Efnahagsmál - 

22. Desember 2005

Fjarvistarsönnun fyrir hvaða ábyrgðarleysi sem er

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjarvistarsönnun fyrir hvaða ábyrgðarleysi sem er

Samtök atvinnulífsins lýsa furðu sinni á ákvörðun Kjaradóms um launahækkanir til æðstu embættismanna. Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að ekkert það hafi gerst á almennum vinnumarkaði sem skapi forsendur fyrir þessari prósentuhækkun. "Við teljum að þetta sé um tvöföld hækkun á við það sem þar hefur verið að gerast."

Samtök atvinnulífsins lýsa furðu sinni á ákvörðun Kjaradóms um launahækkanir til æðstu embættismanna. Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að ekkert það hafi gerst á almennum vinnumarkaði sem skapi forsendur fyrir þessari prósentuhækkun. "Við teljum að þetta sé um tvöföld hækkun á við það sem þar hefur verið að gerast."

Með þennan dóm á bakinu á launaráðstefnu í janúar

"Okkar finnst líka ámælisvert að það er ekki haft fyrir því að setja fram nein sérstök rök fyrir þessum úrskurði. Það er eingöngu sagt að aðalástæðan fyrir þessum breytingum umfram almennar launabreytingar, séu einhverjar tilfærslur í töflum hjá kjaranefnd. Það er engin leið að átta sig á hvað er á bak við það. Í lögum er eingöngu miðað við að kjaranefnd fylgi þeirri línu sem Kjaradómur leggur." Ari segist telja algerlega nauðsynlegt fyrir Kjaradóm, ef niðurstöður hans eiga að hafa einhvern trúverðugleika, að hann geri betri grein fyrir þeim forsendum sem hann byggi svona róttæka niðurstöðu á.

"Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum misserum gagnrýnt ýmsar launaákvarðanir hjá hinu opinbera og talið þær vera ósamrýmanlegar verðstöðugleika og í hærri takti en almennur markaður hefur getað fylgt. Maður fær ekki betur séð en að þessi dómur verði ein allsherjar fjarvistarsönnun fyrir hvaða ábyrgðarleysi sem er á þeim vettvangi. Í hvaða aðstöðu eru til dæmis kjörnir fulltrúar sveitarfélaga á launaráðstefnu í janúar með þennan dóm á bakinu um 8% hækkun umfram almennar árlegar hækkanir?" segir Ari.

Algerlega ósamrýmanlegt 2½% verðbólgu

"Ég tel að grundvallarvandamálið sem við stöndum frammi fyrir í launaumræðunni, sé að menn virðast bæði hættir að hafa áhyggjur af verðbólgu og algerlega búnir að gleyma því að of miklar launabreytingar eru höfuðástæðan fyrir verðbólgu á Íslandi," segir Ari. Hann bendir á að í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans sé gerð mjög góð grein fyrir því hvaða launabreytingar eru samrýmanlegar því verðbólgumarkmiði sem ríkisstjórn og Seðlabankinn hafa sett sér. "Að öllu meðtöldu, samningsbundnum hækkunum og launaskriði á markaði, er það 3 til 4% árleg breyting. Þegar Kjaradómur er svo að ákveða tæp 14%, verður ekki framhjá því litið að það er yfirlýsing. Dómurinn ber efnahagslega ábyrgð og menn geta ekki sagt sem svo, að þeir séu eyland og að ákvarðanir þeirra skipti engu um þróun efnahagsstærða í þjóðfélaginu. Dómurinn er klárlega að taka forystu í því að marka launabreytingum hærri tón. Svona háar breytingar á einu ári myndu samrýmast 8 til 10% verðbólgu.

Mér finnst að menn verði að fara að ræða það af fullri alvöru á hvaða leið þeir eru," segir Ari ennfremur. "Ef þetta er það umhverfi sem opinberir aðilar eru almennt að fara inn í, eins og við sáum núna síðast í flötum hækkunum Reykjavíkurborgar [...] og sá tónn sem þarna er gefinn, þá verður allur almenningur að átta sig á því, að það mun fela í sér að hér verður ekki stöðugt verðlag. Þessar niðurstöður eru algjörlega ósamrýmanlegar 2½% verðbólgu. Mér finnst að dómurinn geti ekki vikið sér undan ábyrgð á því að hann er segja að hér eigi að vera 10% verðbólga en ekki 2½%," segir Ari Edwald að lokum.

Samtök atvinnulífsins