Fann sjálfsöryggið eftir að hafa misst sjónina

Fyrir rúmlega tveimur árum síðan missti maður sjónina sem hafði unnið að innflutningi  og markaðssetningu á ýmsum vörum auk þess að vinna við bókhald og uppgjör. Áfallið var mikið og hann einangraðist félagslega í kjölfarið.

Þrátt fyrir að teljast lögblindur með aðeins 5% sjón átti hann sér þá ósk heitasta að komast aftur inn á vinnumarkaðinn og öðlast nýja þekkingu og reynslu. Hann gat ekki lengur fært bókhald en ákvað þess í stað að einbeita sér að því að fá góðar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Með aðstoð Íslensku auglýsingastofunnar og Virk – starfsendurhæfingarsjóðs fann hann sjálfsöryggið á ný.

Aftur á vinnumarkað
Guðmundur Maríusson, fjármálastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, segir í samtali við SA að Íslenska hafi reglulega tekið þátt í samfélagslegum verkefnum en þau hafi hingað til miðast við aðstoð við markaðssetningu og gerð auglýsingaefnis. Stjórnendur auglýsingastofunnar vildu hins vegar ganga skrefinu lengra og hjálpa fólki sem hafði lent í erfiðleikum inn á vinnumarkaðinn á ný.

Guðmundur segir að það hafi legið beint við að leita til Virk en hann segir að án aðkomu sjóðsins hefði Íslenska aldrei náð markmiði sínu. Fyrir þá sem ekki þekkja til Íslensku auglýsingastofunnar þá er hún ein af stærstu auglýsingastofum landsins og hefur verið í rekstri í nær 30 ár. Þar starfa um 50 starfsmenn á aldrinum 26-62 ára með fjölbreytta reynslu og bakgrunn.

Hugmyndasmiðir sem hika ekki við að skjóta niður hugmyndir kollega dag frá degi brugðust öðru vísi við þegar viðskiptavinur Virk setti fram sínar hugmyndir. „Ég er blindur en ég er ekki með berkla,“ sagði hann þá með bros á vör og baðst ekki undan gagnrýni á það sem hann hafði fram að færa.

Farsælt samstarf
Samskipti Íslensku og Virk hófust á haustmánuðum 2016. Eftir nokkra fundi með Virk og markaðsmanninum var búin til vinnuáætlun. Markmiðið var að á átta vikum myndi viðskiptavinur Virk fá innsýn í hugmyndavinnu auglýsingastofunnar og framleiðslu auglýsinga sem hann gæti síðan nýtt sér til að komast í vinnu á nýjan leik. Að sama skapi voru allir starfsmenn auglýsingastofunnar upplýstir um að von væri á nýjum tímabundnum starfsmanni frá Virk og hvert markmiðið með komu hans væri. Allir voru því vel upplýstir en margt kom þó á óvart.

Rekist á veggi
Húsnæði Íslensku auglýsingastofunnar í Þingholtunum er reisulegt en gamalt og Guðmundur segist hafa haft af því nokkrar áhyggjur að maðurinn ætti í erfiðleikum með að rata um húsið. „Húsnæði stofunnar til 20 ára er ekki mjög þægilegt fyrir blinda eða fatlaða. Það eru margir stigar í húsinu og mörg herbergi sem eru hvert inn af öðru. Bara það að læra á húsnæðið er mikið mál fyrir blindan einstakling.“

Áhyggjurnar reyndust hins vegar óþarfar. „Viðkomandi var ótrúlega fljótur að finna sínar leiðir í húsinu og hann var ekki lengi að finna skrifstofuna mína. Hann var líka fljótur að finna eldhúsið og kaffivélina í kjallaranum. Eftir aðeins tvo daga þekkti hann húsið eins og hver annar starfsmaður.“

Það voru hins vegar starfsmenn Íslensku sem rákust á veggi. Hugmyndasmiðir sem hika ekki við að skjóta niður hugmyndir kollega dag frá degi brugðust öðru vísi við þegar viðskiptavinur Virk setti fram sínar hugmyndir. Þeir voru jafnvel  hræddir um að honum myndi sárna ef þeir sögðu hugmyndir hans ekki nógu góðar. Sumir voru jafnvel feimnir við að eiga samskipti við hann. „Ég er blindur en ég er ekki með berkla,“ sagði hann þá með bros á vör og baðst ekki undan gagnrýni á það sem hann hafði fram að færa. „Þetta kom okkur stjórnendum á óvart enda hugmyndafólk almennt mjög opið og segir skoðun sína á mönnum og málefnum yfirleitt umbúðalaust.“

„Við lærðum margt út frá stjórnun en þó fyrst og fremst rann upp fyrir starfsfólkinu hvað við erum flest heppin að vera ófötluð. Eitthvað sem við teljum sjálfgefið en er það ekki."

Skýr rammi
Í upphafi gerði Íslenska auglýsingastofan og Virk samning um átta vikna vinnuprófun sem svo er kölluð. Vinnuprófun er starfsendurhæfing á vinnustað, sem felur í sér skipulagða ólaunaða viðveru á vinnustað með vel skilgreindri þátttöku.

Maðurinn mætti í vinnu í tvo og hálfan dag í viku og stóð sig vel, kom með hugmyndir og var virkur en á móti kom að þar sem hann var ekki í meiri vinnu þá missti hann oft af fundum og átti erfitt með að ná heildarsamhengi miðað við þá sem voru í fullri vinnu. Með aðstoð hljóðgervils las hann tölvupósta og stofan útvegaði honum stóran tölvuskjá til að vinna með.

Erfitt áreiti
Það er mikið líf á auglýsingastofum og áreiti, sérstaklega fyrir þá sem hafa verið heima í tvö ár. „Það er mikil ferð á starfsmönnum, þeir koma með spurningar og eru svo roknir aftur. Það er erfitt að vera í svona umhverfi þegar heyrnin er notuð sem aðal skynfærið,“ segir Guðmundur en allt þróaðist þetta í rétta átt með hverri vikunni. „Hann varð smátt og smátt öruggari og náði að venjast hraðanum á stofunni.“ Guðmundur segir að þó svo að viðskiptavinur Virk hafi misst sjónina þá hafi hann síður en svo misst húmorinn og hann átti til að gera grín að mönnum þegar þeir voru að hjálpa honum . „Hann var léttur og þegar maður missti út úr sér „sjáðu hérna“ þá kom hann á eftir manni og rak nefið í það sem ég ætlaði að sýna honum og beið viðbragða.“

Á síðasta ári hurfu fleiri út af íslenskum vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku heldur en þeir Íslendingar sem komu inn á hann.

Jákvæð reynsla
Samstarfið við Virk reyndist jákvætt að sögn Guðmundar og reynslan margþætt. „Við lærðum margt út frá stjórnun en þó fyrst og fremst rann upp fyrir starfsfólkinu hvað við erum flest heppin að vera ófötluð. Eitthvað sem við teljum sjálfgefið en er það ekki.  Koma hans á stofuna vakti jafnframt hinn almenna starfsmann til umhugsunar um tillitssemi gagnvart náunganum.“

Að átta viknum loknum fóru Íslenska og Virk yfir markmiðin sem sett höfðu verið. Margt hafði áunnist, sjálfsöryggi t.d. aukist með viku hverri og færni í samskiptum við annað starfsfólk. Þá hafði tölvukunnátta hans batnað mikið enda fleiri til að aðstoða á vinustaðnum en heima við. Starfsmaðurinn sinnir í dag ýmsum verkefnum á eigin vegum en er velkominn á Íslensku auglýsingastofuna til að sinna sínum verkum þegar það hentar enda líkaði honum starfsumhverfið einstaklega vel.

Brýnt verkefni samfélagsins
Um lærdóminn af öllu þessu segir Guðmundur að samstarfið við Virk hafi gengið mjög vel frá fyrsta degi og það hafi verið mjög fagmannlegt allan tímann. Án framlags Virk, áætlana og stuðnings, hefði þetta ekki verið hægt en Guðmundur hvetur fleiri fyrirtæki til að skoða hvað þau geti lagt af mörkum við að koma fólki inn á vinnumarkað á ný eftir áföll eða langvarandi veikindi.

Það er mikilvægt að vel takist til við starfsendurhæfingu á Íslandi en ef ekki væri fyrir frábæran árangur sem Virk hefur náð væri ástandið mun alvarlegra en það þó er. Til dæmis má nefna að á síðasta ári hurfu fleiri út af íslenskum vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku heldur en þeir Íslendingar sem komu inn á hann.

Viltu leggja þitt af mörkum?

Áhugasöm fyrirtæki sem vilja vinna með Virk geta haft samband við Jónínu Waagfjörð, sviðstjóra atvinnutengingar hjá Virk (joninaw@virk.is) eða í síma 535 5700.

Virk er sjálfseignarstofnun og er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða. Hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkri starfsendurhæfingarþjónustu.

Sjá nánar á vef Virk

Myndir frá Íslensku auglýsingastofunni, efst er Guðmundur Maríasson, fjármálastjóri stofunnar.