Vinnumarkaður - 

16. Ágúst 2012

Færri á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Færri á vinnumarkaði

Samkvæmt nýrri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar hefur þeim fjölgað sem eru utan vinnumarkaðar, eða úr 31.800 manns í júní sl. í 34.800 í júlí. "Störfum hefur ekki fjölgað frá sama tíma í fyrra og þeim fækkar mikið sem eru á vinnumarkaði. Fjölgun þeirra sem eru utan vinnumarkaðar er því meginskýringin á minnkandi atvinnuleysi milli ára," segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um niðurstöður könnunar Hagstofunnar í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag. Atvinnuþátttaka fari því minnkandi og fjöldi starfa og vinnutími standi í stað.

Samkvæmt nýrri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar hefur þeim fjölgað sem eru utan vinnumarkaðar, eða úr 31.800 manns í júní sl. í 34.800 í júlí.  "Störfum hefur ekki fjölgað frá sama tíma í fyrra og þeim fækkar mikið sem eru á vinnumarkaði. Fjölgun þeirra sem eru utan vinnumarkaðar er því meginskýringin á minnkandi atvinnuleysi milli ára," segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um niðurstöður könnunar Hagstofunnar í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag. Atvinnuþátttaka fari því minnkandi og fjöldi starfa og vinnutími standi í stað.

"Fækkun atvinnulausra í júlí skýrist þannig af fjölgun þeirra sem standa utan vinnumarkaðar," segir Hannes en Vinnumálastofnun sendi nýjar atvinnuleysistölur frá sér í vikunni. Þær sýndu 4,7% skráð atvinnuleysi í júlímánuði, tveimur prósentustigum minna en í sama mánuði í fyrra. Ný vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar sýnir 4,4% atvinnuleysi í júlí. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að þessar tölur segi aðeins hálfa söguna. Stór hópur fólks hafi horfið af vinnumarkaði að undanförnu og störfum lítið sem ekkert fjölgað.

Upplýsingar Vinnumálastofnunar og Hagstofunnar um stöðuna á vinnumarkaði eru af sitt hvorum toga, Vinnumálastofnun birtir tölur um skráð atvinnuleysi en vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar er byggð á úrtakskönnunum meðal landsmanna, sem gerðar eru með reglubundnum hætti.

Í fréttaskýringunni er bent á að hluti skýringarinnar á minnkandi atvinnuleysi á undanförnum mánuðum sé vegna árangurs af átaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem hafi boðið upp á úrræði fyrir atvinnulausa. Hátt í 1.000 manns af atvinnuleysisskrá fóru í nám um síðustu áramót og 1.453 tóku þátt í vinnumarkaðsúrræðum í júlí skv. Vinnumálastofnun.

"Það jákvæða í niðurstöðum könnunarinnar er að atvinnuleysi er minna en í júlí í fyrra og vinnutími lengri," segir Hannes G. Sigurðsson, um niðurstöður vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar í gær. "Það neikvæða er að störfum hefur ekki fjölgað frá sama tíma í fyrra og þeim fækkar mikið sem eru á vinnumarkaði."

Sjá nánar í Morgunblaðinu 16. ágúst á forsíðu og bls. 14.

Samtök atvinnulífsins