Fjármálaráðherra: Ísland verði nánast skuldlaust land

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vill að Ísland stefni að því að verða því sem næst skuldlaust land. Hann segir að íslenska ríkið lækki nú skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu hraðar en nokkurt annað ríki, vegna þess að landsframleiðsla sé að vaxa og skuldasöfnun hafi verið stöðvuð. Fjármálaráðherra segir að eina svigrúmið til að auka útgjöld ríkisins sé með því að greiða niður skuldir og minnka þar með vaxtagjöld ríkisins sem er áætlað að verði 74 milljarðar á næsta ári.

Tímamót í opinberum fjármálum
Bjarni Benediktsson segir að frumvarp um opinber fjármál sem stefnt er að lögfesta fyrir áramót marki tímamót, en unnið hefur verið að því frá 2011. „Undir lok þess máls fannst mér að það vantaði skuldareglu inn í málið og við smíðuðum hana á lokametrunum í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og erum þar með að lögfesta í fyrsta sinn reglu um það hvernig eigi að taka á skuldum ríkisins. Við erum að setja okkur metnaðarfyllri markmið heldur en flestir aðrir hafa um skuldahlutföllin.“ Bjarni segir að frumvarpið nái líka til sveitarstjórna og það sé lykilfrumvarp til að fjármál ríkis og sveitarfélaga styðji við stöðugleika í landinu. Sjónum sé beint í auknum mæli að stóru myndinni og langtímaáætlunum.

„Við erum að taka risastórt skref inn í framtíðina með þessu frumvarpi,“ segir Bjarni og segir þá sem hafa ráðlagt ríkisstjórninni, t.d. AGS, telja að verði málið klárað taki Íslendingar skref fram fyrir alla aðra í þessum efnum  með lagaumgjörð sem er nútímalegri og fullkomnari en annars staðar. Fjárlaganefnd hefur afgreitt frumvarpið til annarrar umræðu sem er framundan á Alþingi.

Eignir seldar
Bjarni væri til í að lækka skuldir hraðar en gert hefur verið til þessa en bendir á að á næstu árum komist Íslendingar í mjög heilbrigða stöðu miðað við þær áætlanir sem eru uppi, m.a. með sölu eigna.

Formaður Samtaka atvinnulífsins hefur bent á að hægt sé að lækka vaxtagjöld ríkisins um þriðjung með sölu valinna eigna. Ríkissjóður yrði þá vel búinn til þess að takast á við nauðsynlega fjárfestingu í innviðum á næstu árum þegar aðstæður leyfa, en víða hefur myndast mikil þörf til úrbóta, til dæmis í nýjum Landspítala, menntun og samgöngukerfinu.

Hvaða eignir á að selja spyr fjármálaráðherra?

„Í mínum huga er það alveg augljóst að það eru bankar sem við eigum að selja, við eigum að losa um eignarhlut ríkisins í bönkunum og greiða niður skuldir. Það eru einfaldlega svo stórar tölur undir hér – við erum með um 25% af landsframleiðslu í fjármálalegum eignum endi þetta með því að Íslandsbanki komi til ríkisins sem er fimm sinnum meira en þar sem ég þekki til annars staðar.“

Bjarni segir lykilatriði að leggja upp með hallalaus fjárlög að jafnaði. „Það er hluti af þessum fjármálareglum. Við eigum að vera með viðskiptajöfnuð við útlönd jákvæðan að jafnaði og við eigum að stefna að því að verða því sem næst skuldlaust land. Vera bara með algjörar lágmarksskuldir og þetta er raunhæft að gera.“

Þetta er meðal þess sem kom fram á opnum umræðufundi Samtaka atvinnulífsins með stjórnmálaflokkunum um fjármál ríkisins 18. nóvember í Hörpu.

Hægt er að horfa á allan fundinn hér eða umræðuna um forgangsröðun fjármuna ríkisins hér að neðan.

undefined

Á fundinum var lögð fram greining efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins á fjármálum ríkisins.