Efnahagsmál - 

14. Janúar 2010

Fjárfestingar forsenda viðsnúnings

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjárfestingar forsenda viðsnúnings

Kapp verður að leggja að koma fjárfestingum í atvinnulífinu af stað á þessu ári. Fyrirliggjandi spár um framvindu efnahagsmála á árinu gera ráð fyrir hátt í 2% samdrætti landsframleiðslu þrátt fyrir að fjárfestingar í álverunum í Straumsvík og Helguvík fari á fullt ásamt tilheyrandi virkjanaframkvæmdum. Ennfremur er miðað við að almennar fjárfestingar í atvinnulífinu taki verulega við sér.

Kapp verður að leggja að koma fjárfestingum í atvinnulífinu af stað á þessu ári.  Fyrirliggjandi spár um framvindu efnahagsmála á árinu gera ráð fyrir hátt í 2% samdrætti landsframleiðslu þrátt fyrir að fjárfestingar í álverunum í Straumsvík og Helguvík fari á fullt ásamt tilheyrandi virkjanaframkvæmdum. Ennfremur er miðað við að almennar fjárfestingar í atvinnulífinu taki verulega við sér.

Efnahagsspárnar eru líklega heldur svartsýnar að því sem snýr að útflutningi.  Staðan á hefðbundnum útflutningsmörkuðum hefur lagast en líka má búast við því að tekjur af hverskyns útflutningi s.s. ferðaþjónustu og almennri iðnaðarvöru og þjónustu vaxi umtalsvert. Það gæti dregið úr samdrætti í efnahagslífinu.

Fjárfestingar í atvinnulífinu eru áætlaðar milli 180 og 190 milljarðar króna á þessu ári (12% af VLF). Þrátt fyrir að stærstu einstöku fjárfestingarnar eigi samkvæmt áætlunum að vera í virkjunum og álverum liggur fyrir að fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum þurfa að fjárfesta fyrir á annað hundrað milljarða króna til þess að spár gangi eftir.

Fjárfestingarnar eru sérstaklega mikilvægar vegna þess að skattar eru hækkaðir á sama tíma og efnahagslífið dregst saman. Það verður að stuðla að því skattstofnarnir vaxi þegar skattar eru hækkaðir jafn mikið og nú hefur verið ákveðið eða um rúma 70 milljarða á árunum 2009 og 2010. 

Fjárfestingarnar eru líka forsenda þess að skapa framtíðarstörf. Við fall bankanna hvarf mikilvæg tekjulind fyrir þjóðina og vel launuð störf glötuðust. Ný störf þarf í útflutningsstarfsemi til þess að ná fyrri lífskjörum þjóðarinnar.

Til skamms tíma skipta fjárfestingarnar máli vegna þess að þær skapa aukna eftirspurn, umsvif og atvinnu á meðan uppbyggingin stendur yfir. Á atvinnuleysistímum eins og nú hljóta fjárfestingar í atvinnulífinu ekki aðeins að vera kærkomnar heldur algjörlega nauðsynlegar.

En fyrst fjárfestingar í atvinnulífinu hafa þessa lykilþýðingu, hvernig stendur þá á því að allir ráðamenn sameinast ekki um að gera þær að veruleika? Hindranirnar í vegi fjárfestinga eru bæði margar og stórar.

Til þess að fyrirtæki taki ákvörðun um fjárfestingu verður ýmislegt að vera til staðar.  Það verður að vera trú á framtíðina, þrátt fyrir að hún sé að mörgu leyti ófyrirsjáanleg, og að fjárfestingin sé arðsöm þrátt fyrir áhættu. Fjárfestingarviljinn verður að vera til staðar. Hindranir, s.s. skattar, leyfisveitingar, og ýmsar lagalegar eða stjórnsýslulegar hindranir, verða að vera yfirstíganlegar á eðlilegum tíma með eðlilegri fyrirhöfn. Síðast en ekki síst verður fjárfestingargetan að vera til staðar sem bæði snýst um fjárhagslegan styrk fyrirtækjanna og aðgang að lánsfé á viðunandi kjörum.

Til þess að setja almennar fjárfestingar í atvinnulífinu í gang af alvöru þarf að bæta aðgang að lánsfé á viðunandi kjörum. Vextir þurfa að snarlækka þannig að þeir verði á svipuðu róli og í grannlöndum okkar. Aðgangur að erlendu lánsfé verður líka að opnast því að fyrir fyrirtæki í útflutningsgreinum er yfirleitt skynsamlegt og áhættuminna að fjármagna fjárfestingar með erlendu lánsfé. Sérstakar hindranir svo sem vegna fjárfestinga í sjávarútvegi þarf að afnema með því að draga til baka áform um innköllun aflaheimilda.

Fjárfestingakostir í stóriðju og virkjunum hafa legið fyrir í nokkurn tíma en ekki orðið að veruleika. Þar er fyrst og fremst átt við framleiðsluaukningu í álverinu í Straumsvík og byggingu álversins í Helguvík ásamt tilheyrandi orkuframkvæmdum. Skilaboð ráðamanna vegna þessara framkvæmda hafa oft verið æði misjöfn og valdið töfum og óvissu. Í því sambandi má t.d. nefna tafir vegna ákvörðunar umhverfisráðherra við mat á umhverfisáhrifum vegna SV-línu, áform í fjárlagafrumvarpi um orkuskatta, skipulagsvandræði vegna virkjanaáforma HS orku og andstöðu við erlenda fjárfestingu í því fyrirtæki. Einnig er óskiljanlegur dráttur umhverfisráðherra að staðfesta aðalskipulag tveggja hreppa við Þjórsá. Fullbúið skipulag hefur legið á borði ráðherra í á annað ár. Þrátt fyrir að ráðherra hafi lofað í byrjun nóvember að skipulagið yrði staðfest á allra næstu vikum bólar enn ekkert á því.

Þetta kemur til viðbótar þeim erfiðleikum sem fylgja því að fá erlent lánsfé til fjármögnunar orkuframkvæmda en þeir eru ærnir og Icesave deilan veldur frekari töfum og óvissu vegna þeirra mála.

Nú þegar árið er hafið eru útistandandi alltof margar hindranir í veginum fyrir því að fjárfestingar í íslensku atvinnulífi verði nægilegar til þess að komast út úr kreppunni á þessu ári, ná einhverjum hagvexti á nýjan leik og leggja grunn að arðsömum framtíðarstörfum.

Nauðsynlegt er að framgangur fjárfestinga í atvinnulífinu fái þann forgang sem þarf til þess að efnahagsáætlanir gangi eftir á þessu ári og hægt verði að kveikja einhver bjartsýnisljós í íslensku efnahagslífi.

     

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA í janúar 2010

Samtök atvinnulífsins