Félagsdómur túlkar útkallsákvæði kjarasamninga

Fallið hafa tveir dómar í Félagsdómi um skilning á útkallsákvæðum kjarasamninga.


Endurtekin útköll
Í fyrra málinu var dæmt að ekki sé um nýtt útkall að ræða þegar haft er samband við starfsmann, sem þegar hefur verið kallaður út, og hann beðinn að vinna annað verk innan útkallstímans. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaðurinn er á þeirri stundu staddur á vinnustaðnum eða utan hans. Starfsmaður, sem kallaður hefur verið út, sé þar með kominn í vinnuna næstu 4 klukkustundir en það er sú lágmarksgreiðsla sem umrætt samningsákvæði tryggir.  Byggir dómurinn á því að ekki sé greitt fyrir óunninn tíma nema skýr og ótvíræð ákvæði kjarasamnings kveði á um slíkt. Sjá mál nr. 5/2003. 

Fjarlausnir og símtöl
Í síðara málinu var dæmt að útkallsákvæði kjarasamnings ættu einungis við um kvaðningu til vinnu sem feli í sér að starfsmaður þurfi að fara á vinnustað. Sjá mál nr. 6/2003 (pdf-skjal).