Efnahagsmál - 

04. nóvember 2009

Fjárfestingar eru leiðin út úr kreppunni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjárfestingar eru leiðin út úr kreppunni

Samtök atvinnulífsins láta sig skattamál mikið varða og eru þau eitt helsta viðfangsefni samtakanna. Svo gildir einnig um hliðstæð samtök í nálægum löndum sem við berum okkur saman við, en þar starfa fjölmennar deildir sem eingöngu fást við skattamál. Skýringin á þessum áherslum samtaka atvinnurekenda er einfaldlega sú að það skattalega umhverfi sem stjórnvöld útbúa fyrirtækjum og starfsfólki er afgerandi fyrir samkeppnisstöðu fyrirtækja og möguleika þeirra til þess að sækja fram og skapa arð. Skattamál starfsfólks eru einnig fyrirtækjum og samtökum þeirra í hæsta máta viðkomandi því mikil skattbyrði þrýstir á hærri launakostnað en ella væri og háir jaðarskattar draga úr vinnuframboði starfsmanna. Mikil skattbyrði og háir jaðarskattar draga þannig úr verðmætasköpun fyrirtækja og möguleikum starfsfólks til bættra lífskjara.

Samtök atvinnulífsins láta sig skattamál mikið varða og eru þau eitt helsta viðfangsefni samtakanna. Svo gildir einnig um hliðstæð samtök í nálægum löndum sem við berum okkur saman við, en þar starfa fjölmennar deildir sem eingöngu fást við skattamál. Skýringin á þessum áherslum samtaka atvinnurekenda er einfaldlega sú að það skattalega umhverfi sem stjórnvöld útbúa fyrirtækjum og starfsfólki er afgerandi fyrir samkeppnisstöðu fyrirtækja og möguleika þeirra til þess að sækja fram og skapa arð. Skattamál starfsfólks eru einnig fyrirtækjum og samtökum þeirra í hæsta máta viðkomandi því mikil skattbyrði þrýstir á hærri launakostnað en ella væri og háir jaðarskattar draga úr vinnuframboði starfsmanna. Mikil skattbyrði og háir jaðarskattar draga þannig úr verðmætasköpun fyrirtækja og möguleikum starfsfólks til bættra lífskjara.

Skattar geta verið skaðlegir

Ríkisstjórnin hefur boðað miklar skattahækkanir í fjárlagafrumvarpinu. Raunar mun meiri heldur en gert var ráð fyrir í forsendum stöðugleikasáttmálans sem gerður var í lok júní síðastliðnum en hvað sem því líður er flestum ljóst að ekki verður unnt að brúa það bil sem er milli tekna og gjalda ríkissjóðs með skattahækkunum og niðurskurði útgjalda. Þótt sköttum sé ætlað að afla tekna til nauðsynlegrar samfélagsþjónustu getur ákveðin tegund af sköttum verið skaðleg og haft mjög slæm áhrif. Skattar sem draga úr vilja og getu til fjárfestinga eru t.d. almennt séð mjög varhugaverðir einkum á þeim krepputímum sem við lifum nú á.

Áhættusöm áform um orkuskatta

Tillögur ríkisstjórnarinnar um sérstaka orkuskatta bera þá hættu í sér að setja í uppnám eða slá alveg út af borðinu ýmis framkvæmdaáform sem hafa verið í undirbúningi undanfarna mánuði. Það yrði hörmuleg niðurstaða enda eru framkvæmdirnar við byggingu álvers í Helguvík og stækkunin í Straumsvík mikilvægar forsendur þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrumvarps fyrir árið 2010. Færu þessar framkvæmdir af stað á næstunni gætu þær bætt stöðu ríkissjóðs um allt að 17 milljarða króna á næstu einu til tveimur árum.  Þá eru ótalin tekjuáhrif opinberra aðila af byggingu virkjana og öðrum fjárfestingarverkefnum sem eru í augsýn, s.s. netþjónabúum.

300.000 tonna álver eykur VLF um 2% og styrkir gjaldeyrisöflunina

Í umfjöllun andstæðinga álvera þessa dagana eru ýkjur áberandi og upplýsingar villandi. Annars vegar er lítið gert úr mikilvægi áliðnaðarins og hins vegar mikið úr hagnaði hans. Um þetta mátti sjá dæmi í grein Sverris Jakobssonar í Fréttablaðinu þann 3. nóvember sl.  Um umsvifin og mikilvægi fyrir þjóðarbúskapinn má taka dæmi af álveri sem framleiðir 300.000 tonn á ári og fær að jafnaði greidda 2.200 USD pr. tonn. Þá verða árstekjurnar 660 milljónir USD. Nálægt helmingi tekna álvera er varið til hráefniskaupa en næst stærsti kostnaðarliðurinn er orkukaup, rétt um fimmtungur. Áætlað er að innlendur kostnaður í heild sé um 35-40% í hlutfalli við tekjur.  

Miðað við gengi að krónunnar sé 125 fyrir dollarann eins og nú háttar þá verða tæpir 30 milljarðar króna eftir í landinu á ári hverju í formi greiðslna fyrir orku, vinnulaun, aðkeypta þjónustu og skatta. Slík umsvif  samsvara 2% af vergri landsframleiðslu og  eru jafnframt 4% hrein viðbót við útflutningstekjur, þ.e. að frádregnum aðföngum. Í landinu eru nú framleidd um 800 þúsund tonn af áli árlega og vega því bein og óbein umsvif áliðnaðarins 5% af VLF og er gjaldeyrisjöfnuður landsmanna  rúmlega 10% hagstæðari en ef hann starfaði ekki í landinu, en það samsvarar um 80 milljarða hreinum gjaldeyristekjum á ári.

Hannes G. Sigurðsson

Samtök atvinnulífsins