Fasteignamat hækkar skattbyrði fyrirtækja um 1,3 milljarða

Þjóðskrá Íslands hefur nú birt nýtt fasteignamat sem taka á gildi í janúar 2016. Hækkun mats á atvinnuhúsnæði er 2,4%. Á síðasta ári hækkaði fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 12,4% en ennþá meira á stórum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu eða um 18%. Fasteignagjöld hefðu hækkað um sambærilegt hlutfall, eða alls um 1.300 milljónir króna á landinu öllu, en vegna þess að ákveðið var að hækkun síðasta árs taki gildi í áföngum  munu fasteignaeigendur ekki finna að fullu fyrir hækkuninni fyrr en með álagningu gjaldanna á árinu 2016.

Samtök atvinnulífsins benda fasteignaeigendum á að kynna sér breytingar á mati eigna sinna og að nýta sér heimild til að gera athugasemdir vegna þess fyrir 1. september nk.

Dæmi um 100% hækkun
Ástæða hækkaðs fasteignamats er að á síðasta ári hratt Þjóðskrá Íslands í framkvæmd breyttri aðferðafræði við fasteignamat á meirihluta verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á landinu. Ný matsaðferð olli 18% hækkun á 68% skrifstofu- og verslunarhúsnæðis í Reykjavík en hækkunin var afar misjöfn eftir tegundum eigna og svæðum en fjölmörg dæmi eru um fasteignir þar sem matið hækkaði um og yfir 100% milli ára. Fyrir stór fasteignafyrirtæki getur hækkun fasteignagjalda í kjölfarið numið tugum milljóna króna á ári.

Löglegt?
Samtök atvinnulífsins mótmæltu boðuðum breytingum fyrir gildistöku þeirra og gagnrýndu skamman fyrirvara á svo viðamikilli breytingu og að undirbúningurinn hefði verið án alls samráðs við hagsmunaaðila. Samtökin hafa leitað eftir því við innanríkisráðuneytið að ný og breytt aðferðafræði yrði kynnt öllum aðilum þannig að unnt væri að koma að athugasemdum áður en breytingarnar tækju gildi. Ráðuneytið hafnaði því en ákvað að leggja til að nýtt mat taki gildi á tveimur árum. Fasteignaeigendur munu því finna fyrir nýja matinu af fullum þunga á næsta ári.

Samtökin telja einnig vafa leika á að svo mikil breyting á aðferð við skattlagningu fái staðist lög. Fasteignamat, sem er ákveðið af Þjóðskrá, myndar stofn fyrir fasteignagjöld en samkvæmt stjórnarskrá Íslands má engan skatt leggja á né breyta nema með lögum. Almennt er óheimilt að framselja lagasetningarvald til stjórnvalda. Fasteignamat er, ólíkt flestum öðrum skattstofnum, byggt á matskenndri ákvörðun stjórnvalds og því er afar mikilvægt að sá grundvöllur skattlagningarinnar eigi sér skýra stoð í lögum.

Breytt aðferðafræði
Heimild Þjóðskrár Íslands til skráningar og mats fasteigna byggir á lögum nr. 6/2001 en samkvæmt þeim skalskráð matsverð fasteignar vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum á tilteknum tímapunkti. Auk þess gilda ákvæði reglugerðar nr. 406/1978 en þar kemur fram að tilteknir þættir fasteignar séu metnir til grunnverðs, en síðan skal meta gangverð eignar í heild. Þannig á fasteignamat að endurspegla að svo miklu leyti sem hægt er endursöluverðmæti fasteignar.

Hin nýja aðferðafræði Þjóðskrár byggir á leigutekjum sem miðast við gæði, ástand og staðsetningu. Leigutekjur eru miðaðar við tiltekið fermetraverð og margfaldað með ýmsum stuðlum, s.s. geymslurými, aldur, staðsetningu á hæð o.fl. Er því verið að hverfa frá áralangri venju við að byggja matið á endursöluverðmæti og þess í stað horft til möguleika til tekjuöflunar. Núgildandi lagaákvæði gera ráð fyrir að heimilt sé að ákveða matsverð fasteignar eftir bestu fáanlegri vitneskju um gangverð sambærilegra eigna með hliðsjón af tekjum af þeim þegar gangverð fasteignar sé ekki þekkt. Samtökin telja að þessi undantekningarheimild feli ekki í sér nægilega lagastoð fyrir grundvallarbreytingu á mati stórs hluta atvinnuhúsnæðis.

Málið fari fyrir dóm
Samtök atvinnulífsins telja að ríkisstofnun geti ekki ein og sér tekið ákvörðun um að breyta áratugalangri framkvæmd sem hækkar um leið skattbyrði atvinnulífsins um milljarða króna án þess að mælt sé fyrir um slíkt í lögum. Auk þess eru tekjur félaga skattlagðar samkvæmt lögum um tekjuskatt og felur því breytingin í að metnar tekjur af fasteignum verða skattstofn til sveitarfélaga án þess að Alþingi hafi veitt skýra heimild til þess.

Fjölmörg fyrirtæki hafa á þessu ári lýst yfir óánægju sinni með hækkun fasteignagjalda og nýrri aðferðafræði. Olli það sérstakri óánægju að kærufrestur vegna fasteignamats þessa árs var þá þegar liðinn.

Með nýju mati sem birt var nú í júní hófst nýr frestur til að gera athugasemdir við fasteignamatið sem rennur út 1. september næstkomandi. Er slík kæra nauðsynleg til að tryggja að álögð gjöld samkvæmt hækkuðu mati fáist leiðrétt ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að forsendur matsins standast ekki.

Samtök atvinnulífsins hvetja félagsmenn sína til að kynna sér breytingar á fasteignamati undanfarin tvö ár og gera athugasemdir við það ef ástæða er til. Samtökin telja jafnframt mikilvægt að skorið verði úr um lögmæti breytinganna í dómsmáli sem hefði þá fordæmisgildi fyrir allt atvinnulífið. SA hafa aflað gagna sem nýst geta í slíku máli.

Tengt efni:

Viðtal við Pétur Reimarsson, forstöðumann hjá SA í Bítinu á Bylgjunni.