Efnahagsmál - 

27. júní 2002

Fiskur og stækkun ESB: ekki sömu lausn og síðast

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fiskur og stækkun ESB: ekki sömu lausn og síðast

Ráðgjafarnefnd Evrópska efnahagssvæðisins hefur samþykkt ályktun um stækkun ESB og framtíð EES-samningsins, þar sem áhersla er lögð á mikilvægi þess að stækkun EES fari fram samtímis stækkun ESB og á nauðsyn þess að án tafar verði fundin lausn á spurningum um framkvæmd stækkunar EES. Nefndin leggur í ályktuninni áherslu á að stækkun ESB og EES muni verða jákvæð þróun fyrir álfuna alla og skapa ný tækifæri jafnt fyrir fyrirtæki og neytendur. Þá hvetur nefndin ríkisstjórnir EES EFTA-ríkjanna til að efla samskipti sín við væntanleg aðildarríki ESB.

Ráðgjafarnefnd Evrópska efnahagssvæðisins hefur samþykkt ályktun um stækkun ESB og framtíð EES-samningsins, þar sem áhersla er lögð á mikilvægi þess að stækkun EES fari fram samtímis stækkun ESB og á nauðsyn þess að án tafar verði fundin lausn á spurningum um framkvæmd stækkunar EES. Nefndin leggur í ályktuninni áherslu á að stækkun ESB og EES muni verða jákvæð þróun fyrir álfuna alla og skapa ný tækifæri jafnt fyrir fyrirtæki og neytendur. Þá hvetur nefndin ríkisstjórnir EES EFTA-ríkjanna til að efla samskipti sín við væntanleg aðildarríki ESB.

Samstaða um ásættanlega lausn á fiskútflutningi
Í ályktun sinni fjallar nefndin jafnframt um áhrif stækkunar ESB á fiskútflutning EFTA-ríkjanna til núverandi umsóknarríkja. EFTA-ríkin hafa samið um nær algera fríverslun með fisk við umrædd ríki en við aðild þeirra að ESB falla fríverslunarsamningarnir úr gildi. Við síðustu stækkun ESB fengu Ísland og Noregur viðbótarkvóta án tolla til sambandsins, byggðan á útflutningi síðustu þriggja ára til viðkomandi ríkja. EFTA-ríkin hafa ítrekað bent á að þar sem um mjög vaxandi markaði er að ræða í umsóknarríkjunum væri sambærileg lausn ekki sanngjörn að þessu sinni og hafa þau í staðinn viljað semja um almennar lækkanir eða afnám tolla til ESB. Í ályktun sinni hvetur ráðgjafarnefnd EES alla aðila til að leggja sitt af mörkum til að finna ásættanlega lausn á þessu máli. Nefndin segist þeirrar skoðunar að finna verði lausn þar sem horft sé fram á við, fremur en að einfaldlega sé byggt á útreikningum á viðskiptum síðustu ára.


Ráðgjafarnefnd EES samanstendur af ráðgjafarnefnd EFTA annars vegar og fulltrúum efnahags- og félagsmálanefndar ESB (European Economic and Social Committee) hins vegar, þ.e. fulltrúum aðila vinnumarkaðar og fleiri hagsmunasamtaka í löndum Evrópska efnahagssvæðisins.

Sjá ályktun nefndarinnar á heimasíðu EFTA.

Samtök atvinnulífsins