Menntamál - 

08. September 2011

Fjárfesting í menntun skilar arði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fjárfesting í menntun skilar arði

"Fjárfesting í menntun er fjárfesting sem skilar arði" sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, við undirskrift samninga um verkefnið Nám er vinnandi vegur, þar sem því var fagnað að átakið hefur fengið fljúgandi byr. Aðilar vinnumarkaðarins sömdu við ríkisvaldið síðastliðið vor um þessa fjárfestingu samhliða kjarasamningum. Markmiðið er að fyrirtæki hafi aðgang á hverjum tíma að vel menntuðu fólki til fjölbreytilegra starfa. Til þess þarf að auka menntunarstig þjóðarinnar og skiptir miklu að þeim, sem af ýmsum ástæðum hafa hætt námi á framhaldsskólastigi, sé gert kleift að mennta sig til starfa sem bjóðast nú og hugur þeirra stendur til.

"Fjárfesting í menntun er fjárfesting sem skilar arði" sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, við undirskrift samninga um verkefnið Nám er vinnandi vegur, þar sem því var fagnað að átakið hefur fengið fljúgandi byr. Aðilar vinnumarkaðarins sömdu við ríkisvaldið síðastliðið vor um þessa fjárfestingu samhliða kjarasamningum. Markmiðið er að fyrirtæki hafi aðgang á hverjum tíma að vel menntuðu fólki til fjölbreytilegra starfa. Til þess þarf að auka menntunarstig þjóðarinnar og skiptir miklu að þeim, sem af ýmsum ástæðum hafa hætt námi á framhaldsskólastigi, sé gert kleift að mennta sig til starfa sem bjóðast nú og hugur þeirra stendur til.

Átakið er tvíþætt. Ákveðið var að framhaldsskólar landsins opnuðu dyr sínar og byðu nám við hæfi öllum undir 25 ára aldri sem uppfylla inngönguskilyrði. Í haust hófu um 1.200 fleiri ungmenni nám í framhaldsskóla en árið áður. Einnig var ákveðið að skapa ný námstækifæri fyrir allt að 1.000 atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu 2 ár þar á eftir í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og í framhaldsfræðslu. Á fyrsta misseri náms halda þeir atvinnuleysisbótum enda sýni þeir viðunandi námsárangur. Atvinnuleysistryggingasjóður er fjármagnaður með launatengdum gjöldum atvinnurekenda vegna starfsmanna sinna. Á vormisseri munu þúsundmenningarnir síðan eiga annað hvort kost á framfærsluláni hjá LÍN eða sérstöku framfærsluúrræði sem verið er að útfæra í samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Við kynningu á þessu verkefni hjá Vinnumálastofnun í vor kom strax í ljós mikill áhugi.

Af þeim sem voru á atvinnuleysisskrá og hefja nám á þessu hausti, fer rúmur helmingur í framhaldsskóla, tíundi hver í frumgreinadeildir og tæpur þriðjungur í háskóla. Mikill meirihluti stefnir í starfsnáms- og tæknibrautir. Á framhaldsskólastiginu er aðsóknin nær öll í tækni-, iðn- og fjölbrautarskóla. Á háskólastigi sækir stærstur hluti umsækjenda í tæknitengt nám. Reynt verður að gæta þess að þessir nemendur sem aðrir fái nauðsynlegan stuðning í skólunum til að þetta námstækifæri nýtist þeim sem best.

Samtök atvinnulífsins