Efnahagsmál - 

02. júlí 2009

Fjármálaráðuneytið á villigötum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjármálaráðuneytið á villigötum

Hugmyndir fjármálaráðuneytisins um að leggja á sérstakan kolefnisskatt eru vanhugsaðar og munu hafa lítil sem engin áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum fyrirtækjum. Skattheimta sem þessi verður aðeins til þess draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs auk þess að minnka líkur á að erlend fjárfesting verði hér að veruleika á næstu misserum. Verði skatturinn lagður á getur orkukostnaður útgerðarfyrirtækja hækkað um allt að þriðjung og útsöluverð á bensíni hækkað um 23 krónur hver lítri og dísellítrinn um 25 krónur.

Hugmyndir fjármálaráðuneytisins um að leggja á sérstakan kolefnisskatt eru vanhugsaðar og munu hafa lítil sem engin áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum fyrirtækjum. Skattheimta sem þessi verður aðeins til þess draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs auk þess að minnka líkur á að erlend fjárfesting verði hér að veruleika á næstu misserum. Verði skatturinn lagður á getur orkukostnaður útgerðarfyrirtækja hækkað um allt að þriðjung og útsöluverð á bensíni hækkað um 23 krónur hver lítri og dísellítrinn um 25 krónur.

Í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009-2013 sem lögð hefur verið fyrir Alþingi segir svo á bls 30:

"Kolefnisgjald

Í athugun hefur verið með hvaða hætti mætti leggja gjald á alla vöru og hráefnisnotkun sem veldur kolefnislosun. Er þar um að ræða kol, koks, bensín, þotueldsneyti, gasolíu og rafskaut. Samtals er talið að losun kolefnis við notkun þessara efna hér á landi nemi um 1 milljón tonna á ári. Verð á losunarheimildum innan ESB er nú um 14 evrur á tonn af koldíoxíði sem svarar til um 46 evra á tonn af kolefni. Kolefnisgjald sem svarar til þessa  verðs yrði um 7.700 kr. á tonn af kolefni. Tekjur af slíku gjaldi myndu nema um 7,7 ma.kr. á ári. Ef af verður er hugsanlegt að byrja lægra t.d. með 2.500 kr. á tonn í þremur  áföngum og má þá ætla að tekjur gætu orðið um 2,5 ma.kr. á ári og alls um 7,5 ma.kr. þar sem einhver hluti af sölu gasolíu og þotueldsneytis er til erlendra skipa og flugvéla sem ætla má að eðlilegt þætti að undanskilja.

Þar sem kolefnisgjald myndi leggjast á rafskaut álverksmiðja kynni það að hafa áhrif á þá sem hug hafa á slíkri starfsemi hér á landi. Í því efni er í fyrsta lagi að athuga að einungis er gert ráð fyrir slíku gjaldi á meðan ekki er greitt fyrir losunarheimildir og fjárhæð gjaldsins er miðuð við það þannig að ekki er um íþyngingu að ræða umfram það að borga fyrir losunarheimildir. Í öðru lagi ber að líta til þess að erlend stóriðja býr við miklar skattalegar ívilnanir samanborið við önnur lönd og aðra starfsemi og að takmarkaður hluti virðisauka af henni situr eftir í landinu og má hann að skaðlausu aukast."

Um þetta er rétt að hafa nokkur orð.

Í fyrsta lagi er fjallað um verð á losunarheimildum koldíoxíðs (CO2) í viðskiptakerfi ESB með útstreymisheimildir, það sagt vera um 14 evrur á tonnið og geta verið grunnur að kolefnisskatti hér á landi. Viðskiptakerfi ESB byggir á því að úthluta tilteknum útstreymisheimildum til stórra fyrirtækja og hvetur til að þess að draga úr útstreymi þar sem verðmæti skapast ef útstreymið verður minna en sem úthlutun nemur. Á sama hátt verða fyrirtæki að kaupa viðbótarheimildir ef útstreymið er meira en þau fá úthlutað. Úthlutunin byggir aðallega á sögulegum forsendum auk þess sem smám saman er ætlunin að þrengja að úthlutuninni.

Á árunum 2005-2007 og 2008-12 er úthlutunin án endurgjalds og það markaðsverð sem myndast hefur er þannig jaðarverð á þeim heimildum sem ákveðin fyrirtæki geta selt og önnur þurfa að kaupa. Hvergi er um það að ræða að hér sé um að ræða einhvers konar skatt sem rennur til ríkisins og fráleitt að hér verði tekinn upp einhvers konar skattur sem byggir á breytilegu jaðarverði útstreymisheimilda í Evrópu (sem er að auki háður gengi íslensku krónunnar gagnvart evru).

Í öðru lagi er rætt um að skatturinn eigi að leggjast á rafskaut orkufreks iðnaðar til að bæta fyrir það "að erlend stóriðja býr við miklar skattalegar ívilnanir" án þess að útskýrt sé í hverju þær felast. Til þess er að líta að frá árinu 2013 eru fyrirhugaðar miklar breytingar á viðskiptakerfi ESB með útstreymisheimildir. Frá því ári verða (nánast) allar útstreymisheimildir til orkuframleiðslu þ.e. kola-, olíu- og gasorkuvera seldar á uppboði. Þau fyrirtæki sem aðallega selja á markaði innan Evrópu munu fá 80% heimilda sinna án endurgjalds en það hlutfall mun síðan lækka jafnt og þétt þannig að frá árinu 2027 verða þessi fyrirtæki einnig að kaupa allar sínar heimildir á uppboði.

Þriðji flokkur fyrirtækja mun síðan fá allar heimildir án endurgjalds upp að ákveðnum viðmiðum sem byggir á frammistöðu þeirra sem standa sig best. Í þessum flokki er fyrst og fremst orkufrekur iðnaður sem er í alþjóðlegri samkeppni og hætta er á að framleiðslan flytjist um set þangað sem kröfur eru minni. Almennt er talið að ál- og járnblendiframleiðsla muni falla í þennan flokk. Með þessu reynir ESB að hvetja til úrbóta í umhverfismálum og að gæta að samkeppnishæfni atvinnulífsins gagnvart öðrum hagkerfum.

Að leggja skatt á hráefnisnotkun í orkufrekum iðnaði eins og fjármálaráðuneytið hefur sett fram hugmyndir um þekkist ekki í helstu samkeppnislöndum og yrði einungis til að setja í uppnám þau áform sem kunna að vera uppi um frekari fjárfestingar á þessu sviði hér á landi. Það er að sjálfsögðu í fullkominni andstöðu við nýgerðan stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um að greiða götu stórfjárfestinga til að fjölga störfum í atvinnulífinu. Viðbúið er að hugmyndir fjármálaráðuneytisins muni hafa áhrif á fjárfesta þegar kemur að því að taka ákvörðun um hvort þeir muni fjárfesta hér á landi eða ekki.

Í þriðja lagi yrði þetta til að samkeppnisstaða annarra útflutningsgreina myndi versna. Þannig getur gjaldið sem fjármálaráðuneytið fjallar um hækkað orkukostnað útgerðarinnar um 27-30%. Fjármálaráðuneytið telur eðlilegt að erlend skip og erlendar flugvélar verði undanþegnar gjaldinu en að sjálfsögðu verður það til þess að hér á landi verða hvorki skráð skip né flugvélar.

Í fjórða lagi myndi almennt útsöluverð eldsneytis hækka um það bil 23 kr. hver lítri bensíns og díseleldsneytis um 25 kr. Hækkunin gæti orðið um 13 -14% ef ekki er reiknað með að önnur gjöld lækki á móti.

Samtök atvinnulífsins leggjast ekki gegn umhverfissköttum eða gjöldum sem hafa að markmiði að draga úr mengun. Mikilvægt er þó að hafa í huga að slíkir skattar og gjöld skekki ekki samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins og leggi ekki byrðar á íslensk fyrirtæki sem samkeppnisaðilar þeirra þurfa ekki að búa við.

Þá er mikilvægt  að  greiðendur umhverfisskatta  hafi möguleika á því að minnka skattgreiðslur sínar með því að ná betri árangri í rekstri  með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Að öðrum kosti er skattheimta sem þessi óréttmæt. Hugmyndir fjármálaráðuneytisins munu hafa lítil sem engin áhrif til að draga úr þessari losun og eru einungis til þess fallnar að fæla frá erlenda fjárfesta og skekkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Rétt er hins vegar að minnast á að nýverið kynnti umhverfisráðherra skýrslu um möguleika til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Í skýrslunni er farið kerfisbundið yfir þá möguleika sem til staðar eru og kostnaður við aðgerðir greindur.

Mikilvægt er að stjórnvöld hafi náið samráð við atvinnulífið í landinu um aðgerðir til að draga úr útstreymi. Einungis með nánu samstarfi um fjölþættar aðgerðir sem taka til margra sviða er unnt að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um að minnka almennt útstreymi hér á landi um 15% frá árinu 1990 til 2020. Vanhugsaðar hugmyndir fjármálaráðuneytisins eiga lítið erindi í þá umræðu.

Samtök atvinnulífsins