Fer heimurinn batnandi?

Framan af minni tiltölulega stuttu ævi var ég haldinn þeirri firru að heimurinn færi alltaf batnandi. Þegar ég segi batnandi þá segi ég það út frá minni skilgreiningu á því hvað góður heimur er. Í mínum huga er það heimur þar sem frjálslyndi og markaðs- og alþjóðahyggja eru ráðandi með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á lífsgæði allra. Þar sem allir fá notið sín án tillits til uppruna, kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, fötlunar og svo framvegis.

Það er ekki að ástæðulausu sem Samtök atvinnulífsins hafa tileinkað nóvembermánuði jafnrétti og fjölbreytileika í víðum skilningi. Það er ekki bara siðferðisleg skylda okkur að bjóða öllum upp á jöfn tækifæri á vinnumarkaði, heldur borgar það sig efnahagslega. Við höfum hingað til almennt ekki verið mjög opin fyrir innkomu útlendinga á vinnumarkaðinn nema að svo miklu leyti sem við höfum verið neydd til þess vegna skuldbindinga okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu. Ríkisstjórnin steig mjög jákvæð skref í síðustu viku þegar opnað var á að erlendir sérfræðingar gætu unnið í fjarvinnu á Íslandi. Næsta skref hlýtur að vera að opna enn frekar á að fólk geti komið hingað til starfa óháð tekjum og starfssviði.

Við sjáum á uppgangi lýðhyggju, íhaldssemi og einangrunarhyggju í mörgum löndum í kringum okkur að það er ekki svo einfalt að heimurinn fari batnandi. Þótt heilt yfir fari okkur fram og lífsgæði fari batnandi til lengri tíma þá eru stundum tekin stór skref aftur á bak. Lýðræði og mannréttindi geta verið fallvölt. Það er hlutverk okkar allra að passa upp á þetta.

Davíð Þorláksson er forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. nóvember 2020