1 MIN
Fagna einföldun umsóknarferlis fyrir dvalar- og atvinnuleyfi
Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Frumvarpið felur í sér að umsýsla og útgáfa dvalar- og atvinnuleyfa verði sameinuð í einn farveg hjá Útlendingastofnun. Markmiðið er að auka skilvirkni og fyrirsjáanleika í afgreiðslu umsókna um tímabundin atvinnu- og dvalarleyfi.
SA hafa ítrekað lagt áherslu á mikilvægi þess að Ísland laði til sín erlenda sérfræðinga og að umsóknarferlið fyrir atvinnu- og dvalarleyfi sé einfalt og hraðvirkt. Samtök atvinnulífsins telja að frumvarpið sé mikilvægt skref í þá átt.
Í umsögn SA er þeirri breytingu fagnað að fella eigi niður skyldu til að leita umsagnar stéttarfélaga vegna veitingar atvinnuréttinda útlendinga. Samtökin benda á að þetta formskilyrði sé úrelt og hafi litla þýðingu þar sem Vinnumálastofnun og stjórnvöld hafi yfirsýn yfir vinnumarkaðinn. Þá sé umsagnarskyldan til þess fallin að hægja á umsóknarferlinu. Auk þess sé þekking á kjarasamningum og lágmarkskjörum aðgengileg bæði innan stjórnsýslunnar og hjá SA.
Samtökin telja að með því að sameina útgáfu leyfa hjá einni stofnun og einfalda ferlið megi draga úr biðtíma og auka skilvirkni til hagsbóta fyrir atvinnulíf og stjórnsýslu. SA hvetja til þess að frumvarpið verði samþykkt og að framkvæmd þess hefjist sem fyrst.