16. nóvember 2022

Fjaðurmögnuð mörgæs

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Fjaðurmögnuð mörgæs

Íslenska er mál atvinnulífsins

Íslenska er mál atvinnulífsins og Samtök atvinnulífsins hafa frá því þau gerðust stofnaðilar að Almannarómi árið 2014 haft máltækni sem sérstakt áherslusvið. Því hefur verið fylgt stöðugt eftir með ráðstefnum, ræðum, fundum og stuðningi við aðgerðir Alþingis og ríkisstjórnar.

Nú eru rétt 215 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar sem var einn orðhagasti Íslendingur fyrr og síðar og á heiðurinn af fyrirsögn þessarar greinar.

Fólk hefur lagt fyrir sig orðasmíð og tengt saman þróun samfélags og tækni við íslenska tungu. Þar má nefna til fjölmarga einstaklinga og hópa tengda tilteknu fagi sem hafa lagt metnað í að finna íslensk orð sem ná merkingu hugtaka í sinni grein.

Íslensk tunga og menning gerir okkur að þjóð. Skáldin okkar, bæði þau sem nú eru að störfum og þau sem gengin eru, hafa orðað hugsanir sínar og komið auga á óvænt samhengi hluta á móðurmálinu. Þannig öðlumst við nýja sýn á samtíðina og liðna tíð. Það er okkar hlutverk að sjá til þess að viðhalda þessari getu meðal þjóðarinnar.

Þórarinn Eldjárn spurði að því fyrir nokkrum árum hvort ekki væri gott að „geta strax sagt höngrí við ísskápinn og flöss við klósettkassann?“ og hvort ekki væri „frábært fyrir okkur rithöfunda að stíga skrefið til fulls og komast beint inn á alþjóðamarkaðinn eina og sanna?“.

Þórarinn svaraði þessum spurningum og fleirum neitandi.

Íslenska er mál atvinnulífsins og Samtök atvinnulífsins hafa frá því þau gerðust stofnaðilar að Almannarómi árið 2014 haft máltækni sem sérstakt áherslusvið. Því hefur verið fylgt stöðugt eftir með ráðstefnum, ræðum, fundum og stuðningi við aðgerðir Alþingis og ríkisstjórnar.

Almannarómur er óháð sjálfseignarstofnun sem ætlað er að tryggja að íslenska sé notuð í allri tækni. Stofnunin sér um að framkvæma og fylgja eftir máltækniáætlun stjórnvalda. Þar er verið að byggja upp tækni og tól sem skilja íslenskt mál og geta breytt því í skrifaðan texta, vélar sem þýða erlendan texta á íslensku og leiðréttingarforrit sem leiðrétta stafsetningu, fallbeygingu og lagar texta að íslenskum málreglum.

Máltækni er ekki síður mikilvæg þegar kemur að því erlendir einstaklingar geti öðlast fulla virkni á íslenskum vinnumarkaði. Ég hef áður bent á að samhent átak atvinnulífs og stjórnvalda þurfi til að brjóta niður tungumálamúrinn. Það þýðir ekki að sitja einungis námskeið svo vikum og mánuðum skiptir og ég er sannfærður um að með máltækni sé leiðin til að læra íslensku bæði greiðari og sveigjanlegri. Við þurfum að finna lausnir til að gera fólki auðveldara að læra íslensku. Máltækni er lykillinn að því.

Sem betur fer hafa Alþingi og ríkisstjórn lagt verulegt fé til uppbyggingar máltækni á undanförnum árum. Á því má ekki verða hlé. Það væri stórslys.

Verkefnin eru mörg. Þau eru mikilvæg. Undir er það sem gerir okkur að þjóð. Menningin og tungan.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. nóvember 2022

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins