Efnahagsmál - 

11. desember 2015

Fjárlög 2016: Yfirboð á Alþingi

Skoðun

Skoðun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjárlög 2016: Yfirboð á Alþingi

Hart hefur verið deilt undanfarna daga á fjárlög komandi árs og hafa ýmiss stóryrði fallið. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa þar tekið af skarið með sameiginlegri breytingartillögu sem að þeirra sögn mun nýta á sanngjarnari hátt bætta afkomu ríkissjóðs. Margt má þar eflaust til sanns vegar færa og efnahagssvið SA fagnar allri umræðu um bætta forgangsröðun ríkisútgjalda. Verra er þó að tillögurnar ganga ekki út á forgangsröðun nema að takmörkuðu leyti og er meginstef þeirra aukin útgjöld og hærri skattar.

Hart hefur verið deilt undanfarna daga á fjárlög komandi árs og hafa ýmiss stóryrði fallið. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa þar tekið af skarið með sameiginlegri breytingartillögu sem að þeirra sögn mun nýta á sanngjarnari hátt bætta afkomu ríkissjóðs. Margt má þar eflaust til sanns vegar færa og efnahagssvið SA fagnar allri umræðu um bætta forgangsröðun ríkisútgjalda. Verra er þó að tillögurnar ganga ekki út á forgangsröðun nema að takmörkuðu leyti og er meginstef þeirra aukin útgjöld og hærri skattar.

Fátt kemur þó á óvart og er áhyggjuefni að breytingartillögur við meðferð fjárlaga ganga nánast án undantekninga út á aukin útgjöld til vissra málaflokka án þess að hreyft sé við í öðrum. Tillögurnar snúa þar af leiðandi ekki að því að setja viss mál í forgang og draga saman á öðrum sviðum til mótvægis heldur snúa þær að því að nota takmarkaðan afgang ríkissjóðs í aukin útgjöld. Hrökkvi afgangurinn skammt er lagt til að skattgreiðendur borgi meira.

Ríkisútgjöld hafa aukist verulega
Vandamálið er ekki einungis bundið við stjórnarandstöðu. Frá árinu 2012 hafa útgjöld ríkissjóðs, að frádregnum fjármagnskostnaði (frumútgjöld) og öðrum óreglulegum útgjaldaliðum sem ekki eru valkvæðir fyrir fjárveitingarvaldið, vaxið hratt. Aukin umsvif í þjóðfélaginu hafa skilað ríkissjóði miklum tekjum, ekki síst vegna þeirra skattahækkana sem ráðist var í árin eftir hrun. Í stað þess að nýta þessar tekjur til þess að greiða inn á skuldir ríkissjóðs eða draga til baka skattahækkanir síðustu ára hefur þeim að mestu verið varið í útgjaldaauka til hinna ýmsu málaflokka. Mörg þau verkefni voru eflaust brýn og fjársvelt eftir mögru árin sem á undan fóru, en þeim sem lesið hefur fjárlög getur varla komið til hugar að ekki hafi verið hægt að draga úr útgjöldum annars staðar á móti. Ekki er forgangsraðað milli verkefna, heldur eru aukin útgjöld almennt sett í forgang á kostnað ráðstöfunartekna almennings.
undefined

Gamalkunnugt mynstur
Tillögur að útgjaldaauka þegar fjárlög eru í meðförum þingsins eru sem fyrr segir regla fremur en undantekning og koma þær á hverjum tíma frá bæði stjórn og stjórnarandstöðu. Við það bætist að fjárlögum er aldrei fylgt eða í það minnsta ekki síðastliðin 20 ár sem efnahagssvið hefur haft til skoðunar. Alltaf er eytt umfram útgjaldaheimildir, sem þó eru auknar í meðförum þingsins. Meðalaukning ríkisútgjalda frá tillögum fjárlagafrumvarps til endanlegs ríkisreiknings var 10% árin 1995-2014. Séu menn sammála um að slík útgjaldaaukning sé vandamál þá er rannsóknarefni hví þingmenn leggi frekar til aukin útgjöld í stað forgangsröðunar eða hagræðingar. Líkleg skýring er hversu auðveld pólitík það er að vera rausnarlegur á annarra manna fé.

undefined

Skuldastaðan er enn alvarleg
Þrátt fyrir að margt hafi áunnist í ríkisfjármálum á síðustu árum er enn langt í land að þau geti talist sjálfbær til lengri tíma. Skuldasöfnun ríkissjóðs vegna rekstrarhalla árin eftir hrun hefur öðru fremur valdið því að skuldir ríkissjóðs eru miklar í hlutfalli af landsframleiðslu og þó áform um niðurgreiðslu þeirra á næsta ári séu fagnaðarefni þá er þörf á meiru. Mikil mildi var að skuldir höfðu verið greiddar niður fyrir hrun þar sem það gerði ríkissjóð í stakk búinn til þess að mæta þeim kostnaði sem til féll. Annað væri upp á teningnum yrðum við fyrir áfalli í dag og yrði það í besta falli óstjórn af gáleysi ef við sigldum gegnum þetta hagvaxtarskeið án þess að greiða markvisst niður skuldir.
undefined

Hækkun skatthlutfalla verður tilfinnanleg í uppsveiflu

Hallalausum fjárlögum var að mestu leyti náð með hækkun skatta en brugðist var við lægri tekjum ríkissjóðs í efnahagsniðursveiflunni með hækkun skattprósenta á flest alla skattskylda aðila. Eins og myndin hér að framan sýnir eru leiðrétt útgjöld ríkissjóðs nú á svipuðum slóðum og þau voru á bóluárinu 2007 og má því segja að sá litli niðurskurður sem ráðist var í hafi gengið tilbaka. Skattahækkanirnar standa að mestu óhreyfðar og nú þegar umsvifin aukast í hagkerfinu skila þær meiri og meiri tekjum til ríkissjóðs. Jafnvel þó svo að mestar hafi skattahækkanirnar verið á fyrirtæki þá liggur það í hlutarins eðli að skattarnir greiðast af almenningi. Ómögulegt er að skattleggja borð og stóla, en skattbyrðin dreifist á viðskiptavini, eigendur og launþega fyrirtækjanna.
undefined

Verum ábyrg
Fjárlagfrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2016 felur í sér útgjaldaauka frá fyrra ári. Enn var bætt í útgjöldin í meðförum fjárlaganefndar Alþingis fyrir 2. umræðu frumvarpsins og verði haldið í hefðir munu þau aukast fyrir þinglok og samþykkt frumvarpsins. Stjórnarandstaðan sem fékk ekki samþykkta breytingartillögu sína um verulegan útgjaldaauka til viðbótar hefur farið mikinn yfir mannvonsku þeirra þingmanna sem kusu gegn tillögunni. Þeir hafi haft pening af þeim sem minnst mega sín, öryrkjum og öldruðum.

Öll viljum við gera vel við þá sem ekki geta unnið sökum örorku og ekki síður við fólkið sem kom okkur í heiminn. Umræðan snýst ekki um það. Við verðum að hafa efni á okkar góðu verkum. Tillögur stjórnarandstöðunnar gera ráð fyrir 16 ma.kr. útgjaldaauka á næsta ári og 17 ma.kr. auknum tekjum. 12 af þeim 17 milljörðum er þó varla hægt að tala um sem tekjuauka þar sem að þeir eiga að koma úr auknum arðgreiðslum bankanna og auknu skattaeftirliti. Arðgreiðslur bankanna eru ákveðnar af Bankasýslu ríkisins, auk þess sem ógreiddur arður er í raun eign ríkissjóðs og ætti frekar að nýta í niðurgreiðslu skulda. Í ljósi þess að miklum fjármunum hefur verið veitt í skattaeftirlit undanfarin ár er ólíklegt að þar liggi ósóttir fjársjóðir.

Gera þarf betur. Sé það einlægur vilji þingmanna að auka greiðslur til aldraðra og öryrkja þarf að leggja fram ábyrgar tillögur um breytta forgangsröðun. Minnka þarf útgjöld á einum stað til að auka þau á öðrum en útgjaldavöxturinn er nú þegar úr öllu samræmi við undirliggjandi stöðu ríkissjóðs. Uppsveiflur eru aldrei eilífar og nú þegar tekjur ríkissjóðs vaxa eins og raun ber vitni er nauðsynlegt að búa í haginn. Fjármálastefnu ríkissjóðs verður að haga þannig á komandi árum að næst þegar illa árar verði útgjöldin ekki í hæstu hæðum, skattprósentur við þolmörk og skuldastaðan sligandi.

Samtök atvinnulífsins