Efnahagsmál - 

06. maí 2004

Fjármagnsmarkaðurinn er samkeppnisstofnun hins frjálsa markaðar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjármagnsmarkaðurinn er samkeppnisstofnun hins frjálsa markaðar

Fjármagnsmarkaðurinn agar hinn frjálsa markað og er þannig samkeppnisstofnun hins frjálsa markaðar. Þannig munu greinar, þar sem hagnaður er mikill, draga til sín fjármagn og samkeppni, nema hagnaðurinn sé mikill vegna óvenju lágs kostnaðar, sem aðrir geta ekki keppt við. Ef hagnaðurinn er vegna of hás verðs kemur samkeppnin fljótlega. Þetta kemur fram í athyglisverðri ritgerð frá árinu 1962 eftir Alan Greenspan, núverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, sem vitnað er til í nýrri skýrslu GJ fjármálaráðgjafar um viðhorf í samkeppnismálum. Skýrslan er unnin að beiðni Samtaka atvinnulífsins og er henni ætlað að varpa ljósi á ýmis sjónarmið sem uppi eru á meðal fræðimanna um samkeppnislög, einkum hagfræðileg sjónarmið.

Fjármagnsmarkaðurinn agar hinn frjálsa markað og er þannig samkeppnisstofnun hins frjálsa markaðar. Þannig munu greinar, þar sem hagnaður er mikill, draga til sín fjármagn og samkeppni, nema hagnaðurinn sé mikill vegna óvenju lágs kostnaðar, sem aðrir geta ekki keppt við. Ef hagnaðurinn er vegna of hás verðs kemur samkeppnin fljótlega. Þetta kemur fram í athyglisverðri ritgerð frá árinu 1962 eftir Alan Greenspan, núverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, sem vitnað er til í nýrri skýrslu GJ fjármálaráðgjafar um viðhorf í samkeppnismálum. Skýrslan er unnin að beiðni Samtaka atvinnulífsins og er henni ætlað að varpa ljósi á ýmis sjónarmið sem uppi eru á meðal fræðimanna um samkeppnislög, einkum hagfræðileg sjónarmið.

Að mati skýrsluhöfundar eru samkeppnislög byggð á misskilningi á bæði markaðnum og ríkisvaldinu. Þau byggist á einfölduðum kenningum um markaðinn, sem hafi litla stoð í raunveruleikanum, og á óskeikulleika ríkisins.

Samkeppnislög vinna gegn hagnaðarvoninni

Hvað markaðinn varðar þá er jafnframt vitnað til Alans Greenspan með það að samkeppnin sé ferli en ekki kyrrstaða. Bent er á að hagnaðarvonin er vélin sem knýr efnahagslífið. Aðilar á markaði eru sífellt að reyna að skapa sér dálitla sérstöðu sem skapi grundvöll fyrir hagnaði. Möguleikinn á einokunarstöðu í örlítinn tíma (þangað til einhver annar kemur inn á markaðinn með sambærilega vöru) er það sem hvetur viðskiptalífið til dáða.

Skýrsluhöfundur gerir raunar þá athugasemd við einokunarhugtakið að oft væri réttara að tala um "einsölu" en "einokun". Einokunarhugtakið gefi í skyn að um okun eða kúgun sé að ræða, en þannig sé það eingöngu ef viðkomandi hafi einkarétt á sölunni. Það sé því eingöngu ríkið sem geti valdið einokun. Mikilvægast er, segir í skýrslunni, að ef einhver sé ekki tilbúinn til að bjóða lágt verð, þá hafi aðrir aðilar á markaði lagaheimild til að fara í samkeppni við hann og bjóða lægra verð.

"Markaðsbrestir" og "ríkisbrestir"

Þá megi ekki gleyma því að jafnvel þótt komist sé að þeirri niðurstöðu að gallar séu á hinum frjálsa markaði þá sé ekki sjálfgefið að ríkið eigi að skipta sér af. Ekki megi gleyma sér svo við að einblína á "markaðsbrestina" að menn gleymi "ríkisbrestunum". Opinberir starfsmenn, starfsmenn samkeppnisstofnana og dómstóla, hafi ekki næga þekkingu til að meta þau flóknu mál sem upp komi á markaði. Þeir geti jafnvel haft hvata til þess að fara ranglega að, þ.e. til að vernda störf sín og eltast við hagsmuni áhrifamikilla þrýstihópa.

Sterk rök fyrir afnámi samkeppnislaga

Skýrsluhöfundur telur því afar rök sterk rök hníga að afnámi samkeppnislaga, sem byggi á misskilningi á bæði markaðnum og ríkisvaldinu. Þau hafi reyndar þann kost einan að veita fordómum gagnvart stórfyrirtækjum og frjálsum markaði útrás. Þau deyfi þannig tilheigingu margra til að auka afskipti ríkisins af atvinnulífinu. Hann bendir hins vegar á að þótt samkeppnislög verði ekki afnumin megi a.m.k. bæta framkvæmdina. Þannig sé mikilvægt fjallað sé um samkeppnismál með hagfræðilegum rökum. Þá megi að einhverju leyti horfa til mælikvarða á samkeppni frá öðrum löndum en hér séu viðmið um samruna t.d. agnarsmá í erlendum samanburði. Loks verði trúlega að teljast nægilegt að hérlendis séu tveir aðilar á markaði þótt annar sé einungis með 10-20% markaðshlutdeild, enda séu svo til allir markaðir sem til eru á Íslandi einnig til erlendis, og þá miklu stærri.

Skýrsla GJ fjármálaráðgjafar

Skýrsla GJ fjármálarágjafar er sem fyrr segir unnin að beiðni Samtaka atvinnulífsins og er henni ætlað að varpa ljósi á ýmis sjónarmið sem uppi eru á meðal fræðimanna um samkeppnislög, einkum hagfræðileg sjónarmið. Skoðanir sem fram koma í skýrslunni þurfa ekki endilega að fara saman við skoðanir Samtaka atvinnulífsins.

Skýrsluna má nálgast hér (pdf-skjal).

Samtök atvinnulífsins