Efnahagsmál - 

27. Mars 2013

Fjárfestingar fjölga störfum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjárfestingar fjölga störfum

Til að fjölga störfum á Íslandi þarf að auka umsvif í atvinnulífinu og fjárfesta í aukinni framleiðslu- og þjónustugetu. Undanfarin fjögur ár hafa fjárfestingar í heild og fjárfestingar atvinnulífsins verið í sögulegu lágmarki. Litlar fjárfestingar undanfarinna ára valda því að störfum fjölgar hægt, það dregur hægt úr atvinnuleysi og fólk heldur áfram að leita betri afkomu með því að flytja úr landi. Tækifærin til að snúa við blaðinu blasa hins vegar við.

Til að fjölga störfum á Íslandi þarf að auka umsvif í atvinnulífinu og fjárfesta í aukinni framleiðslu- og þjónustugetu. Undanfarin fjögur ár hafa fjárfestingar í heild og fjárfestingar atvinnulífsins verið í sögulegu lágmarki. Litlar fjárfestingar undanfarinna ára valda því að störfum fjölgar hægt, það dregur hægt úr atvinnuleysi og fólk heldur áfram að leita betri afkomu með því að flytja úr landi. Tækifærin til að snúa við blaðinu blasa hins vegar við.

Ferðaþjónustan er dæmi um grein sem hefur notið hagstæðra ytri skilyrða á undanförnum misserum og ákveðins skilnings stjórnvalda á mikilvægi þess að auka umsvif greinarinnar og fjölga þar með störfum. Of miklar skattahækkanir hafa hins vegar orðið til þess að tækifærin hafa ekki verið nýtt sem skyldi. Með því að ráðst í umbætur á skattkerfinu og leyfa öðrum greinum að vaxa og dafna eins og íslensk ferðaþjónusta hefur gert verður framtíðin björt.

Það er ánægjulegt að sjá hagfelld rekstrarskilyrði endurspeglast í auknum fjárfestingaráformum í ferðaþjónustu eins og fram kemur í nýlegri könnun Capacent fyrir SA og Seðlabankann sem gerð var  í mars meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækjanna. Í byggingariðnaði, þar sem mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf er til staðar, er líka útlit fyrir auknar fjárfestingar en almennt er gert ráð fyrir minni fjárfestingum á árinu 2013 en 2012.

Óviðunandi staða
Þrátt fyrir þetta er fjárfesting í öllum atvinnugreinum í lágmarki og horfur slæmar ef ekki verður breytt um stefnu. Á síðasta ári hefðu fjárfestingar til að mynda þurft að vera allt að 150 milljörðum króna meiri til að vera í samræmi við meðaltal fjárfestinga á Íslandi síðustu 67 árin eða um 24% af landsframleiðslu. Heildarfjárfestingar á Íslandi árið 2012 hefðu því þurft að vera yfir 400 milljarðar króna í stað 250 milljarða.

Meðfylgjandi mynd sýnir fjárfestingar áranna 1945 til 2011 sem hlutfall af landsframleiðslu en tölurnar fyrir 2012 eru svipaðar því sem átti við um 2011.

Fjárfestingar 1945-2011. Smelltu til að stækka.

Fjárfestingar eru nauðsynlegar til að örva hagvöxt og með auknum hagvexti skapast skilyrði til aukins kaupmáttar. Hagvöxtur verður til þess að skatttekjur hins opinbera aukast og gerir því kleift að greiða niður skuldir og smám saman að auka velferðarþjónustuna.

Verður að bregðast við
Könnun Capacent fyrir SA og Seðlabankann sem gerð var  í mars meðal stærstu fyirtækja landsins sýnir að vísitala fjárfestinga er nú lægri en undanfarin tvö ár. Verstar eru horfurnar í sjávarútvegi þar sem 60% fyrirtækja gera ráð fyrir minni eða miklu minni fjárfestingum en 2012 en einungis 3% gera ráð fyrir auknum fjárfestingum. Horfur í samgöngum, flutninga- og ferðaþjónustu eru einna bestar þar sem um 40% fyrirtækja gera ráð fyrir auknum fjárfestingum en 17% gera ráð fyrir að þær dragist saman. Svipaðar tölur koma fram fyrir byggingastarfsemi og veitur.

Fjárfestingarvísitala í mars 2013. Smelltu til að stækka.


Atvinnulífið vex ekki nema með fjárfestingum í nýsköpun, þróun nýrra afurða og hugvitssamra lausna, og með fjölgun öflugra fyrirtækja. Örva má fjárfestingar með hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrir fyrirtæki og fjárfesta. Meðal mikilvægustu þáttanna er hagstætt skattalegt umhverfi, efnahagslegur stöðugleiki, lág verðbólga og lágir vextir. Flestir þessarar þátta hafa ekki stuðlað að vænlegu fjárfestingarumhverfi hér á landi undanfarin ár.

Þá skiptir pólitískur stöðugleiki miklu máli því fjárfestar þurfa að búa við öryggi því atvinnuvegafjárfestingar eru jafnan til nokkuð langs tíma. Gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs skiptir miklu máli til að skapa hagstætt umhverfi fyrir atvinnuvegafjárfestingar.

Mikilvægt er einnig að hvatt verði til beinnar erlendrar fjárfestingar og að stjórnvöld sækist eftir slíkri fjárfestingu bæði í orði og á borði. Ástæða getur verið til að veita sérstakar ívilnanir til þeirra sem fjárfesta hér á landi meðan þörfin er jafn brýn og nú er.

Tengt efni:

Könnun Capacent fyrir SA og Seðlabanka Íslands

Samtök atvinnulífsins