fjölmörg eininga og diplómanámskeið. Boðið verður upp á dagskóla og fjarnám á frumgreinasviði. Viðskiptasmiðja sem hefur verið í undirbúningi á vegum Klaks, frumkvöðlaseturs innan skólans verður opin. Þar verður fólki sem hefur gengið með fyrirtæki í maganum í mörg ár boðið að  koma og vinna með öðru fólk í sömu erindagjörðum og fá fræðslu í mismunandi námsgreinum. Nánari upplýsingar um námsframboð er að finna á heimasíðu HR www.ru.is  m.a. á síðu Opna háskólans.

Háskóli Íslands hefur m.a. framlengt umsóknarfrest um meistaranám á vormisseri í ljósi nýrra aðstæðna.  Upplýsingar um nám við skólann er að finna á www.hi.is

Endurmenntun Háskóla Ísland eykur námsframboð sitt um áramótin. Þá hefst m.a. nám í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Einnig  rekstrar- og viðskiptanám sem og mannauðsstjórnun. Endurmenntun Háskóla Íslands er eins og ávallt einnig með mikinn fjölda styttri námskeiða. Á næstu vikum eru nokkur uppbyggjandi námskeið sem eru gagnleg og styrkjandi á erfiðum tímum í þjóðfélaginu. Sjá nánar á vef Endurmenntunar.

Háskólinn á Akureyri   hefur ákveðið í ljósi núverandi aðstæðna að heimila innritun í fleiri námsleiðir en undanfarin vormisseri. Innritað verður bæði í grunnám  og framhaldsnám í staðar- og fjarnámi. Boðið verður upp á nám í hug- og félagsvísindadeild, heilbrigðisdeild og viðskipta og raunvísindadeild. Þá er vakin sérstök athygli á námi í sjávarútvegsfræðum, en unnið er að eflingu þess náms með þátttöku Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og menntamálaráðuneytisins. Vægi sjávarútvegs mun að líkindum aukast  og því mikilvægt að búið sé vel að menntun fólks sem ætlar að starfa í þeirri atvinnugrein. Þá ætlar skólinn að leggja enn frekari áherslu á fjarnám og gera þannig fólki kleift að stunda nám í heimabyggð.

Háskólinn á Akureyri leggur einnig sitt af mörkum með því að taka þátt í undirbúningi og skipulagningu upplýsinga- og ráðgjafaþjónustu með Akureyrarbæ og munu sérfræðingar skólans leggja þeirri starfsemi lið. Sjá nánar á www.unak.is

Keilir  sem starfræktur er á Keflavíkurflugvelli  tekur sig í stakk búinn til að taka við allt að 600 nýjum nemendum um áramót, helming í fjarnám og helming í staðnám, helming í svokallaða háskólabrú sem undirbýr fólk undir háskólanám og helming í nám á háskólastigi. Keilir hefur áhuga á að þróa áfram frumkvöðlanám í frumkvöðlasetrinu Eldey. Frekari upplýsingar um Keili eru á www.keilir.net

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur sett á laggirnar verkefnið sérfræðingur til nýsköpunar þar sem meðlimir Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) geta komið sérfræðiþekkingu á framfæri við fyrirtæki og stofnanir. Samtök atvinnulífsins, Nýsköpunarmiðstöðin og SSF gerðu með sér samstarfssamning um þetta verkefni sem nýtur stuðnings iðnaðar og félagsmálaráðuneyta. Sérfræðingar munu styðja meðlimi SSF í mótun viðskiptahugmynda og veita þeim endurgjaldslausa handleiðslu varðandi stofnun fyrirtækja og stoðumhverfi nýsköpunar bæði innan lands og utan og um styrki sem í boði eru. Nánari upplýsingar á www.nmi.is

Ferðamálaskóli Íslands sem býður upp á leiðsögunám sem styðst við námsskrá menntamálaráðuneytisins um viðurkennt leiðsögunám, ætlar bjóða viðbótarnámskeið ef næg þátttaka fæst. Frekari upplýsingar um þetta nám er að finna á www.menntun.is

Þessi samantekt er ekki tæmandi en Samtök atvinnulífsins munu greina frá frekari viðbrögðum á þessum vettvangi eftir því sem fram vindur.

Samtök atvinnulífsins