Efnahagsmál - 

07. október 2004

Fjárlagafrumvarp og stöðugleiki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjárlagafrumvarp og stöðugleiki

Áformuð ríkisútgjöld í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 eru 295 milljarðar króna og aukast um 21,5 milljarð króna frá fjárlagafrumvarpi 2004, eða tæplega 8%. Samanburður við síðasta fjárlagafrumvarp gefur að ýmsu leyti raunhæfari mynd af taktinum í útgjaldaþróun ríkisins en sá háttur sem tíðkast að bera frumvarpið við fjárlög ársins og áætlaða útkomu. Í stærstu ráðuneytunum er aukningin í krónum talið mest í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, tæpir 9 milljarðar, sem er 8% aukning, þar á eftir 3,7 milljarðar í menntamála-ráðuneytinu, sem er 11% aukning, og síðan 3,2 milljarðar í félagsmálaráðuneytinu, sem er 14% aukning. Undanfarin ár hafa ríkisútgjöldin þanist mikið út, ekki síst vegna gjaldaþenslu í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Fyrir fimm árum, í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001, áttu útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að verða 79 milljarðar króna. Á næsta ári er gert ráð fyrir 119 milljörðum króna. Aukningin nemur 40 milljörðum á þessum fimm árum eða sem nemur rúmum 50%. Í ljósi þess er það þversagnakennt að sífellt sé rætt um niðurskurð í þessu ráðuneyti.

Áformuð ríkisútgjöld í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 eru 295 milljarðar króna og aukast um 21,5 milljarð króna frá fjárlagafrumvarpi 2004, eða tæplega 8%. Samanburður við síðasta fjárlagafrumvarp gefur að ýmsu leyti raunhæfari mynd af taktinum í útgjaldaþróun ríkisins en sá háttur sem tíðkast að bera frumvarpið við fjárlög ársins og áætlaða útkomu. Í stærstu ráðuneytunum er aukningin í krónum talið mest í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, tæpir 9 milljarðar, sem er 8% aukning, þar á eftir 3,7 milljarðar í menntamála-ráðuneytinu, sem er 11% aukning, og síðan 3,2 milljarðar í félagsmálaráðuneytinu, sem er 14% aukning. Undanfarin ár hafa ríkisútgjöldin þanist mikið út, ekki síst vegna gjaldaþenslu í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Fyrir fimm árum, í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001, áttu útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að verða 79 milljarðar króna. Á næsta ári er gert ráð fyrir 119 milljörðum króna. Aukningin nemur 40 milljörðum á þessum fimm árum eða sem nemur rúmum 50%. Í ljósi þess er það þversagnakennt að sífellt sé rætt um niðurskurð í þessu ráðuneyti.

3,5% raunvöxtur ríkisútgjalda

Menn greinir á um það hversu aðhaldssamt frumvarpið er gagnvart yfirstandandi og vaxandi þenslu í þjóðar-búskapnum. Þótt vissulega megi greina merki aðhaldssemi í frumvarpinu, t.d. í niðurskurði fjárfestinga um 1,5 milljarð króna frá áætlun þessa árs, þá markast frumvarpið í heild ekki af miklu átaki til að veita mótvægi gegn hinni kröftugu uppsveiflu sem er framundan. Aukning gjalda um 8% er sama hlutfall og aukningin var í síðasta fjárlagafrumvarpi, þannig að á þann mælikvarða er ekki verið að draga úr aukningu til að mæta aukinni þenslu í einkageiranum. Verðlag samneyslu er talið hækka um 4,25% þannig að raunvöxtur ríkisútgjaldanna er 3,5% skv. fjárlagafrumvarpinu. Það verður tæpast heldur talið merki um strangt aðhald. Þá er tekjuafgangur frumvarpsins áætlaður 11 milljarðar króna. Í ljósi hins gríðarlega viðskiptahalla sem spáð er á næsta ári er sá afgangur ekki mikið undrunarefni. Þessir 11 milljarðar blikna raunar í samanburði við fjárlagafrumvarpið fyrir tveimur árum síðan, fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2003. Þá var frumvarpið einnig lagt fram með 11 milljarða króna afgangi en þá var á hinn bóginn eingungis gert ráð fyrir 1,5% hagvexti árið 2003. Frumvarpið fyrir árið 2003 var þannig mun aðhaldssamar en fyrir 2005.

Sporna þarf gegn ofþenslu

Næstu árin er verkefni hagstjórnar að sporna gegn ofþensluáhrifum virkjunar- og stóriðjuframkvæmda. Það er ástæða til að óttast að aðhald ríkisfjármála verði ekki nægjanlegt til að koma í veg fyrir óæskilega þenslu í efnahagslífinu. Í ljósi þess að alþjóðlegt vaxtastig hefur rutt sér til rúms hér á landi, líkt og birst hefur í stórauknum útlánum bankanna til einstaklinga með veði í íbúðarhúsnæði og vaxtalækkunum Íbúðalánasjóðs, er ljóst að áhrif Seðlabankans á vaxtastig og þar með á heildareftirspurn eru minni en áður. Takmarkað aðhald ríkisfjármála og tiltölulega lítil áhrif Seðlabankans vekja þess vegna ugg um að þensla næstu missera brjótist fram í skaðlegu launaskriði og verðbólgu.

Greiður aðgangur erlends starfsfólks

Það er afar brýnt að opinber fjármál verði aðhaldssöm á næstu árum. Einkum verða opinberar framkvæmdir að vera í lágmarki því annars kynda opinberir aðilar undir þenslu, valda launaskriði og verðbólgu. Þá er óhjákvæmilegt að Seðlabanki stuðli að aðhaldi til að halda aftur af fjárfestingum og einkaneyslu. En þar fyrir utan eru tveir mikilvægir þættir sem geta stuðlað að efnahagslegum stöðugleika á næstu árum á meðan verið er að fara í gegnum framkvæmdakúfinn vegna stóriðjuframkvæmdanna. Sá fyrri er greiður aðgangur erlends starfsfólks að vinnumarkaðnum og hindrunarlaus útgáfa atvinnuleyfa til framkvæmdaaðila. Þessi þáttur skiptir sköpum um það hvort vinnumarkaðurinn haldist í jafnvægi. Mikilvægasta aðgerðin gegn ofþenslu á vinnumarkaðnum er lipur og snurðulaus útgáfa atvinnuleyfa. Það á ekki að láta skrifræðislega ferla tefja útgáfu leyfanna þegar öllum er ljós fyrirliggjandi vinnuaflsskortur í byggingariðnaði. Hinn þátturinn er framleiðniaukningin í þjóðarbúinu sem birtist í því að hagvöxtur er í kringum 5% en störfum fjölgar ekki. Hinni kröftugu framleiðniaukningu sem verið hefur í atvinnulífinu undanfarin misseri má líkja við himnasendingu sem stuðlar að því að atvinnulífið geti borið þær launakostnaðarhækkanir sem um hefur samist í kjarasamningum án þess að þær finni sér farveg í verðlagshækkunum.

Hannes G. Sigurðsson

Samtök atvinnulífsins