Efnahagsmál - 

20. janúar 2010

Fjárfestingar stefna í sögulegt lágmark

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjárfestingar stefna í sögulegt lágmark

Mikill samdráttur í fjárfestingum atvinnuveganna á síðasta ári og takmörkuð áform um fjárfestingar á árinu 2010 valda því að ástæða er til þess að hafa áhyggjur af þróuninni í atvinnumálum. Óvissa um framtíðina, háir vextir, gjaldeyrishöft, skattahækkanir og minnkandi kaupgeta stuðla almennt að slæmu andrúmslofti fyrir fjárfestingar. Ef dráttur verður á áformum um fjárfestingar í virkjunum og orkufrekum iðnaði á þessu ári eru líkur á því að fjárfestingar atvinnuveganna verði minni í hlutfalli við landsframleiðslu en þær hafa verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Mikill samdráttur í fjárfestingum atvinnuveganna á síðasta ári og takmörkuð áform um fjárfestingar á árinu 2010 valda því að ástæða er til þess að hafa áhyggjur af þróuninni í atvinnumálum. Óvissa um framtíðina, háir vextir, gjaldeyrishöft, skattahækkanir og minnkandi kaupgeta stuðla almennt að slæmu andrúmslofti fyrir fjárfestingar. Ef dráttur verður á áformum um fjárfestingar í virkjunum og orkufrekum iðnaði á þessu ári eru líkur á því að fjárfestingar atvinnuveganna verði minni í hlutfalli við landsframleiðslu en þær hafa verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Fjárfestingar atvinnuveganna námu 9% af landsframleiðslu á síðasta ári en þær hafa numið 13% síðustu tvo til þrjá áratugina. Svo lágt fjárfestingahlutfall hefur ekki sést nema á samdráttarárum á borð við árið 2002 og 1993-1995.

Fjárfesting atvinnuveganna í hlutfalli við verga landsframleiðslu


Fjárfestingar atvinnuveganna skapa störf og stuðla að skilvirkni og framþróun í atvinnulífinu. Ljóst er að mikil óvissa einkennir íslenskt atvinnulíf um þessar mundir og að við slíkar aðstæður er erfitt að taka ákvarðanir um fjárfestingar. Fjármögnun framkvæmda er auk þess mjög erfið og dýr. Hætta er á að fyrirhuguð verkefni muni tefjast en af hálfu SA hefur verið lögð áhersla á að ráðist verði í nægilegar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi til að þjóðin komist út úr kreppunni á þessu ári, hagvöxtur náist á nýjan leik og grunnur verði lagður að arðsömum framtíðarstörfum.

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir því að landsframleiðsla dragist saman um 2% á árinu en það er algjörlega háð því að framkvæmdir í Helguvík og tengd verkefni komist á skrið. Verði þær framkvæmdir ekki að veruleika á árinu spáir Seðlabanki Ísland því að landsframleiðsla muni dragast saman um 4% og atvinnuleysi verða rúmlega einu prósentustigi hærra en ella.

Í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að fjárfestingar atvinnuveganna nemi 180-190 milljörðum króna 2010. Áætlaðar fjárfestingar í Helguvík, Búðarhálsvirkjun, Hellisheiðarvirkjun og stækkun álversins í Straumsvík nema um 60-70 milljörðum. Eigendur álversins í Straumsvík hafa samþykkt að ráðast í 1. áfanga stækkunar álversins (straumhækkun) en þar er um að ræða framkvæmd upp á 13 milljarða króna sem slagar hátt í fjárfestingu allra sveitarfélaganna í landinu á árinu sem er áætluð um 15 milljarðar króna á árinu 2010. Fjárfestingar Orkuveitu Reykjavíkur eru áætlaðar um 20 milljarðar á árinu. Eftir stendur yfir 100 milljarða fjárfesting í öðrum atvinnuvegum sem erfitt er að sjá fyrir í núverandi starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Samtök atvinnulífsins